Hinn nýi faraldur: Brot gegn trúfrelsi

Hinn nýi faraldur: Brot gegn trúfrelsi

Trúfrelsi er meira en einfaldlega réttur manna til að trúa því sem þeir vilja. Það er frelsið til að tala og bregðast við í samræmi við grunnskoðanir sínar. Trúfrelsi verndar rétt sérhvers til að hafa eigin skoðanir og láta þær í ljós, án ofsókna, ásakana eða synjunar um jafnan rétt. Það tryggir líka að fólk geti valið sér trúarbrögð, breytt um trúarbrögð eða verið án trúarbragða, kjósi það svo.

Þessi réttur er sífellt undir árás, véfengdur og að honum þrengt. Öldungur Ronald A. Rasband, í Tólfpostulasveit Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, fjallaði um þetta efni með hópi nemenda við Brigham Young háskólann. Hann sagði: „Samfélag okkar er orðið svo blindað af þeirri viðleitni að leiðrétta óréttmæta mismunun gagnvart einum hópi fólks, að nú er hætt við að til verði annar hópur fórnarlamba: Trúað fólk eins og þú og ég.“

Hann sagði einnig frá dæmum um að trúarskólar séu véfengdir fyrir að gera kröfu um heiðursreglur. Forstjórar stórra fyrirtækja eru jaðarsettir eða neyddir til afsagnar, vegna eigin trúarskoðana, sem eru ekki lengur pólitískt ásættanlegar og fyrirtækjum er lokað eða þau gerð gjaldþrota, einungis fyrir að viðra skoðanir sínar.

Mikilvægt er að hafa þessi umskipti í huga, þar sem aukið umburðarlyndi gagnvart mismunandi lífsstíl hefur leitt til þess að trúarlegir lífshættir sæta áskorunum, ógnunum og eru teknir út úr umræðu.

Í 18. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna segir: „Öllum er áskilinn réttur til frjálsrar hugsunar, samvisku og trúar; sá réttur felur í sér frelsi til að breyta um trú eða skipta um skoðun, og frelsi til að tjá trú sína með kennslu, iðkun, tilbeiðslu og breytni.“

Á sama hátt segir 11. trúaratriði Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu: „Vér krefjumst þeirra réttinda að fá að tilbiðja almáttugan Guð, eftir því sem eigin samviska býður, og viðurkennum sömu réttindi til handa öllum mönnum. Lofum þeim að tilbiðja, hvernig, hvar eða hvað, sem þeim þóknast.“

Trúfrelsi er ekki aðeins mikilvægt fyrir meðlimi Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, heldur er þetta frelsi nauðsynlegt til iðkunar allra trúarbragða. Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Ég er jafn fús til að deyja til varnar réttindum öldungakirkjunnar, baptista eða sérhvers góðs manns einhvers trúarsafnaðar. Því ef troðið væri á réttindum Síðari daga heilagra af einhverjum ástæðum, yrði einnig troðið á réttindum rómversk kaþólskra, eða einhvers annars trúarsafnaðar, sem þætti óvinsæll og of veikburða til að verja sig sjálfur.“

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur þó lýst yfir að „trúarfrelsi er ekki algilt. Takmarkanir á trúarathöfnum eru viðeigandi þar sem nauðsyn krefur, til að vernda gildandi hagsmuni, svo sem líf, eignir, heilsu eða öryggi annarra. Slíkar takmarkanir ættu þó að vera raunverulega nauðsynlegar, fremur en afsökun fyrir því að draga úr trúfrelsi.“ Gospel Topics.

Ljóst er að trúfrelsi er samfélaginu mikilvægt. Samfélög dafna þegar trúfrelsi ríkir. Það tengist sterklega minni fátækt, betri lýðheilsu, auknum réttindum kvenna og minnihlutahópa, minni tekjumisrétti og meiri hagvexti (sjá hlekk hér). Allir þurfa trúfrelsi, sama hver trúarbrögð þeirra eru.