Í viðtali, stuttu eftir að öldungur Patrick Kearon hlaut köllun sína sem nýjasti meðlimur Tólfpostulasveitarinnar, sagði hann: „Ég sé meiri einfaldleika nú í fagnaðarerindinu en ég hef nokkru sinni séð áður […]“ (1). Hann var greinilega ekki að gefa í skyn að köllun hans yrði einföld. Þvert á móti talaði hann einnig um „undrun [sína] og hið yfirþyrmandi eðli þessarar köllunar“ (2). Með öðrum orðum, aðeins nokkrum dögum eftir þessa helgu köllun til að vera postuli Drottins Jesú Krists, lagði öldungur Kearon áherslu á einfaldleika fagnaðarerindisins, fremur en margbreytileika köllunar sinnar. Þessi staðreynd fékk mig til að hugleiða lexíuna „að fyrir hið smáa og einfalda verður hið stóra að veruleika“ (3).
Við lifum í heimi vaxandi margbreytileika. Bara á síðustu 25 árum hefur fjöldi tæknilegra og félagslegra breytinga átt sér stað sem hefur áhrif á daglegt líf okkar flestra (4). Þótt heimurinn hafi ætíð verið flókinn, þá getur það upplýsingaflóð sem nú streymir inn á heimili okkar, svo sem mismunandi skoðanir, félagsleg og stjórnmálaleg óvissa sem og umhverfisbreytingar, stundum virst yfirþyrmandi. Það er eins og „öll jörðin [sé] í uppnámi […]“ (5). Hvert er þá svar okkar við þessum aukna margbreytileika?
„Svarið við einföldustu spurningunum og flóknustu vandamálunum er alltaf það sama. Jesús Kristur er svarið. Sérhverja lausn er að finna í honum“ (6). Páll postuli kennir okkur að leggja áherslu á „[hreina] tryggð við Krist“ (7). Í heimi sem verður sífellt margbreytilegri getur Jesús Kristur hjálpað okkur að skilja hvað raunverulega skiptir mestu máli (8).
Nelson forseti minnti okkur á: „Óvinurinn er klókur. Í árþúsundir hefur hann látið gott sýnast illt og illt sýnast gott. Það sem frá honum kemur er hávært, hvatvíst og sjálfhælið. […] Boðskapur föður okkar á himnum er hins vegar áberandi ólíkur. Það sem frá honum kemur er einfalt, kyrrlát og svo grípandi og hreinskilið að við fáum ekki misskilið“ (9).
Þegar heimurinn hrópar hátt með misvísandi skilaboð sem eru ruglandi, yfirþyrmandi og að því er virðist flókin, þá, leggur öldungur Uchtdorf til að við notum einfaldleikann í Kristi, lækkum í þessum háværu röddum og „[tökum] eitt skref afturábak, [horfum] á líf [okkar] af hærri sjónarhóli og [einföldum] nálgun [okkar] á lærisveinahlutverkinu. [Einblínum] á grundvallarreglur, kenningar og hagnýtingu fagnaðarerindisins“ (10).
Ég hef reynt raunveruleikann um þetta í mínu eigin lífi. Þegar ég tókst á við áskoranir í fjölskyldunni, vinnunni eða kirkjuköllunum, var það oft ekki árangursrík nálgun að treysta eingöngu á eigin styrk. En að spyrja sjálfan mig þessarar einföldu spurningar: „Hvað myndi Jesús gera?“ (11) eða að íhuga einfaldar reglur fagnaðarerindisins sem gætu átt við í núverandi aðstæðum mínum, hjálpaði mér að sækja í himneskan kraft og takast á við þessar áskoranir á mun betri hátt. Vandamálin hurfu ekki endilega á braut, en ég fann styrk, von og einbeitingu í því að vinna úr áhyggjum mínum eða lifa með þeim. Glundroða var skipt út fyrir skýra hugsun og tilgang.
Öldungur Ballard minnti okkur oft á: „Hafið þetta einfalt. Það er í þessum einfaldleika sem þið munuð finna […] frið, gleði og hamingju […]“ (12). Um þetta ber ég vitni.
- „Boðskapur öldungs Kearons til fjölmiðla: Snúið ykkur að uppsprettu alls friðar — Jesú Kristi“, 23. janúar 2024 – Fréttatilkynning Salt Lake City
- „Boðskapur öldungs Kearons til fjölmiðla: Snúið ykkur að uppsprettu alls friðar — Jesú Kristi“, 23. janúar 2024 – Fréttatilkynning Salt Lake City
- Alma 37:6
- Samanber Rita McGrath, í Harvard Business Review, 31. ágúst, 2011
- Kenning og sáttmálar 45:26
- Ryan K. Olson, „Jesús er svarið“, aðalráðstefna október 2022
- 2. Korintubréf 11:3
- Sjá Dieter F. Uchtdorf, „Það sem mestu skiptir“, aðalráðstefna október 2010
- Russel M. Nelson, „Hlýð þú á hann“, aðalráðstefna apríl 2020
- Dieter F. Uchtdorf: „Það virkar dásamlega!“, aðalráðstefna október 2015
- Sjá Jeffrey R. Holland, „Gjald og blessanir lærisveinsins“, aðalráðstefna apríl 2014
- M. Russel Ballard, „Hið sanna, hreina og einfalda fagnaðarerindi Jesú Krists“, aðalráðstefna apríl 2019