
Trú á Jesú Krist er bjarg lífs míns. Það er dýpsta þrá mín að ég og fjölskylda mín sameinumst honum og himneskum föður dag einn.
Tilgangur kirkju Jesú Krists er að bjóða öllum að koma til Krists og meðtaka sáluhjálp fyrir hans milligöngu. Í heimi okkar tíma er þó ekki auðvelt að efla trú á frelsarann. Russell M. Nelson forseti kenndi: „Árásir óvinarins á trú og okkur sjálf og fjölskyldur okkar verða stöðugt harðari. Við þurfum að koma forvirkri varnaráætlun í framkvæmd, til að standast andlega.“1
Eitt varnarúrræðanna sem Drottinn gaf okkur með spámanni sínum er „heimilismiðuð kirkja, studd af því sem gerist í greinar-, deildar- og stikubyggingum okkar.“2 Daglegt ritningarnám, stutt af námsefninu „Kom, fylg mér“ verður nauðsynlegt til að breyta heimilum okkar í „griðarstað trúar.“3
Búa ritningarnar í raun yfir mætti til að gera það?
Fyrir nokkrum árum þurfti ég að glíma við erfitt vandamál. Mér varð ljóst að ég þurfti liðsinni æðri andlegs máttar til að takast á við þessa áskorun. Ég baðst því fyrir til að vita hvað best væri að gera til að þróa aukinn andlegan styrk. Sem svar bið bæn minni, hlaut ég innblástur um að læra Mormónsbók af meiri kostgæfni en nokkru sinni áður. Ég hafði oft áður lesið Mormónsbók, en ég einsetti mér að læra hana af meiri kostgæfni og bænheitar en áður. Fyrir vikið gat ég fundið að ég styrktist andlega dag hvern, trú mín á Jesú Krist efldist og mér var gefið hugrekki til að takast á við vanda minn.
Ritningarnar búa yfir andlegum mætti sem við þurfum svo nauðsynlega á okkar tíma að halda. Í ritningunum finnum við svör við mikilvægustu spurningum lífs okkar. Þegar við lærum ritningarnar daglega sem fjölskyldur eða vinir og miðlum hugsunum okkar og reynslu, styrkjast tengslin við hvert annað og við himneskan föður okkar.
Hver hefði getað ímyndað sér að þegar námsefnið „Kom, fylgdu mér“ var kynnt og Nelson forseti sagði tímann vera kominn til að „breyta heimili okkar í miðstöð trúarfræðslu,“4 að við kæmumst að því nokkrum mánuðum síðar að kirkjuaðgangur yrði takmarkaður til andlegrar endurnæringar? Við getum aðeins verið þakklát Drottni fyrir að undirbúa okkur í tæka tíð fyrir þetta tímabil!
Ég og fjölskyldan mín erum persónulega mjög blessuð af námsefninu „Kom, fylg mér.“ Með þéttsetinni dagskrá og mörgum áhugamálum og skyldum, reynist okkur ekki alltaf auðvelt að finna þann tíma og frið sem við þurfum til að lesa og læra ritningarnar saman á hverjum degi. Við urðum að setja þetta í forgang til að það virkaði í raun. Við upplifum ekki andlega úthellingu í hvert sinn sem við lærum fagnaðarerindið sem fjölskylda, en daglegt nám okkar í ritningunum gerir okkur kleift að þekkja frelsarann miklu betur, að bjóða anda hans á heimili okkar og lágmarka áhrif andstæðingsins á fjölskyldu okkar.
Ég talaði við nokkrar fjölskyldur og spurði um reynslu þeirra af námsefninu „Kom, fylg mér.“ Það var áhugavert að átta sig á að hver fjölskylda þurfti að finna sína leið varðandi hvenær hún ætti að læra ritningarnar saman og hvernig ætti að nota námsefnið „Kom, fylg mér“ sem leiðarvísi. Hver fjölskylda sem af kostgæfni bað um opinberun um bestu leiðina til að gera það gat upplifað þá blessun sem henni fylgir.
Megi dagleg viðleitni okkar til að rannsaka ritningarnar hjálpa okkur að verða sannlega trúuð, kynnast Kristi betur og verða líkari honum.
Heimildir
1. Russell M. Nelson, „Upphafsorð,“ aðalráðstefna, október 2018.
2. Russell M. Nelson, „Upphafsorð,“ aðalráðstefna, október 2018.
3. Russell M. Nelson, „Verðum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, október 2018.
4. Russell M. Nelson, „Verðum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, október 2018.