Framlína kirkjuþjónustu: Biskupar

James Holt biskup, frá Manchester, Englandi.
James Holt biskup, frá Manchester, Englandi.

Biskupar í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru ekki sérmenntaðir prestar. Þess er ekki krafist að þeir hafi guðfræðigráðu og þeir þjóna í takmarkaðan tíma. Kirkjumeðlimir heiðra og virða hins vegar biskupa, því þeir trúa að biskupar séu kallaðir af Guði til að veita sér handleiðslu.

Hvað er biskup?

Biskup er leiðtogi staðarsafnaðar sem nefndur er deild. Greinarforsetar leiða fámennari söfnuði sem nefndir eru greinar. Biskup og tveir ráðgjafar hans mynda biskupsráð eða hið leiðandi ráð deildar. Samkvæmt handbók kirkjunnar, þá „ber biskupsráð ábyrgð á öllum meðlimum deildar, félögum og viðburðum.“

Ábyrgð biskups

Ábyrgð biskups er álíka og prests eða rabbína, en biskupar eru ólaunaðir og verja mörgum stundum í hverri viku í kirkjuþjónustu, og reyna jafnframt að hafa jafnvægi á milli fjölskyldulífs og fullrar atvinnu. Biskupar hafa umsjá með öllum andlegum, félagslegum og stundlegum þörfum meðlima í söfnuði þeirra og sinna jafnframt stjórnsýslustörfum. Biskupar skipuleggja t.d. guðsþjónustur, hafa umsjá með öllum félögum og ráðsmeðlimum deildar, svo og velferðarstarfi og veita meðlimum handleiðslu varðandi andlegar og stundlegar þarfir þeirra.

Að takast á við þetta verkefni, getur verið ,yfirþyrmandi,‘ segir David Newell biskup, frá Eskilstuna, Svíþjóð. „Auðvitað finnst okkur þetta yfirþyrmandi og að maður ráði varla við verkefnið,“ úrskýrir Newell biskup, „en maður tekur við áskoruninni í þeirri trú að Drottinn styðji og geri manni kleift að ná betri árangri en mögulegt væri á eigin spýtur.“

Victoria og Ben Dearnley frá Manchester, Englandi, segja að biskup þeirra hafi „auðgað líf þeirra ómælanlega“ með því að styðja þau á erfiðum tímum. „Við áttum nýlega í erfiðleikum og biskup okkar gætti þess vandlega að okkur skorti ekkert, bæði efnislega og andalega. Hann uppörvaði okkur þegar öll von virtist úti og bað fyrir okkur þegar styrkurinn virtist þverra.

Biskup hefur þann tilgang að hjálpa meðlimum í viðleitni þeirra til að fylgja Jesú Kristi og það felur í sér að hjálpa þeim sem hafa gert hafa mistök og þeim sem takast á við erfiðleika lífsins.

„Ég minnist þess að vera fyrsti gestur hjóna eftir fæðingu andvana sonar þeirra. Hvað í ósköpunum átti ég að segja?“ útskýrir Newell biskup. „Það nægði að tjá þeim elsku mína og elsku frelsarans.“

Holt biskup með fjölskyldu sinni.
Holt biskup með fjölskyldu sinni.

James Holt biskup, frá Manchester, Englandi, segir það erfiðasta við starf sitt tengjast því „þegar fólk tekur slæmar ákvarðanir sem veldur þeim sjálfum eða öðrum sársauka. Við höfum trú á sjálfræði, svo við sjáum fólk taka bæði slæmar og góðar ákvarðanir.“

Nicu Jigolea, staðarleiðtogi í Rúmeníu
Nicu Jigolea, staðarleiðtogi í Rúmeníu.

