Salt Lake City, Utah

M. Russell Ballard forseti andast 95 ára gamall

Spámaðurinn lofaði hann sem mann trúar, skuldbindingar og ábyrgðar

M. Russell Ballard, starfandi forseti í Tólfpostulasveitinni, árið 2018.
M. Russell Ballard, starfandi forseti í Tólfpostulasveitinni, árið 2018.

Okkur þykir leitt að tilkynna að M. Russell Ballard, starfandi forseti Tólfpostulasveitar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er látinn. Eftir stutta sjúkrahúsdvöl fyrir skömmu sneri hann aftur til síns heima þar sem hann sinnti skyldum eins og hann gat áður en hann lést um klukkan 23:15, 12. nóvember 2023, umkringdur ástvinum. Hann var 95 ára gamall.

Ballard forseti varð postuli 6. október 1985. Tilkynnt var um hann sem starfandi forseta Tólfpostulasveitarinnar 16. janúar 2018. Líkt og með postulana á tímum Nýja testamentisins, eru postular samtímans kallaðir til að vera sérstök vitni Jesú Krists. Ballard forseti var einn af 15 mönnum sem hafa umsjón með vexti og þróun hinnar alþjóðlegu kirkju, sem telur nú meira en 17 milljónir meðlima.

„Ballard forseti var aldrei tvístígandi,“ sagði Russell M. Nelson, forseti kirkjunnar. „Hann vissi nákvæmlega hvað Drottinn kenndi og hvernig mögulegt var að tileinka sér það í persónulegu lífi manna og leiða fram gleði og hamingju.“

„Við unnum náið saman og ég elskaði alltaf hlýja framkomu hans,“ sagði Dallin H. Oaks forseti í Æðsta forsætisráðinu, sem sat við hlið Ballards forseta í Tólfpostulasveitinni í yfir þrjá áratugi. „Hann var traustsins verður. Hann var líka sá sem treysti ykkur.“

Ballard forseti lætur eftir sig sjö börn, 43 barnabörn, 105 barnabarnabörn og eitt langalangaafa barn.

Upplýsingar um útför eru fyrirhugaðar.

Vinnusemi lærð snemma á lífsleiðinni

Melvin Russell Ballard fæddist í Salt Lake City, Utah, 8. október 1928, þeim Melvin R. og Geraldine Smith Ballard. Honum lærðist vinnusemi snemma á lífsleiðinni – hjá bílasölufyrirtæki. Faðir hans stofnaði bílasölufyrirtækið Ballard Motor Company og hinn ungi Russell, eini drengurinn í fjögurra barna fjölskyldu, starfaði í öllum deildum fyrirtækisins, þar á meðal við að aka bílum um lóð notaðra bíla þegar hann hafði vart náð táningsaldri.

M. Russell Ballard eins árs gamall árið 1929.
M. Russell Ballard eins árs gamall árið 1929.

Sú reynsla varð fyrirmynd að því starfi sem gafst Ballard forseta vel á öllum sviðum lífsins. „Ég lærði af föður mínum, að þegar maður byrjar á einhverju, þá lýkur maður því,“ sagði hann. „Að endingu mun það virka þér til góðs, hvort heldur þú hefur sigur og það verður þér ábatasamt eða þú lærir að það gengur ekki upp og þú segir skilið við það og þú munt þá aldrei velta fyrir þér hvort þú eigir að halda áfram í það.”

Slíkt viðvarandi viðhorf kom sér vel alla ævi – meðal annars þegar hann var í Utah-háskóla; í störfum hans í bifreiða-, fasteigna- og fjárfestingariðnaði; og í ýmsum kirkjuverkefnum hans.

„Viðskiptareynsla hans kom sér vel við að spyrja ígrundaðra spurninga, sem spyrja þarf þegar áætlun er lögð fram eða þegar spurt er: ‚Eru úrræðin nýtt til hins ýtrasta?‘“ sagði Oaks forseti.

