Gjafir jólanna

Boðskapur svæðisleiðtoga

Gjafir jólanna
Elder Gary B. Sabin
Öldungur Gary B. Sabin Fyrsti ráðgjafi í forsætisráði Evrópusvæðisins

Þegar ég og systir Sabin vorum nýlega gift og í námi, leigðum við litla þakíbúð í Provo, Utah. Hversu ótrúlega sem það nú hljómar, þá fylgdi leigusamningnum lítill hundur eigandans, sem hét Helga. Svo virtist sem okkar megin eign á þessum tímapunkti væri hundur að láni! Ég veitti því hins vegar athygli að eiginkona mín, Valerie, hafi hengt upp lítinn veggskjöld sem á voru rituð þessi orð Ralphs Waldo Emerson: „Hringar og skart eru ekki gjafir, heldur gjafaómyndir; hin eina sanna gjöf er að gefa af sjálfum sér.“

Þessi sannleikur er settur fram í ljóðinu: „Hugsjón Launfal riddara.“ Þar er sagt frá riddara sem einsetur sér að hefja leit að hinum helga bikar sem Kristur átti að hafa sopið af í síðustu kvöldmáltíðinni. Þegar Launfal riddari hélt á braut, kastaði hann hugsunarlaust smápening að betlara við kastalahliðið.

Ár liðu og Launfal riddari snéri heim eftir að hafa slitið sér út við þessa leit sína. Þegar hann nálgaðist kastalahliðið sá hann enn á ný holdveikann mann biðja þar um ölmusu. Í þetta sinn staldraði Launfal riddari við til að bjóða hinum nauðstadda brauðskorpu og vatnssopa úr sínum gamla bikar. Orð skáldsins lýsa því sem á eftir gerðist:

„Þú hefur helgað líf þitt bikarnum helga;

Sjá, hann er hér – bikarinn sá,

er þú sjálfur fylltir í lækjarsytru einni.

Brauðið er lemstraður líkami minn.

Vatnið er blóð mitt úthelt á tré;

kvöldmáltíðin helga er viðhöfð af þér,

með hverju því sem öðrum er gefið í neyð,---

ekki er það sjálf gjöfin, heldur hjartað að baki,---

því án gjafarans er gjöfin ófullnægjandi.

Sá nærir þrjá sem af sjálfum sér gefur,

sig sjálfan, hinn nauðstadda og mig.“ [1]

Gamli bikarinn hans Launfalds riddara, helgaður af hans hugulsömu þjónustu, varð að þeim helga bikar sem hann hafði varið lífi sínu í að leita að.

Oft horfum við yfir markið í leit okkar að lífshamingju. Sannlega finnum við hana einungis fyrir þjónustu okkar við aðra, ferð sem hefst innan veggja heimilis okkar. Frelsarinn sagði: „Það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.“[2]

The Mansion, eftir Henry Van Dyke, segir frá John Weightman sem varði lífinu í að byggja minnisvarða um sig sjálfan. Nótt eina dreymdi hann að hann hefði dáið og farið til hinnar himnesku borgar, til að taka á móti höfðingjasetri sínu í samræmi við sinn áunna fjársjóð á himnum. Þegar John sá hið litla hús sem honum var ætlað, þá stundi hann: „Hvernig hefur mér skeikað svo hörmulega …í lífinu? …Hvað er það sem hér er tilreiknað?“

Silfurtær rödd svaraði: „Aðeins það sem einlæglega er gefið, … hið góða sem gert er af kærleika, …og farsæld annarra er megin hugsjónin…. Aðeins þær gjafir þar sem gjafarinn gleymir sjálfum sér.“[3]

Að gefa af sjálfum sér, er hin ómetanlega gjöf kærleika, sem vex þegar af henni er gefið. Kannski hafði frelsarinn það í huga er hann sagði: „Hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.“[4]

Megum við á þessum sérstaka árstíma minnast hinnar guðlegu gjafar sem gefin var hverju okkar frá himneskum föður: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn.“[5] Gjöf föðurins var fullgerð með fórnargjöf sonarins af sjálfum sér, er hann greiddi sérhverju okkar leið heim að nýju. Þessar gjafir óeigingirni eru sannar jólagjafir.

Monson forseti veitir kærleiksríka leiðsögn um að gefa af sjálfum sér: „Til eru hjörtu sem gleðja má. Góð orð sem segja má. Gjafir sem gefa má. Dáðir sem drýgja má. Sálir sem frelsa má.“[6]


[1] The Vision of Sir Launfal eftir James Russell Lowell (1819-1891)

[2] Matt 25:40

[3] The Mansion eftir Henry Van Dyke (1852-1933)

[4]  Matt 16:25

[5] Jóh 3:16

[6] Koma til bjargar. Æviágrip Thomas S. Monson