Evrópusvæðið Dagur bænar og föstu

statue of Jesus Christ

Kæru systur og bræður,

 

atburðir undanfarna daga bera vitni um að heimurinn er í uppnámi. Hjörtu okkar og bænir beinast að þeim sem þjást og takast á við miklar breytingar í lífinu.  Sem fylgjendur Jesú Krists, Friðarhöfðingjans, þráum við lausn, huggun og frið á þessum tímum.   

Eitt af hinum guðlegu útnefndu hlutverkum kirkjunnar, er að hlúa að hinum nauðstöddu.  Við erum þakklátir og agndofa þegar við hugleiðum örlæti svo margra ykkar á svæðinu, sem hafa haft samband við okkur til að bjóða fram stuðning.  Öllum sem hafa löngun til að þjóna og leggja sitt af mörkum, er boðið að samræma þá viðleitni með stikuforsætisráði sínu eða – ef um fjölstiku verkefni er að ræða – undir handleiðslu svæðishafa Sjötíu í lögsögu þeirra. Gætið að því að Velferðar- og sjálfsbjargarþjónustan á svæðisstigi hefur þegar bent á möguleg hjálparverkefni og mun halda áfram að fylgjast með þróun mála og finna leiðir til að sjá hinum nauðstöddu fyrir liðsinni.

Við erum þakklátir fyrir þá gæsku, elsku og einlæga umhyggju sem við sjáum og finnum hjá svo mörgum.  Við erum líka þakklátir fyrir hin rausnarlegu framlög í mannúðarsjóð eða föstufórnarsjóð kirkjunnar, sem gera okkur mögulegt að hjálpa þeim sem á þurfa að halda.

Auk þess að veita tímabundna aðstoð, bjóðum við öllum meðlimum á svæðinu að taka þátt í degi bænar og föstu, sunnudaginn 6. mars 2022. Saman munum við snúa hjarta og huga að þeim sem upplifa skelfingar og þjáningar.

Af staðfestu í Kristi, biðjum við þess að þegar við stöndum sameinuð í kærleika og trú, getum við skipt sköpum í þessum hrjáða heimi.  Við reiðum okkur líka á að „fullkomin elska [reki] allan ótta á braut“ (Moróní 8:16). Við erum þess fullvissir að með hjálp Drottins munum við lyfta hjörtum og sálum.

Við berum vitni um að fagnaðarerindi Jesú Krists er svarið við vandamálum, áskorunum og spurningum lífsins og við bjóðum öllum góðviljuðum að snúa sér til Krists.  Við berum vitni um að hann er frelsari heimsins, hin eina og sanna uppspretta eilífs friðar.

 

Virðingarfyllst,

forsætisráð Evrópusvæðisins

 

Massimo De Feo

Erich W. Kopischke

Ruben V. Alliaud