Kirkjuleiðtogi með blóð spámanns í æðum sínum

Ballard forseti hafði brjóstmyndir af þremur þekktum kirkjuleiðtogum á skrifstofu sinni: Stofnanda kirkjunnar, Josephs Smith, og bróðir hans Hyrums (langalangafa Ballards forseta), auk sonar Hyrums Joseph F. Smith forseta, sem var sjötti forseti kirkjunnar. Arfleifð þessara kristnu lærisveina, sem að sjálfsögðu felur í sér píslarvætti Josephs og Hyrums árið 1844, var Ballard forseta hvatning allt til dauðadags.

„Það var ótrúlegt þegar ég komst að því hverjir þeir voru og hver ég var,“ sagði Ballard forseti árið 2019. „Ég er stöðugt meðvitaður um að ég hef ábyrgðarskyldu bara vegna þess að ég hef tengsl við þá. Ég heyri þá allan tíma segja: ‚Haltu þig við verkið; gerðu eitthvað sem er þess virði. Farðu af stað, drengur; sittu ekki auðum höndum.’ Þeir voru gerendur. Þeir urðu að vera gerendur.“

Hann vildi að allir Síðari daga heilagir, þar á meðal börn hans, hugsuðu vandlega um það trúarlega líf sem þessir fyrstu kirkjuleiðtogar lifðu. Hann sagði við son sinn, Craig, 19 ára trúboða á þeim tíma: „Mundu að blóð spámanna rennur í æðum þínum.“

„Jæja, engin pressa þarna,“ minntist Craig að hafa hugsað. „[Faðir minn] horfði á [þessar brjóstmyndir] á hverjum degi á skrifstofunni sinni … og ég held að honum hafi fundist hann verða að gera sitt besta. Hann innrætti það okkur hinum.“

Nelson forseti sagði að trú, skuldbinding og ábyrgð „væru [Ballard forseta] í blóð borin. Getið þið ímyndað ykkur – við nutum þeirra forréttinda að sitja við hlið manns sem er langa‑lang‑afabarn Hyrums Smith. Og Joseph Smith var langa‑lang‑afabróðir hans. Á hverjum degi finn ég fyrir þakklætisskuld fyrir þau forréttindi að umgangast beinan afkomanda þessara virtu og virðingarfullu leiðtoga. Hann hefur sömu ráðvendni og þeir höfðu.“

M. Russell Ballard forseti var trúboði í breska trúboðinu frá 1948 til 1950.
M. Russell Ballard forseti var trúboði í breska trúboðinu frá 1948 til 1950.

Í síðustu aðalráðstefnuræðu sinni, sem hann flutti 1. október 2023, ræddi hann um spámanninn Joseph Smith og um megin hlutverk hans í endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists og blessananna sem því tengjast.

Kirkjuþjónusta Ballards forseta fól í sér þann tíma sem hann þjónaði sem ungur trúboði í Englandi, biskup, forseti Toronto- trúboðsins í Kanada, meðlimur í forsætisráði hinna Sjötíu og postuli í yfir þrjá áratugi.

„Ég myndi ekki gera þetta fyrir peninga,“ sagði Ballard forseti. „Þið gætuð ekki ráðið mig fyrir peninga til að gera það sem ég er beðinn að gera sem meðlimur Tólfpostulasveitarinnar. En fyrir Drottin, eru þetta mestu forréttindi sem hægt er að veita manni. Við erum vitni um raunveruleika lífs og þjónustu Drottins Jesú Krists.“

Ballard forseti tók þessa ábyrgð alvarlega, hvort sem hann var fyrrverandi formaður Trúboðsráðs kirkjunnar (sem fól í sér starf við að þróa leiðbeiningarritið „Boða fagnaðarerindi mitt,“ fyrir alla trúboða), með yfir 50.000 trúboða í umsjá sinni, eða sem faðir fimm dætra og tveggja sona.

