Boðskapur svæðisleiðtoga

Andlegar venjur

Megum við vinna dyggilega að því að undirbúa, þjálfa og næra anda okkar, á sama hátt og líkama okkar

A man praying
Öldungur Massimo de Feo, Ítalíu
Öldungur Massimo de Feo, Ítalíu Annar ráðgjafi, svæðisforsætisráði Evrópu

Hvað flesta varðar er það hvorki auðvelt né sjálfkrafa að þróa með sér og bæta góðar andlegar venjur. Vegurinn að andlegum þroska er yfirleitt ójafn og erfiður.

Þegar ég var að búa mig undir að þjóna sem fastatrúboði, fór ég til greinarforseta míns og spurði hvað ég þyrfti að gera til að þjóna dyggðuglega.  Hann gaf mér lista sem fól í sér ritningarnám, andlegan og líkamlegan undirbúning og jafnvel hæfni í eldamennsku.  Þegar ég hóf fúslega undirbúning minn á því hvernig ætti að verða ‚frábær trúboði‘ í alla staði, tók ég eftir að sumt var auðveldara en annað og annað nokkuð erfitt.  Þrátt fyrir það, gerði ég mitt besta til að verða það sem Drottinn ætlaðist til af mér, jafnvel með þeim áskorunum sem ég stóð frammi fyrir á þeim tíma. 

Undirbúningurinn var ekki auðveldur, en hann leiddi til sannra blessana sem ég bý enn að.  Þegar ég fylgdi ráðum leiðtoga minna, þó það væri stundum erfitt, þá hjálpuðu leiðbeiningar þeirra mér að verða trúboðinn sem Drottinn vildi að ég yrði og hafa orðið hluti af lífi mínu og andlegri tilvist, er fram liðu stundir.

Þegar við vinnum að því, á sama hátt, að ná mælanlegum árangri í hverju sem við viljum bæta okkur í, þá er það stundum ekki auðvelt að fylgja leiðsögn, hlýða stífum reglum eða hreinlega halda einbeitingu.  Ef okkur langar til dæmis til að halda líkama okkar hraustum og sterkum, þurfum við að hreyfa okkur reglulega og veita honum næringu og vatn með reglulegu millibili. Ef við gerum það ekki, mun það orsaka veikleika eða veikindi og ef við pössum okkur ekki, jafnvel dauða. 

Sama regla á við um andlegan líkama okkar, sem þarf stöðuga næringu til að haldast hraustur og kröftugur.  Hin andlega áætlun verður að fela í sér góðar venjur sem munu næra andann en verður einnig að forðast venjur sem geta skaðað andann.

A man studying the scriptures

Hin andlega áætlun verður að innihalda andlegar æfingar eins og daglegar bænir og ritningarnám, þjónustu, ásamt vikulegri andlegri næringu sem hlýst með því að meðtaka sakramentið, mæta á kirkjusamkomur og fasta mánaðarlega. Við endurnýjum musterismeðmæli okkar reglulega til að tryggja að hugað sé að öllum andlegum þáttum í jafnvægi, til að sjá til þess að andlegur líkaminn sé ásættanlega nærður. Stundum er nauðsynlegt að fasta og biðja fyrir hjálp til að veita anda okkar nægilegan styrk og kraft til að takast á við ákveðnar áskoranir.

Þegar ég minnist trúboðsreynslu minnar og hve erfiður undirbúningurinn var, en jafnframt gleðilegur, þá hugsa ég um syni Mósía sem skildu mikilvægi þess að næra anda þeirra með ríkulegri viðbótarorku sem kemur frá andlegum venjum.

„Þeir voru menn gæddir heilbrigðum skilningi og höfðu kynnt sér ritningarnar af kostgæfni til þess að öðlast þekkingu á orði Guðs. En þetta var ekki allt, þeir höfðu beðið mikið og fastað, og höfðu þar af leiðandi anda spádóms og anda opinberunar, og þegar þeir kenndu, þá kenndu þeir með krafti og valdi Guðs.“ [1]

A family studying the scriptures

Daglegar andlegar æfingar eru nauðsynlegar til að viðhalda vitnisburði og tryggja að fullvissan sigri efann, því það sem við eigum í dag, í vitnisburði, verður ekki þar á morgun nema að við gerum eitthvað til að viðhalda því.  Á sama hátt og líkamleg æfing eykur styrk vöðvanna og stærð, þá þörfnumst við stöðugrar andlegrar áætlunar til að gera vitnisburð sterkan og varanlegan.

Tilhneiging hins náttúrlega manns er ávallt að vænta meira af Drottni og minna af sjálfum sér.  Þegar við þróum sterkar andlegar venjur og upplifum kröftuga breytingu á hjörtum okkar með því að næra anda okkar ítrekað, reglulega og nægilega, þá munu þessar andlegu venjur verða óaðskiljanlegur hluti af okkur sjálfum og við förum að ætlast til sífellt meira af okkur sjálfum og minna af Drottni. 

Megum við vinna dyggilega að því að undirbúa, þjálfa og næra anda okkar, á sama hátt og líkama okkar, með því að þróa góðar andlegar venjur og forðast hina niðurrífandi venjur heimsins.  Það kann að vera sársaukafullt og erfitt í upphafi, en sannarlega þess virði er við upplifum blessanir þessa andlega ferlis vaxtar og velferðar.


1. Alma 17:2-3