Að hljóta styrk af hvíldardegi

Boðskapur svæðisleiðtoga

Öldungur Adonay S. Obando, Spáni
Öldungur Adonay S. Obando, Spáni Svæðishafi hinna Sjötíu

Við, sem einstaklingar og fjölskyldur, myndum hafa af því mikla farsæld, ef við meðtækjum sakramentið í hverri viku af kostgæfni og auðmýkt.


Þegar við tökum á móti Jesú Kristi sem frelsara okkar, þá viljum við læra um hann og fylgja fordæmi hans í þeirri von að tileinka okkur eiginleika hans og persónuleika. Við trúum að þegar við höfum þróað trú á Drottin og friðþægingarfórn hans, þá muni það vera okkur eðlislægt að vilja bæta okkur með iðrun, snúa hjarta okkar til Drottins og gera vilja hans með því að gera sáttmála við hann fyrir tilverknað helgiathafna.  

Drottinn hefur opinberað að þeir sem „… sannlega sýna með verkum sínum, að þeir hafa meðtekið af anda Krists til fyrirgefningar synda sinna, skulu teknir með skírn inn í kirkju hans.“[1]

Að skírn lokinni, þá erum við staðfest sem meðlimir kirkjunnar með handayfirlagningu, með krafti og valdi prestdæmisins. Næsta skrefið í okkar andlega þroska er að taka á móti öðrum endurleysandi helgiathöfnum í hinu heilaga musteri. Að öllu jöfnu, þá er aðeins mögulegt að framkvæma helgiathöfn skírnar, staðfestingar, musterisgjafar og innsiglunar einu sinni fyrir mann sjálfan. Við getum síðan haldið áfram að læra um þessar helgiathafnir er við framkvæmum þær sem staðgenglar í þágu hinna dánu.

Drottinn sá okkur fyrir leið, svo að við, börn hans, gætum persónulega og stöðugt meðtekið eina helgiathöfn, sakramentið.

Sú regla sem frelsarinn kom á, er að kirkja hans þarf að koma saman á hvíldardegi til að meðtaka sakramentið „…í minningu Drottins Jesú“[2] og „til að fasta og biðja og ræða hvert við annað um sálarheill sína.“[3]

Af sinni óendanlegri visku, þá hefur hann veitt okkur tækifæri til að gera hlé á okkar daglegu verkum, til að láta af hverskyns áhyggjum.  Er við látum af því að hugsa um heiminn, þá getum við endurnýjað skírnarsáttmála okkar fyrir tilverknað helgiathafnar sakramentis. Í þeirri helgiathöfn, að meðtaka sakramentið, lofar Drottinn að „andi hans sé ætíð með þeim“ sem eru fúsir til að taka á sig nafn hans og halda boðorð hans.[4]

Við, sem einstaklingar og fjölskyldur, myndum hafa af því mikla farsæld, ef við meðtækjum sakramentið í hverri viku af kostgæfni og auðmýkt. Við búum okkur daglega undir þessa helgiathöfn og reynum að lifa „… í réttlæti alla daga og allar stundir.“[5] Það gerum við t.d. með því að læra ritningarnar, biðja einkabænir og fjölskyldubænir. Ef við að auki ráðgerum skemmtun á laugardagskvöldi, þá getum við farið nægilega snemma til hvílu til að geta vaknað þakklát, glöð og hamingjusöm á sunnudagsmorgni og búið okkur þannig undir að meðtaka sakramentið og hlýða á ræður og verða „…endurnærð hinu góða orði Guðs.“[6] Við munum þá geta eflt og dýpkað samband okkar við frelsarann og aukið þekkingu okkar á honum.

Á þessum tímapunkti er mikilvægt að leggja áherslu á þá samsvörun sem finnst í heilagleika hvíldardagsins og heilagleika musterisins. Þegar við búum okkur undir að fara í musterið, þá gefum við okkur nægan tíma til þess. Við klæðum okkur ekki bara á þann hátt að við sýnum musterinu virðingu og því sem það stendur fyrir, heldur hegðum okkur líka í samræmivið það inni í musterinu eða umhverfis það. Við tölum lágt og kennum börnum okkar að við sýnum musterinu fyllstu virðingu. Þegar við helgum hvíldardaginn með því að sýna lotningu og háttvísi á sunnudagssamkomum og allan þann dag, þá þróum við með okkur heilagleika og guðlegt eðli, sem himneskur faðir býr yfir og hann „… hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu og … blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann.“[7]

Ef við látum reyna á mátt orða Guðs, þá munum við ekki aðeins hljóta þekkingu á Kristi, heldur mun vitnisburður okkar um sannleika þeirra ekki grundvallast á trú einni saman, því við munum upplifa kraftaverk og undur í lífi okkar.


[1] K&S 20:37

[2] Moró 6:6

[3] Moró 6:5

[4] K&S 20:77, Jóh 14:16

[5] K&S 59:11

[6] Moró 6:4

[7] 1 Mós 2:2-3