Sérstakt vitni, sérstakur faðir

Ballard forseti sagði að einhverjar mestu upplifanir hans hefðu hlotist við að kenna börnum hans um fagnaðarerindi Jesú Krists. „Manni lærist að grípa stundir til kennslu og ef maður er vökull og vakandi, munu þær koma og þegar þær koma væri það miður fyrir hvern föður að missa af tækifæri til að kenna börnum sínum reglu.“

Ein slík stund kom seint á níunda áratugnum eftir að Ballard forseti varð postuli. Craig, yngsti sonur hans, viðurkennir að hafa verið „dálítið bitur“ vegna þess að faðir hans var oft að heiman við verkefni. Það var ekki auðvelt að deila manninum sem hann kallaði „pabba“ með Síðari daga heilögum um allan heim. „Þegar ég var ungur skildi ég það ekki,“ sagði Craig. Sem betur fer skynjaði Ballard forseti þann misskilning. Ballard forseti bar kennsl á tækifæri til kennslu og tók Craig með sér í kirkjuverkefni til Tonga og Samóa.

„Þegar við fórum úr flugvélinni, áttaði ég mig í fyrsta sinn á því hvernig aðrir sáu hann,“ sagði Craig. „Margir höfðu gengið í tvo daga til að koma og fá bara að sjá postula bregða fyrir. Það var þá sem það breyttist úr byrði í blessun fyrir mig að þekkja þennan einstakling náið.“

Þetta var, sagði Craig, endurvarp þeirrar gjafar Ballards forseta að segja fólki ekki aðeins eitthvað, heldur líka að kenna því.

„Hann sagði ekki bara: „Jæja, sættu þig við það.‘ Hann vissi að ég þurfti að skilja það og ég þurfti að vera hluti af því að styðja köllun hans,“ sagði Craig. „Þetta var dásamleg reynsla fyrir mig að læra af og hann hefur gert þetta margsinnis á einstakan hátt. Hann var ekki aðeins sérstakt vitni – hann var sérstakur faðir.“

Önnur lexía kom eftir að Tammy, dóttir hans á skólaaldri, var að leika við vini sína í bíl sem einhvern veginn fór afturábak svo hurðin beyglaðist. Tammy sagðist hafa verið mjög hrædd að komast að því að bíllinn sem hún taldi vera föður síns væri í raun í eigu einhvers annars. Ballard forseti sagði að þegar hann kom heim og sá svipinn á andliti dóttur sinnar, var honum ljóst að hann hafði alla athygli hennar. „Ég kenndi henni að hún væri miklu dýrmætari en Cadillac-bíllinn sem hún hafði beyglað og að það sem gerðist í lífi hennar og hversu dýrmæt hún var mér, væri miklu mikilvægara. Við gætum lagað bílinn, en ef hún gerði eitthvað rangt í lífi sínu, þá væri mun erfiðara að laga það.“

M. Russell Ballard forseti og eiginkona hans, Barbara.
M. Russell Ballard forseti og eiginkona hans, Barbara.

„Hans verður minnst sem yndislegs eiginmanns og frábærs föður,“ sagði Nelson forseti. „Þetta er það sem hann hafði í fyrirrúmi alls. Hann var okkur gott fordæmi í þessu, jafnvel þótt hann hafi haft afar margt á sinni könnu. Fjölskyldan hans var alltaf í fyrirrúmi.“

Í áranna rás tóku börn Ballard forseta að treysta á andlegan styrk hans. Eiginkona hans, Barbara, sagði: „Þegar við vorum í Kanada í trúboðinu okkar, var litli drengurinn okkar að byrja í leikskóla og þekkti ekki eina manneskju. Hann var hræddur. Eiginmaður minn fór með hann á skrifstofuna, kraup með honum og bað þess að himneskur faðir myndi hjálpa honum að finna vini. Saman báðust þeir þannig fyrir nokkra daga í röð. Hann hefur hjálpað nokkrum barna okkar á þann hátt, er þau hafa haft sérstakar þarfir.“

