Frankfurt am Main, Þýskaland

Arthur Winter: „Ein af dásamlegustu gjöfum Bretlands til uppbyggingar kirkjunni“

Fyrsta grein ritraðarinnar „Áfangar og kraftaverk: Arfleifð Síðari daga heilagra í Evrópu“

Eftirfarandi grein er sú fyrsta af sex frásögnum í greinarröð sem ber titilinn, Áfangar og kraftaverk: Arfleifð Síðari daga heilagra í Evrópu.  Þessar greinar voru sannreyndar og skrifaðar af James Perry, PhD, FHEA, sagnfræðingi og ritara Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hin væntanlega bók „Heilagir – 3. bindi“ mun innihalda margar aðrar frásagnir og atburði er varða stofnun kirkjunnar í Evrópu.

Þjónustuarfleifð Arthurs Winter í kirkjunni hófst í Englandi þegar hann var 16 ára gamall, viku eftir skírn hans, er hann var beðinn að þjóna í sjálfboðavinnu sem ritari fyrir söfnuð sinn. Síðar átti kunnátta hans í hraðritun eftir að leiða til ævilangrar þjónustu hans í kirkjunni og persónulegra samskipta við fjóra forseta kirkjunnar: Wilford Woodruff, Lorenzo Snow, Joseph F. Smith og Heber J. Grant. Sem fréttamaður og opinber hraðritari, skráði hann mikilvægar sögulegar upplýsingar um kirkjuna. Framlag hans, eins og margra annarra Síðari daga heilagra á fyrri tíð, varð til að flýta starfi kirkjunnar í Evrópu og erlendis.

Í ágúst 1916 var Arthur Winter viðstaddur greftrun sonar síns, George, sem var yngsti og síðasti sonur Arthurs. Allir sex synir hans höfðu látist, annað hvort sem börn eða unglingar, við hörmulegar aðstæður.  Hinn fimmtíu og tveggja ára gamli innfæddi Nottingham-búi hafði komið til Utah árið 1883 og giftist Hönnu Bytheway í Logan-musterinu í desember 1885, ungum Síðari daga heilögum sem tók trú í Swansea, Wales. Meðal átta barna þeirra voru tvær dætur, Rosannah og Ruth, og þær bjuggu sér heimili í Salt Lake City.

Arthur Winter árið 1884
Arthur Winter árið 1884

Arthur fæddist í Nottingham árið 1864 og eftir nokkurra ára skólagöngu byrjaði hann 13 ára gamall að vinna í blúnduvöruhúsi með vini sínum, John Wells. Trúarbrögð vöktu ekki áhuga Arthurs og hann var ekki hrifinn af kirkjunum sem hann fór í.  Loks var hann kynntur fyrir kirkjunni og hann fór á samkomu með föður sínum. Áhugi Arthurs á fagnaðarerindinu vaknaði og skömmu síðar var hann skírður með móður sinni og systur.  Faðir hans hafði hins vegar ekki lengur áhuga á boðskap fagnaðarerindisins og sumir bræðra hans ofsóttu hann fyrir þá ákvörðun hans að ganga í kirkjuna. Þann 1. nóvember 1880, viku eftir skírn Arthurs, var hann kallaður sem greinarritari.

Arthur hóf að prédika fagnaðarerindið fyrir vini sínum, John, sem í fyrstu var erfiður, en hlaut að lokum eigin vitnisburð og var skírður. Mennirnir tveir voru miklir vinir og fjórtán ára að aldri ákváðu þeir að læra Pitman-hraðritun. Piltarnir tveir töldu það geta orðið sér til framdráttar í framtíðinni og vörðu kvöldum sínum við að læra í bók. Ungu mennirnir skiptust á bókinni á hverjum degi, svo þeir gætu báðir lesið hana. Þetta var kunnátta sem átti eftir að reynast ómetanleg síðar í starfsframa hans.

Átján mánuðum síðar var smáritafélag í Nottingham stofnað og síðar sama ár var Arthur gerður að ráðgjafa í greinarforsætisráðinu og forseti smáritafélagsins.  Smáritafélög voru skipulögð víðs vegar um breska trúboðið á ýmsum tímum í þeim tilgangi að dreifa hinu ritaða orði af endurnýjuðum þrótti.  Meðlimir og trúboðar unnu að því að dreifa litlum pappírsritum til að vekja áhuga á kirkjunni og til að hjálpa trúboðunum að finna fólk til að kenna. Í lok árs 1882 var fyrsta sameiginlega framþróunarfélag pilta stofnað í Nottingham og Arthur var gerður að ráðgjafa, auk annarra kallanna sinna. 

Arthur var leystur undan köllun sinni nokkrum mánuðum síðar, þegar hann og móðir hans og tvær systur fóru frá Liverpool í apríl 1883 til Utah. Faðir hans leyfði að hluti fjölskyldunnar flytti úr landi, en sjálfur hafði hann misst allan áhuga á kirkjunni og ætlaði að dvelja áfram í Nottingham. Arthur var átján ára þegar Winters fjölskyldan kom til Utah. Því miður voru aðstæður erfiðar og í nokkra mánuði var hann atvinnulaus. Í ágúst 1883 eyddi Arthur síðasta pening sínum í ostrudós fyrir fjölskyldu sína. Þau myndu hið minnsta fá góða máltíð af síðasta peningunum. Sama kvöld fékk Arthur þau tíðindi að hann ætti að koma á skrifstofu kirkjunnar daginn eftir. Arthur var ráðinn sem sendill fyrir stjórnendur kirkjunnar og rúmri viku síðar var hann gerður að fréttaritara kirkjunnar til ársins 1907.  Þessi ungi maður þekkti hvern spámann persónulega, allt frá Wilford Woodruff til Heber J. Grant og var opinber hraðritari kirkjunnar. 

