Æðsta stjórnvald í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er Æðsta forsætisráðið, sem samanstendur af forseta og ráðgjöfum hans tveimur, eða ráðunautum. Þetta þriggja manna ráð hefur yfirumsjá með starfi kirkjunnar í heild er varðar alla stefnumótun, skipulag og stjórnun.
Næstæðsta einingin í stjórn kirkjunnar er Tólfpostulasveitin. Postular þjóna undir leiðsögn Æðsta forsætisráðsins og bera mikla stjórnsýsluábyrgð við að hafa umsjón með skipulagðri framþróun kirkjunnar um allan heim. Æðsta forsætisráðið og postularnir tólf eru álitnir af Síðari daga heilögum sem spámenn, sem meðtaka guðlega opinberun og innblástur kirkjunni til leiðsagnar.
Tilnefning nýs forseta kirkjunnar gerist á skipulegan hátt sem — á merkilegan hátt í heimi nútímans — forðast allan vott af innri valdabaráttu um stöður eða sæti. Meðlimir líta á það sem guðlega opinberað ferli, það er gjörsneytt kosningastarfi, hvort sem er á bak við tjöldin eða opinberlega.
Þar að auki er ekki einungis skipulag kirkjunnar sem stjórnar þessu ferli. Það er einnig rótgróin hefð í kirkjunni að það sé óviðeigandi að hafa persónulega þrá fyrir leiðtogahlutverkum á öllum sviðum. Þess í stað er áherslan á persónulegan verðugleika og auðmjúkan vilja til að þjóna þegar boðið berst.
Þegar forseti kirkjunnar andast, gerist eftirfarandi:
1. Æðsta forsætisráðið leysist sjálfkrafa upp.
2. Ráðgjafarnir tveir í Æðsta forsætisráðinu snúa aftur í starfsaldursröð sína í Tólfpostulasveitinni. Starfsaldur ákvarðast af þeim degi sem einstaklingur var vígður til hinna tólf, ekki aldri.
3. Tólfpostulasveitin, sem nú telur 14 aðila og er leidd af lengst starfandi postulanum, tekur að sér stjórn kirkjunnar.
4. Lengst starfandi postulinn er í forsæti á fundi Tólfpostulasveitarinnar til að íhuga tvo valkosti:
i. Ætti að endurskipuleggja Æðsta forsætisráðið að þessu sinni?
ii. Ætti kirkjan að starfa áfram með Tólfpostulasveitina í forsæti?
5. Eftir umræður er formleg tillaga lögð fram og samþykkt af Tólfpostulasveitinni.
6. Ef tillaga um endurskipulagningu Æðsta forsætisráðsins er samþykkt, velur Tólfpostulasveitin einróma nýjan forseta kirkjunnar. Nýi forsetinn velur tvo ráðgjafa og þeir þrír verða hið nýja Æðsta forsætisráð. Í gegnum sögu kirkjunnar hefur sá postuli sem lengst hefur þjónað, alltaf orðið forseti kirkjunnar þegar Æðsta forsætisráðið er endurskipulagt.
7. Eftir endurskipulagningu Æðsta forsætisráðsins, er sá postuli sem þjónað hefur næstlengst studdur sem forseti Tólfpostulasveitarinnar. Í þeim tilfellum þar sem sá postuli sem næstlengst hefur þjónað, hefur einnig verið kallaður í Æðsta forsætisráðið sem ráðgjafi, verður sá postuli sem þriðja lengst hefur þjónað, starfandi forseti hinna tólf.
8. Forseti Tólfpostulasveitarinnar, ásamt hinum postulunum, setur nýjan forseta kirkjunnar í embætti* með formlegri handayfirlagningu.
Frá því að kirkjan var formlega stofnuð 6. apríl 1830, hafa verið 17 forsetar, þar á meðal Russell M. Nelson forseti.
*Eftir að hafa samþykkt köllun til að þjóna í ákveðinni stöðu, eru kirkjumeðlimir „settir í embætti“ til að þjóna. Þetta er gert í samræmi við biblíulega iðkun handayfirlagningar. Prestdæmisleiðtogi leggur hendur sínar á höfuð þess sem settur er í embætti og flytur bæn, veitir einstaklingnum valdsumboð og getu til að framkvæma skyldur embættisins og veita persónulega blessun.