Elín Wanda, íslenskur trúboði á musteristorginu í Salt Lake City snýr heim eftir 19 mánaða þjónustu.

Systir Guðnason með systur Lundkvist.
Systir Guðnason með systur Lundkvist.

Elín Wanda Guðnason, 21 árs gamall Hvergerðingur, er komin heim á ný eftir dygga trúboðsþjónustu á musteristorginu í Salt Lake City.

Musteristorgið er í hjarta borgarinnar með mörgum sögulegum byggingum og gestamiðstöðvum allt í kring, sem laðar ferðamenn að úr öllum heiminum. Einungis ungar konur, kallaðar systur, ásamt nokkrum eldri hjónum, þjóna sem fulltrúar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á þessum stað og sem leiðsegja um torgið og kynna fagnaðarerindið. Elín útskýrir:

„Ef þú myndir spyrja systur trúboða á musteristorginu hvort hún væri leiðsögumaður, myndi hún strax svara: 'Nei, ég er trúboði Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu'. Fyrir okkur er það stór munur, þótt það virðist vera það sama í augum annarra. Leiðsögumenn leiða fólk og segja þeim frá alls konar staðreyndum og sérhver leiðsögn væri sú sama endurtekin. Sem trúboðar ræðum við með fólkinu um áhyggjur þess og þarfir, þannig að sérhver leiðsögn er einstaklingsbundin. Við tölum um margt um sögu kirkjunnar og sögu musteristorgsins en síðan segjum við frá ástæðunni hvers vegna við höfum þessar byggingar. Þá kennum við um trú og traust á Guð, blessanir sem við getum fengið þegar við hlustum á orð lifandi spámanns, þegar við förum í kirkju eða heimsækjum musterið.“

Eitt einkenni musteristorgsins er, hversu alþjóðlegt það er, bæði hvað varðar þá gesti sem koma í heimsókn, en einnig koma systurnar frá 35 löndum úr öllum heimsálfum. Elín hefur fengið að kenna á fjórum tungumálum: íslensku, þýsku, dönsku og ensku. Kennsla þeirra getur verið breytileg eins og Elín greinir frá:

„Systur trúboðar á musteristorginu í Salt Lake City eru mjög einstakar og fá þær mörg tækifæri til að kenna, bæði á torginu en líka á netinu. Þar með höfum við engin takmörk, við getum komist í samband við okkar eigin lönd og tala á okkar eigin tungumáli. Saman með mínum félögum höfum við kennt fólki á Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi, Sviss, Austurríki, Taílandi, Afríku, Ástralíu, Mexíkó, Perú, Hondúras, Argentínu, Bandaríkjunum og í mörgum öðrum löndum. Ég er Guði mjög þakklát fyrir öll þessi tækifæri sem ég hef fengið til að deila mínum vitnisburði.“

Mun þetta hafa verið í fyrsta sinn sem íslensk ung kona þjónar á musteristorginu, en Elín er sjöunda íslenska systirin til að þjóna í fastatrúboði erlendis. Þetta segir hún um reynslu sína:

„Trúboðið mitt er það besta sem ég hef nokkurn tímann gert. Það hefur hjálpað mér að læra svo mikið um sjálfan mig, um fagnaðarerindið, um ritningarnar, mikið um Jesú Krist, o.fl. Það er ekkert sem ég myndi vilja gera frekar heldur en að fara eitthvert og hjálpa öðrum að finna frið og sanna gleði í gegnum Jesú Krist. Trúin mín hefur vaxið svo mikið, vegna þess að ég fékk að einbeita mér við að hjálpa öðrum, lesa ritningarnar, læra og kenna fagnaðarerindið. Guð hjálpaði mér svo mikið þar sem enginn dagur er eins. Maður fær að kynnast nýju fólki og fær fullt af nýjum tækifærum til að tala um frelsarann með öðrum. Þar sem ég fékk tækifærið til að vera svo einbeitt við að hjálpa öðrum til að koma til Krists, gat ég lært hversu mikilvægt það er að hafa Guð ávallt með okkur.“

Tveir aðrir Íslendingar þjóna í trúboði um þessar mundir, bæði tvö í Bandaríkjunum. Bjarki Bragason er í Las Vegas og Angelica Ward er í Mesa, Arizona.

Við orgelið í gömlu ráðstefnuhöllinni, Tabernacle.
Við orgelið í gömlu ráðstefnuhöllinni, Tabernacle.