Nico Jigolea, greinarforseti eða leiðtogi fámenns safnaðar í Rúmeníu, er sammála þessu. „Erfiðast í köllun minni finnst mér vera að horfa upp á fólk taka rangar ákvarðanir og því fær það ekki notið blessana Guðs.“

Að hjálpa kirkjumeðlimum í gegnum iðrun er mikilvægur hluti af ábyrgð biskups. Daniel P. Daetwyler biskup, frá Bern, Sviss, útskýrir að hann leggi ekki dóm á þá meðlimi sem hann liðsinnir, því hann finnur að Guð elskar þá. „Ég fæ skynjað gleði frelsarans yfir hverjum sem vill iðrast og komast nær honum. Í fyrstu vakti þetta furðu mína, því okkur hættir til þess sem mönnum að upplifa vonbrigði yfir breytni sem ekki fellur að væntingum okkar. Það gerir Drottinn ekki. Ég skynja gleði hans yfir hverju barna sinna sem kemur til hans.

Ferli þess að velja biskup

Biskupar keppa ekki um leiðtogastöðu sína. Staðarleiðtogar sem nefndir eru stikuforsetar, mæla með nöfnum til Æðsta forsætisráðs kirkjunnar. Þegar nafn einhvers er samþykkt, spyr stikuforsetinn hinn mögulega biskup að því hvort hann vilji takast á við ábyrgðina og biður um stuðning eiginkonu biskupsins.

Í handbók kirkjunnar segir: „Leiðtogar leita leiðsagnar andans við að ákveða hvern skal kalla. Þeir gæta að verðugleikakröfum sem gætu verið bundnar kölluninni. Þeir gæta líka að aðstæðum viðkomandi meðlims, bæði persónulegum og fjölskyldulegum. Sérhver köllun ætti að vera til farsældar fyrir fólkið sem þjóna á, meðliminn sjálfan og fjölskyldu hans.“ 

Á um fimm ára fresti er staðarleiðtogum víxlað og því getur nágranninn fljótt orðið biskup. Holt biskup minnist þess er tilkynnt var um hann sem biskup, að „söfnuðurinn tók andköf. Ég vissi hvernig þeim leið! Ég var kvíðinn og áhyggjufullur, því ég vissi ekki hvað biði mín. Ábyrgðin er svo yfirþyrmandi að ég velti því stöðugt fyrir mér hvort ég geti staðið undir því trausti sem Drottinn hefur falið mér.“

Þegar biskup hefur loks verið valinn, er nafn hans kynnt fyrir staðarsöfnuði. Meðlimir geta sýnt að þeir styðji hinn nýja biskup með því að rétta upp hönd. Með því að rétta upp hönd eru meðlimir þó ekki að kjósa þá í embætti, heldur að sýna fullvissu um að einstaklingur hafi verið kallaður af Guði.   

Jiri Cerven, frá Tékklandi, segir að hann styðji biskup sinn með því að „spyrja hvort hann þarfnist einhverrar hjálpar. Ég rétti hátt upp hönd þegar þörf er á stuðningi. Við, sem fjölskylda, biðjum daglega fyrir velferð hans.

Þegar biskupar eru leystir af, vísa margir kirkjumeðlimir áfram til þeirra sem „biskups,“ þótt þeir hafi hlotið annað verkefni til að þjóna í söfnuðinum. „Ég vonast til þess, er ég verð leystur af, að ég verði kallaður í draumastöðu mína sem leiðtogi barnastofu, þar sem tvö ung börn mín eru nú,“ segir Paul Jared Brooks, frá Manchester, Englandi.

Hvernig biskupar þjóna nú í Evrópu

Francisco Javier Moldes er biskup á Spáni
Francisco Javier Moldes er biskup á Spáni.

Á Evrópusvæðinu eru nú yfir 1.200 þjónandi biskupar. Þótt hvert land hafi sitt tungumál og menningu, þá eru flestir biskupar sammála um að skylduverk þeirra séu svipuð. Francisco Javier Moldes Calvelo biskup, frá Madríd, Spáni, segir: „Ég geri ráð fyrir að það sé ekkert öðruvísi að vera biskup á Spáni en í einhverju öðru landi. Sérhver biskup í þessu heimi þarf að vinna að því að uppörva og innblása börn föður okkar á himnum.“Holt biskup reynir að fara að vilja Guðs við að liðsinna söfnuði sínum. „Hlutverk mitt er einfaldlega að gera það sem hann vill að ég geri varðandi líf einstaklinga og hlusta á andann. Ég einfaldlega fel allt annað í hans hendur.

