Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu tekur þátt í þjóðardegi samstöðu

family praying

Trúar- og lífsskoðunarfélög á Íslandi hafa nýlega sent út boð til almennings á Íslandi til að “sameinast á þjóðardegi samstöðu vegna COVID-19, laugardaginn 5. júní 2021. Í bréfinu segir “verum samhuga, hvert og eitt samkvæmt sínum eigin sið og sinni eigin sannfæringu, og minnumst á þessum degi fórnarlamba heimsfaraldursins. Við erum öll lauf á sama tré. Sýnum nærveru þeim sem þjást eða eru deyjandi, réttum hjálparhönd og færum von þar sem afleiðingar faraldursins þjaka fólk sem mest.” Auk þess erum við minnt á að þakka “fyrir óeigingjarna aðstoð svo margra fórnfúsra hjálpara úr öllum stéttum þjóðfélagsins um allan heim.”

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á Íslandi mun taka þátt með því að hvetja meðlimi til að fasta og biðja fyrir þessu málefni. Fyrir meðlimi Kirkju Jesú Krists er fyrsta helgi hvers mánaðar tileinkuð föstu, sem þýðir að neita sér um mat og drykk yfir 24 tíma, eða yfir 2 máltíðir. Bjarki, meðlimur safnaðarins á Selfossi útskýrir: “Það er ekki nóg að vera eingöngu án matar heldur þurfum við líka að biðja til Guðs. Fastan hjálpar okkur að einblína á andlega hluti og sýnir Guði einnig trú okkar og hversu mikilvægt málefnið sé fyrir okkur. Ritningarnar tala oft um hversu stór áhrif bænir fólks hafði á líf þeirra og samfélagsins í kringum þau. Áhrif bænar geta því aðeins margfaldast þegar margir koma saman í föstu fyrir ákveðnum málstað.”  Bjarki segir það einnig vera að fylgja fordæmi og kenningum Jesú Krists sem má finna í Nýja Testamentinu.