Haustið 2020 hafði Kóvidfaraldurinn komið heiminum á hnén. Við urðum vissulega öll fyrir áhrifum á einhvern hátt.
Miðað við starf mitt í menningar- og ferðaþjónustu, var faraldurinn alvarleg áskorun fyrir mig, starfslega séð. Ég var því fullur eftirvæntingar þegar ég frétti að okkar ástkæri spámaður, Russell M. Nelson forseti, myndi flytja heiminum sérstaka ræðu þann 20. nóvember 2020.
Þegar Nelson forseti hóf mál sitt, sagði hann frá nokkrum af þeim áskorunum sem hann hafði upplifað í lífi sínu og lýsti miklum áhyggjum af heimsfaraldrinum. Hann sagði síðan:
„Það er þó til lækning – sem kann að koma á óvart – því hún gengur gegn náttúrlegum skilningi okkar. Samt hafa bæði vísindamenn og trúaðir, jafnt karlar sem konur trúað áhrifum þess.
Ég á við lækningarmátt þakklætis.“1
Nelson forseti bauð okkur að nota samfélagsmiðla sem persónulega þakklætisdagbók og þakka Guði í daglegum bænum fyrir hinar óteljandi blessanir í lífi okkar.
Ég beitti „meðferðinni“ sem hann lagði til og fannst hún hjálpa mér á þessum erfiða tíma við að upplifa lækningu og vera glaður og trúaður í hjarta.
Fastatrúboðið mitt er ein af stærstu blessunum lífs míns. Á þeim tíma kynntist ég mörgum í margvíslegum lífsaðstæðum. Sumir virtust hafa allt sem þarf til að lifa hamingjusömu lífi. Ég hitti líka fólk sem bjó við sára fátækt, þjáðist af alvarlegum veikindum og stóð frammi fyrir öðrum áskorunum en var samt fyllt gleði. Þegar ég velti fyrir mér athugunum mínum, áttaði ég mig á því að þeir sem geisluðu af gleði, jafnvel í erfiðum aðstæðum, voru líka alltaf þakklátir. Ég gerði mér grein fyrir að þakklæti væri lykill að gleði.
Hvernig getum við þá þróað þakklátt hjarta?
Við þurfum að staldra við reglulega í daglegu lífi okkar og sýna stillingu. Nelson forseti sagði: „Hljóðlátur tími er helgur tími – tími sem býður upp á persónulega opinberun og veitir frið.“2
Á þessum hljóðu stundum getum við opnað augu okkar, eyru og einkum hjarta okkar, til að sjá hversu heitt himneskur faðir elskar okkur og blessar okkur ríkulega. Við getum séð að þegar allt kemur til alls, þá er hver lífsins stund gjöf frá Guði. Það mun fylla okkur gleði og þakklæti og hjálpa okkur að líta stöðugt meira á óþægilega, sársaukafulla lífsreynslu sem tækifæri til að læra eitthvað nýtt, vaxa persónulega og þróa kristilega eiginleika.
Ef hjarta okkar er fullt af þakklæti, munum við eðlilega finna fyrir löngun til að deila með öðrum því sem veitir okkur gleði.
Þakklæti er ekki bara lykill að persónulegri gleði. Það hvetur okkur líka til að vera öðrum til blessunar og breyta heiminum til hins betra.
Ég er innilega þakklátur föður mínum á himnum fyrir ríkulegar blessanir í lífi mínu, einkum fyrir fjölskylduna mína og hina umhyggjusömu mér við hlið. Ég þakka honum fyrir hina miklu sæluáætlun og fyrir frelsara minn, Jesú Krist. Hann er okkur stórkostlegt fordæmi um hvað í því felst að vera þakklátur, með því að sýna föður sínum stöðugt þakklæti. Við skulum fylgja fordæmi hans og nýta hvert tækifæri til að þakka Guði og þeim sem umhverfis eru fyrir allt það góða í lífi okkar. Hversu dásamlegt væri það ef daglegar bænir okkar væru fyrst og fremst okkar þakklætistjáning!
Ég er alltaf þakklátur Jesú Kristi. Hann hefur sýnt okkur hvernig við eigum að lifa. Hann hefur veitt okkur svör við hinum miklu spurningum lífsins. Hann gerði friðþæginguna að veruleika og greiddi okkur þannig leið til að snúa aftur til himnesks föður.
Hann er von mín. Hann á mitt hjarta heilskipt.
Heimildir
- „Lækningarmáttur þakklætis,“ Russell M. Nelson, nóvember 2020
- „Það sem við lærum og munum aldrei gleyma,“ Russell M. Nelson, aðalráðstefna, apríl 2021.