Biskupar og ráðgjafar þeirra hafa líka reglubundin viðtöl við meðlimi, ellefu ára og eldri, sem er hluti af ábyrgð þeirra. Viðtölin eru höfð til að biskupsráð fái þekkt söfnuð sinn og skilji skuldbindingu hins einstaka við kirkjuna og kenningar hennar.

Maria Stoica frá Rúmeníu finnst hún geta sagt biskupi sínum frá áhyggjum sínum
Maria Stoica frá Rúmeníu finnst hún geta sagt biskupi sínum frá áhyggjum sínum.

„Í hverju viðtali finnst mér sem Drottinn vilji að ég taki framförum í lífinu og þjóni betur í köllun minni,“ útskýrir Maria Stoica, frá Rúmeníu. „Við byrjum með bæn, til að bjóða anda Drottins að vera með okkur og síðan spyr hann mig nokkurra einfaldra spurninga um andlega velferð mína. Allar spurningarnar eru einfaldar og þær fá mig til að ljúka upp hjarta mínu og greina frá áhyggjum mínum.

„Ég hef verið meðlimur kirkjunnar alla ævi og hef upplifað mörg ,biskupsviðtöl‘ og get fullvissað ykkur um að það eru viðtöl kærleika og velferðar fyrir ykkur sem einstaklingum,“ útskýrir Laura Shuttleworth, frá Manchester, Englandi. „Biskupar eru venjulegt fólk eins og ég og þú,… svo treystið Drottni og biskupi ykkar.“

Biskupar vilja hjálpa, útskýrir Calvelo biskup. „Berið ekki ein byrði syndar, þrauta eða erfiðleika,“ segir hann. „Fólk getur treyst biskupi og verið ærlegt við hann og talað frá hjartanu. Biskup þess vill sannlega hjálpa því.“ 

Calvelo biskup segir að af eigin reynslu að biskupar taki köllun sína alvarlega og þjóni af kærleika. „Ég man ekki eftir að hafa átt samskipti við nokkurn leiðtoga sem var drambsamur yfir köllun sinni, er hreykti sér upp og vildi sýna óréttlát yfirráð eða valdbeita fólk. Allir leiðtogar sem ég hef átt samskipti við hafa öllu heldur fundið fyrir hinni miklu ábyrgð köllunar sinnar.

Daetwyler biskup að það sé eins og líf manns sé skoðað með stækkunargleri að vera kallaður sem biskup. „Deildarmeðlimir fylgjast vel með öllum manns orðum og verkum, sem gerir okkur erfiðara með að sigrast á eigin veikleikum. Biskup er eins og hver annar einstaklingur, sem glímir við hverskyns ófullkomleika. Með köllun okkar höfum við þó líka gengist við þeirri ábyrgð að þjóna og elska samferðafólk okkar skilyrðislaust.“ 

Brooks biskupi er ljóst að biskupar eru ekki fullkomnir. „Það er ekki hægt að vera fullkominn biskup. Það er mögulegt að vera nokkuð góður, en manni verður alltaf eitthvað á, missir af gullnu tækifæri og gleymir einhverju.“ Hann segir biskupa þó reyna að gera sitt besta til að styrkja samfélög sín, þrátt fyrir eigin ófullkomleika. „Mér varð ljóst, við að vera biskup, að kirkjunni er stjórnað af venjulegu fólki sem reynir að framkvæma óvenjulegt verk með því óvenjulega valdsumboði sem því hefur verið falið.

Biskupar í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu þjóna sem sjálfboðaliðar. Þeir eru vissulega ekki fullkomnir, en kirkjumeðlimir meta þá sem leiðtoga, reiða sig á að þeir séu kallaðir af Guði.

Biskupar eiga reglubundið fund með meðlimum til að átta sig á þörfum þeirra.
Biskupar eiga reglubundið fund með meðlimum til að átta sig á þörfum þeirra.