Fyrir tilstilli starfs síns naut Arthur þeirra forréttinda að ferðast um kirkjuna og vera viðstaddur áberandi viðburði. Arthur var með Lorenzo Snow forseta þegar hann hélt sína frægu ræðu um tíund í St. George, Utah, í maí 1899.  Árið 1902 var hann gerður að ritara Fræðsluráðs kirkjunnar.  Árið 1905 ferðaðist Arthur með Joseph F. Smith forseta til Sharon, Vermont, til að afhjúpa minnisvarða til að fagna fæðingu spámannsins Josephs Smith.  Hann var einnig viðstaddur vígslu Havaí-musterisins árið 1919.  Stundum talaði Arthur í vikulegri útvarpsútsendingu kirkjunnar og flutti erindi í Laufskálanum.  Ef til vill var merkasti atburðurinn sem Arthur tók þátt í vígsla Salt Lake musterisins, sem hann var opinber fréttaritari fyrir.

Arthur var í fararbroddi nýsköpunar í kirkjunni. Árið 1897 hjálpaði hann Wilford Woodruff forseta að skrá vitnisburð sinn í „talvél.“ Arthur var einnig fyrstur til að nota ritvél og síma á skrifstofum kirkjunnar.

Árið 1930 var Arthur falið að ferðast um kirkjuna í Evrópu með John Wells, sínum gamla vini, sem þá var annar ráðgjafi í Yfirbiskupsráðinu.  Mennirnir tveir ferðuðust um Frakkland, England, Þýskaland, Austurríki, Danmörku, Svíþjóð, Noreg, Holland og Tékkóslóvakíu og heimsóttu meðlimi, skoðuðu skýrslur og söfnuðu athugunum um aðstæður ýmissa landa.  Saman töluðu þeir til og innblésu hina heilögu með því að nota persónulegar trúarfrásagnir sem staðfestingu á því góða sem gæti hlotist af því að starfa í trú og hlýða boðorðum Guðs.

Frá vinstri til hægri: John A. Widtsoe, forseti evrópska trúboðsins; Fred Tadje, forseti svissnesk-þýska trúboðsins; John Wells biskup, annar ráðgjafi í Yfirbiskupsráðinu; systir Becky Almond, Salt Lake City, Utah; systir Leah D. Widtsoe, forseti Líknarfélags evrópska trúboðsins; öldungur Arthur Winter, frá skrifstofu Æðsta forsætisráðsins.
Frá vinstri til hægri: John A. Widtsoe, forseti evrópska trúboðsins; Fred Tadje, forseti svissnesk-þýska trúboðsins; John Wells biskup, annar ráðgjafi í Yfirbiskupsráðinu; systir Becky Almond, Salt Lake City, Utah; systir Leah D. Widtsoe, forseti Líknarfélags evrópska trúboðsins; öldungur Arthur Winter, frá skrifstofu Æðsta forsætisráðsins.

Nokkrum árum síðar, þegar hann heimsótti Bretland árið 1937, vegna aldarafmælis breska trúboðsins, gaf hann aftur vitnisburð sinn:

Vitnisburður minn til ykkar, bræður mínir og systur, er að þetta er verk Drottins. Þetta er hin sanna kirkja og sá tími mun koma að allir menn, um allan heim, munu komast að því að þetta er sannlega kirkja Krists. Þetta er ekki kirkja Josephs Smith og ekki kirkja Brighams Young. Hún er ekki amerísk kirkja og hún er ekki bresk kirkja. Hún er alheims kirkja. Hún er kirkja Guðs.

Eftir vitnisburð hans talaði J. Reuben Clark forseti í Æðsta forsætisráðinu og vottaði Arthur virðingu:

Mig langar að segja nokkuð um bróður Winter, sem rétt í þessu talaði til ykkar. Hann hefur verið ein af dásamlegustu gjöfum Bretlands til uppbyggingar kirkjunni. Ég vil segja að bróðir Winter hefur sýnt framúrskarandi hollustu. … Engum konungi hefur nokkru sinni verið þjónað af sannari eða meiri tryggð en bróðir Winter hefur gert fyrir þá yfirmenn kirkjunnar, sem hann hefur starfað fyrir.

Arthur lést þremur árum síðar árið 1940, eftir 57 ára starf í kirkjunni. Hann byrjaði í fábrotnum aðstæðum og ávann sér frjóan og farsælan feril, sem á sér nánast enga hliðstæðu í kirkjunni.  Hann sat í stjórnum þekktra fyrirtækja og Brigham Young háskólans, skráði spámannlegan boðskap og tók þátt í nokkrum merkustu atburðum kirkjusögunnar á nítjándu og tuttugustu öld.

Frá árdögum kirkjunnar til nútímans hafa Síðari daga heilagir helgað tíma, hæfileika og kunnáttu til uppbyggingar kirkjunnar í Evrópu. Ef þið hafið frekari upplýsingar um Arthur Winter eða persónulega reynslu af framlagi kirkjumeðlims sem gæti vakið áhuga annarra á Evrópusvæðinu, sendið þá vinsamlega upplýsingar ykkar eða frásagnir til EUAChurchHist@ChurchofJesusChrist.org.