Ballard-fjölskyldan bað ekki aðeins reglubundið saman, heldur léku sér líka saman í ævintýralegum fjölskyldufríum. Ballard forseti rifjaði upp ferð sem þau fóru í til Kaliforníu, í einu af fyrstu húsbílunum sem komu af færibandinu. „Ég fór með þau til Chinatown og allir í San Francisco horfðu á þennan stóra hlut, bentu á hann og hlógu að honum,“ sagði hann. „Ég fann engan stað til að leggja honum, svo ég lét alla fara út í Chinatown, ók síðan áfram um hæðirnar í San Francisco og endaði loks á að koma þeim öllum aftur í bílinn.

Hann giftist „englinum“ sínum, Barböru

Ballard forseti gat ekki talað um fjölskyldu sína, án þess að hrósa Barböru. „Hún er bara engill. Það er afskaplega erfitt að búa með einhverjum sem er næstum fullkominn,“ sagði hann. Þau hittust á viðburðinum „Halló dansdagur“ í háskólanum í Utah. „Hún var ekki bara falleg, heldur hafði hún ljómandi persónuleika. Ég vissi frá upphafi að ég vildi giftast henni, en tilfinningar hennar voru ekki þær sömu. Það var svolítið erfitt að sannfæra hana. Ég gantast við hana og segi það hafa verið mitt allra besta söluverk að fá hana til að samþykkja að giftast mér.“

Ballard forseti lofaði Barböru sem frábæra móður sem gerði heimilislífið himni líkara. „Ff þú kæmir með öll börnin okkar sjö hingað og spyrðir hvort þau hefðu einhvern tíma heyrt móður sína hækka rödd sína innan veggja heimilis okkar, þá væri svarið þeirra: Nei; hún gerði það aldrei. Hún hefur þá skapgerð að geta tekist á við erfiðleikatíma á mjög rólegan og yfirvegaðan hátt. Hún er ljúf, hún er kærleiksrík, hún er umhyggjusöm, hún er vökul og börnin hennar dýrka hana. Það er enginn í heiminum sem jafnast á við það sem börnunum okkar finnst um móður sína.“

Annað barn þeirra, Holly, samþykkir það. Hún sagði að ást og virðing foreldra sinna fyrir hvort öðru hefði haft lífsmótandi áhrif á hátterni hennar og systkina hennar.

„Okkur fannst best að vera heima og koma heim og dvelja þar í því umhverfi, því samlyndi foreldra okkar var mikið,“ sagði hún. „Mér lærðist að koma þurfti fram við alla af virðingu. Og þeim fórst það afar vel úr hendi við okkur börnin.“

Oaks forseti, sem kallaður var í Tólfpostulasveitina ári á undan Ballard forseta, sagði „að hann dáðist svo að því hvernig Ballard forseti hefur komið fram við sinn eilífa félaga, Barböru. Á háum aldri hennar og á háum aldri hans, hefur hann einfaldega verið fyrirmyndar eiginmaður. Svo hugulsamur og svo blíður.“

Barbara lést 1. október 2018, 86 ára að aldri. Hún tókst á við langvinna baráttu heilsufarsleysis, þar á meðal Alzheimer, með þeim þokka og glaðværð sem einkenndi hana.

„Hve þakklátur ég er fyrir það að vita hvar mín ástkæra Barbara er og að við munum verða saman aftur, með fjölskyldu okkar um alla eilífð,“ sagði Ballard forseti á aðalráðstefnu fimm dögum eftir andlát Barböru.

