Boðskapur svæðisleiðtoga

Einkenni hins sanntrúaða

Páll hvatti líka hina heilögu til að fyllast þessari fyllingu Guðs, sem hann nefndi, og segir síðan frá breytni til að tryggja að þessir góðu karlar og konur „[hryggi] ekki Guðs heilaga anda.

Öldungur Alessandro Dini Ciacci, Ítalíu
Öldungur Alessandro Dini Ciacci, Ítalíu Svæðishafi Sjötíu

Páll postuli varði yfir þremur árum meðal hinna heilögu í Efesus. Á þeim tíma upplifðu Efesusbúar kraftaverk, lækningar og stórkostlega atburði. Eins og Páll sagði: „Þannig breiddist orð Drottins út [meðal þeirra . . . og efldist í krafti hans.“ 1

Prédikun hans og staðfesting máttar Guðs olli þó svo miklu uppnámi meðal hinna vantrúuðu að Páll neyddist til að yfirgefa Efesus. Hann fór á milli staða til að prédika, en áður en hann kom aftur til Jerúsalem fann hann sig knúinn til að leiðbeina og aðvara vini sína enn frekar. Honum var fyrirmunað að fara aftur til Efesus og sendi því eftir öldungum kirkjunnar þar. Hann áminnti þá að hann hefði varið öllum sínum tíma í Efesus við að kenna það sem „[mætti] að gagni verða“ – „að snúa sér til Guðs og trúa á Drottin vorn Jesú [Krist]“2 – og bauð þeim að „[hafa] gát á sjálfum [sér] og allri hjörðinni . . . því . . [þegar hann væri farinn myndu skæðir vargar koma inn á þá, og eigi þyrma hjörðinni.]“ 3 Hann ræddi síðan um „rangsnúna kenningu“ sem „menn“ notuðu „til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ 4

Þegar hann kom aftur til Jerúsalem var hann handtekinn og fluttur til Rómar. Meðan Páll var upptekinn af því að boða hið sanna fagnaðarerindi, jafnvel sem fangi í Róm, vitandi að lífi hans myndi brátt ljúka, fann hann sig knúinn til að skrifa til kirkjunnar í Efesus.

Þegar Páll hafði verið þar í eigin persónu var fyrsta verk hans að „[leggja] hendur yfir þá og heilagur andi [kom] yfir þá.“ 5

Þegar Páll skrifaði síðustu orð sín til að kenna sínum kæru vinum og samþjónum í Efesus, byrjar hann á því að hrósa þeim fyrir „trú [þeirra] á Drottin Jesú og [fyrir] kærleika … til allra heilagra.“6 Hann sagði ennfremur, að þótt þeir hefðu áður verið „[dauðir] vegna afbrota … og synda,“ og „refsidómur Guðs vofði yfir þeim,“ hefðu þeir nú verið „[endurlífgaðir] . . . með Kristi.“ 7

Paul preaching

Páll mælti gegn fjandskapinum sem meðlimir kirkjunnar í Efesus höfðu upplifað hver frá öðrum áður en þeir iðruðust, iðkuðu trú og meðtóku heilagan anda og sagði þá nú vera „[samþegna] hinna heilögu og heimamenn Guðs . . . til andlegs bústaðar.“8

Hann tjáði ennfremur þrá hjarta síns með því að segja: „Þess vegna beygi ég kné mín fyrir [föður Drottins okkar, Jesú Krists] . . . að hann gefi ykkur . . . [að] verða rótfest og grundvölluð í kærleika [og að þið] mættuð . . geta skilið … kærleika Krists . . . og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.“ 9

Páll hvatti líka hina heilögu til að fyllast þessari fyllingu Guðs, sem hann nefndi, og segir síðan frá breytni til að tryggja að þessir góðu karlar og konur „[hryggi] ekki Guðs heilaga anda.“10

Hann sagði við þau: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.“11

Þótt Páll væri meðvitaður um gæsku þeirra sem staðfestist af iðrun þeirra, trú og verðugleika andlegra upplifana frá heilögum anda, varaði hann vini sína við hugsanlegum eyðileggingarmætti orða, bæði þeim sem töluð væru af mönnum utan hjarðarinnar, sem og illmælgi þeirra sem væru innan hjarðarinnar.

Fyrr á ævi sinni hafði Sál notað orð til að tortíma hinum trúuðu; en nú, eftir að hafa tekið á móti Drottni, vill Páll að mál hans sé sönnun þess að hann hafi breyst og einkenni þess að hann sé sanntrúaður. Páll virðist gefa til kynna að ekki sé nóg að taka á móti helgiathöfnum og hafa heilagan anda, því að einkenni hinna sanntrúuðu er að „[vera] . . . góðviljuð hvert við annað.“


1Postulasagan 19:20

2Postulasagan 20:21

3 Postulasagan 20:28-29

4 Postulasagan 20:30

5 Postulasagan 19:6

6 Efesusbréfið 1:15

7 Efesusbréfið 2:1, 3, 5

8 Efesusbréfið 2:19, 22

9 Efesusbréfið 3:14, 16, 17, 19

10 Efesusbréfið 4:30

11 Efesusbréfið 4:31-32