Boðskapur svæðisleiðtoga

„Elífðar yfirsýn“

„Elífðar yfirsýn“
Öldungur Gary B. Sabin, Bandaríkjunum
Öldungur Gary B. Sabin, Bandaríkjunum Forseti Evrópusvæðisins

Fyrir mörgum árum, er ég þjónaði sem stikuforseti, kom kær systir inn á skrifstofuna til mín í tárum. Hún hafði þjónað í trúboði, gifst í musterinu og þjónað dyggilega í köllunum sínum. Miklir eldar höfðu nýverið geisað á svæði okkar og mörg heimili í stikunni höfðu eyðilagst og þar á meðal hennar. Til að gera illt verra, þá var heimili hennar vottað hjúkrunarheimili fyrir aldraða og aðaltekjulind fjölskyldunnar. Allir komust örugglega í burtu en jarðneskar eigur fjölskyldunnar og framfærsla var horfin.  Hún grét: „Hvers vegna urðum við fyrir þessu? Við höfum haldið sáttmála okkar!“

Ég fór með hljóða bæn og setti síðan autt blað á borðið fyrir framan hana. Því næst setti ég lítinn depil á miðju blaðsins og sagði: „Þessi depill táknar jarðlífið okkar. Við skulum líta svo á að blaðið tákni eilífðina sem nær endalaust í allar áttir. Mér þykir svo leitt að þetta skyldi henda ykkur, en passaðu þig á að blindast ekki af deplinum.“ Henni til lofs, þá breyttist ásjóna hennar strax og hún sagði með feginstóni: „Æ, já ég skil þetta. Það verður allt í lagi með mig. Takk fyrir!“

Þessir eldar sem eyðilögðu svæðið okkar fóru um á 128 km vindhraða. Logar þeirra æddu yfir hverfin okkar án sundurgreiningar og fóru handahófkennt fram hjá einu húsi, einungis til að brenna önnur. Öldungur Dale G. Renlund sagði: „Að trúa því að lífið verði þér sanngjarnt af því að þú lifir réttlátu lífi, er eins og að trúa því að nautið muni ekki gera áhlaup á þig af því að þú ert grænmetisæta.“ Ritningarnar minna okkur á að ósanngjarnar aðstæður eru hluti af jarðlífinu: „[Guð lætur] rigna yfir réttláta sem rangláta.“ [i]

Staðreyndin er sú að hverfulleiki jarðlífsins er stundum grimmur, en vegna frelsara okkar, þá falla jafnvel myrkustu prófraunir hins jarðnesks lífs í skuggann fyrir loforðum eilífðarinnar. Eilífðar yfirsýn breytir öllu er við skiljum að: „Allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.“[ii]

Öldungur Neal A. Maxwell veitti þessa innsýn: „Hvernig getið þið og ég virkilega vænst þess að svífa auðtrúa í gegnum lífið, líkt og sagt væri: „Drottinn veittu mér reynslu, en ekki hryggð, sorg, sársauka og svik og alls ekki að vera yfirgefinn. Drottinn, haltu frá mér allri þeirri reynslu sem gerði þig að því sem þú ert! Leyfðu mér svo að koma og dvelja með þér og deila gleði þinni fyllilega!“

Við þurfum að beina huga okkar algerlega að sönnu auðkenni okkar og áætlun Guðs fyrir okkur, til að verða ekki blinduð og fara út af sporinu vegna eðlislægra erfiðleika hins jarðneska „depils.“ Eins og öldungur John H. Groberg sagði: „Það er tenging á milli himins og jarðar. Það gefur öllu tilgang að finna þessa tengingu, jafnvel dauðanum. Fari hún fram hjá manni, verður allt tilgangslaust, jafnvel lífið.“

Það að hafa eilífðar yfirsýn hjálpar okkur að skilja hvað skiptir raunverulega máli. Það væri skynsamlegt fyrir okkur að hafa í huga að við getum einungis tekið þrennt með okkur þegar við deyjum: Sambönd okkar, þekkingu okkar og persónuleika okkar. Það væri því mikil skammsýni að leggja alla áherslu á það sem skiptir ekki máli á kostnað þess sem gerir það, en samt er það nákvæmlega það sem meiri hluti heimsins gerir. Job sagði: „Þeir eyða dögum sínum í velgengni og fara til Heljar í friði.“[iii]

Páll postuli staðfesti loforð eilífðarinnar. „Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.“[iv] Það væri heimskulegt að skipta á svo stórkostlegum blessunum fyrir hina alkunnu „skál með baunasúpu.“[v] Það sem mestu skiptir ætti aldrei að vera ofurselt því sem minnstu skiptir. Þegar áskoranir lífsins verða á okkar vegi, þá er bæn mín sú að við fáum séð lengra en depli jarðlífsins með því að horfa lengra fram á við: Þekkja eilíft auðkenni okkar, tilgang jarðneskrar ferðar okkar og vonina um hin dýrðlegu örlög sem bíða hinna trúföstu.

 


[i] Matteus 5:45

[ii] Kenning og sáttmálar 122:7

[iii] Job 21:13

[iv] 1. Korintubréfið 2:9

[v] Sjá 1. Mósebók 25:31-34