Þjóna einum í senn

Hjartnæmar tilfinningar Ballards forseta til fjölskyldu sinnar náðu líka til einstaklinga sem hann kenndi úr prédikunarstólnum. Í ræðu á aðalráðstefnu kirkjunnar í apríl 1980, bauð hann Síðari daga heilögum að senda sér nöfn nauðstaddra. Hann lofaði á móti að skrifa þessu fólki hvatningarbréf. Hundruð bréfa streymdu inn hvarvetna að úr heiminum. Ballard forseti skrifaði að lokum yfir 600 persónuleg hvatningarbréf til fólks sem þurfti andlega hjálp. Einn viðtakandi skrifaði: „Mér finnst bréfið þitt hafa verið upphafið að þessari stórkostlegu breytingu á lífi mínu og ég þakka þér af öllu mínu hjarta.

Russell M. Nelson forseti og M. Russell Ballard forseti heimsóttu Frans páfa í Vatíkaninu, laugardaginn 9. mars 2019. Öldungarnir Massimo De Feo (til vinstri) og Alessandro Dini-Ciacci (til hægri) af hinum Sjötíu, voru með þeim í heimsókninni.
Russell M. Nelson forseti og M. Russell Ballard forseti heimsóttu Frans páfa í Vatíkaninu, laugardaginn 9. mars 2019. Öldungarnir Massimo De Feo (til vinstri) og Alessandro Dini-Ciacci (til hægri) af hinum Sjötíu, voru með þeim í heimsókninni.

„Við ættum að ná til hins eina,“ sagði Ballard forseti. „Við ættum að leitast eftir því á allan þann hátt sem við getum að hjálpa hvert öðru gegnum þetta ferðalag jarðlífsins. Ég held að í grunninn sé fólk innst inni gott og að það vilji vita hver sannleikurinn er, en veit bara ekki hvar hann er að finna. Það spyr: ‚Hver er ég? Hvaðan kom ég? Hvers vegna er ég hér? Hvert stefni ég? Hver er tilgangurinn með þessu öllu? Hvar enda ég uppi?“

Ballard forseti setti penna á blað til að svara þessum spurningum í bókinni „Our Search for Happiness [Leit okkar að hamingju]“ (1993), sem hjálpaði við að kenna fólki um kirkjuna og tilgang þess í lífinu. Sem rithöfundur skrifaði Ballard forseta líka ritið „Ráðgast við ráð okkar“ (1997), sem margir staðarleiðtogar víða um kirkjuna notuðu.

Í öllu sem Ballard forseti upplifði sem eiginmaður, faðir og postuli, leitaði hann til Jesú Krists eftir innblæstri og fullvissu. Reyndar bar hann oft litla mynd af frelsaranum í brjóstvasa sínum sér til uppörvunar á erfiðum dögum.

„Alltaf þegar hann varð niðurdreginn, þá tók hann [myndina af Jesú Kristi] úr vasanum, horfði á hana og hugsaði: „Ég get þetta. Ég get gert hvað sem er fyrir hann,“ sagði Holly.

Ballard forseta lærðist að fagnaðarerindi Jesú Krists væri akkeri í heimi breyttra gilda. „Ég hef sterka sannfæringu um að þau sem raunverulega eru grundvölluð í trú sinni á endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists og hlutverki spámannsins Josephs og opinberununum sem kirkjan hefur hlotið fyrir hans milligöngu, sem staðfesta og lýsa yfir að Jesús Kristur sé sonur Guðs og að fagnaðarerindið sé á jörðu, munu fá höndlað hvaðeina sem lífið færir þeim.“

Öldungur M. Russell Ballard í þjónustu sinni sem trúboði í Englandi árið 1950.
Öldungur M. Russell Ballard í þjónustu sinni sem trúboði í Englandi árið 1950.
M. Russell Ballard forseti veifar til ráðstefnugesta við lok laugardagssíðdegishluta aðalráðstefnunnar í Ráðstefnuhöllinni í Salt Lake City, Utah, þann 30. september 2023.
M. Russell Ballard forseti veifar til ráðstefnugesta við lok laugardagssíðdegishluta aðalráðstefnunnar í Ráðstefnuhöllinni í Salt Lake City, Utah, þann 30. september 2023.