Blessanir musterisins í lífi mínu

Boðskapur svæðisleiðtoga

Öldungur Helmut D. Wondra
Öldungur Helmut D. Wondra

Ég hef elskað musterið allt frá barnæsku, er ég þekkti það aðeins af myndum og sögum. Í hvert sinn sem foreldrar mínir komu frá musterinu í Bern í Sviss, virtust þau alltaf glaðari og hressari en áður – og þau höfðu alltaf með sér hið ljúffenga svissneska súkkulaði.  Þannig tengdist ég húsi Drottins á afar jákvæðan hátt á unga aldri.

Þegar ég varð 13 ára, fékk ég fyrst tækifæri til að sjá og fara inn í musteri. Ég hreifst af helgi og hreinleika musterisins, jafnvel einungis af því að skoða ytra útlit þess. Í sjálfu musterinu fann ég nálægð himins. Yfir árin hafa þessar tilfinningar orðið enn dýpri og sterkari.

Ofan við dyr musterisins er ritað: Helgað Drottni. Hús Drottins.

Drottinn Jesús Kristur er vissulega herra musterisins. Þessar heilögu byggingar eru helgaðar honum og himneskum föður. Musterin helgast af návist heilags anda. Kristur er uppspretta þess máttar og ljóss sem streymir frá musterinu. Öll tákn og sáttmálar, allar helgiathafnir musterisins, vísa til hans og hinnar undursamlegu friðþægingu hans og gera okkur kleift að verða líkari honum.

Hið hversdagslega líf er oft fyllt hávaða og ringulreið. Það færir sálum okkar frið að segja skilið við það endrum og eins, fara í hús Drottins og fylla okkur sjálf af umhverfi friðar og heilagleika.

Í þessu umhverfi hreinleika er auðveldara fyrir okkur að finna svör við mikilvægustu spurningum okkar og áhyggjumálum. Í fyrsta boðskap sínum sem forseti kirkjunnar lofaði Nelson forseti eftirfarandi:

Helgiathafnir musterisins og sáttmálarnir sem þið gerið þar, eru lykill að því að efla líf ykkar, hjónaband ykkar og fjölskyldu og hæfni ykkar til að standast árásir óvinarins. Tilbeiðsla ykkar í musterunum og þjónusta ykkar þar fyrir áa ykkar, mun blessa ykkur með auknum persónulegum opinberunum og friði og mun styrkja ykkur í ásetningi ykkar um að halda ykkur á sáttmálsleiðinni.[1]

Uppfylling hinna undursamlegu loforða musterisins er háð því hversu trúfastlega við höldum sáttmála musterisins og hversu mikið við í raun helgum okkur sjálf Drottni og verki hans.

Við þurfum ekki að vera fullkomin til að fara í musterið og taka á móti þeim dásamlegu blessunum sem þar bíða okkar. Við ættum þó að keppa að nauðsynlegum verðugleika og koma með fórn sundurkramins hjarta og sáriðrandi  anda.[2] Sjálfum finnst mér það merkja að ég þurfi að þróa sveiganlegt og milt hjarta – hjarta sem þýðist föður minn á himnum. Mér finnst sundurkramið hjarta merkja að ég tileinka mér eiginleika ráðvendni, að ég sé meðvitaður um ófullkomleika minn og að ég þurfi hjálp Drottins við að komast aftur til föður míns á himnum.

Drottinn hefur gefið þetta fyrirheit:

Og blessaðir eru allir þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, því að þeir munu fylltir verða heilögum anda.[3]

Undursamlegasta blessunin sem ég hef upplifað í húsi Drottins, var að geta lagt grunn að eilífri fjölskyldu með ástkærri eiginkonu minni. Við eigum loforð um að hjónaband okkar muni vara um tíma og alla eilífð, vegna sáttmála musterisins og innsiglunarvaldsins sem þar er iðkað, ef við verðum trúföst sáttmálum okkar. Við eigum loforð um að við getum, ásamt ástvinum okkar, dvalið eilíflega í návist Jesú Krists og okkar himneska föður.

Uppfylling þessa loforðs er allra fórna virði.

Við skulum vera fólk sem fer eins oft í musterið og mögulegt er, til að helgast og hreinsast, til að meðtaka kraft frá upphæðum, til að þjóna áum okkar og, fyrir sáttmála fagnaðarerindisins og náð Krists, að taka á móti öllum þeim blessunum sem himneskur faðir geymir okkur.


[1] Orðsending frá Æðsta forsætisráðinu, 16. janúar 2018

[2] Sjá 3 Ne 9:20

[3] 3 Ne 12:6

Róm, Ítalía
Róm, Ítalía
Kaupmannahöfn, Danmörk
Kaupmannahöfn, Danmörk
Freiberg, Þýskaland
Freiberg, Þýskaland
Helsinki, Finnland
Helsinki, Finnland
París, Frakkland
París, Frakkland
Stokkhólmur, Svíþjóð
Stokkhólmur, Svíþjóð
Dan Haag, Holland
Dan Haag, Holland