Boðskapur svæðisleiðtoga

Fagnaðarerindið er fyrir allt mannkyn

Það er annar guðlegur og stöðugur sannleikur, sem er að Kristur, bróðir okkar og frelsari, friðþægði fyrir misgjörðir alls mannkyns, fyrir hvern einstakling, óháð upprunalandi, kynþætti eða trú

Christ at the Well
Öldungur Mark A. Dundon, Stóra-Bretlandi
Öldungur Mark A. Dundon, Stóra-Bretlandi Svæðishafi Sjötíu á Norður-Evrópusvæðinu

Í 195 löndum í 7 heimsálfum, með yfir 7.000 mismunandi tungumálum og 7,9 milljörðum íbúa, lifum við í dásamlega ríkum og fjölbreyttum heimi.  Það eru óteljandi hefðir og menningarheimar á öllum stigum, innan hverrar þjóðar og jafnvel í hverri fjölskyldu. Það er sannlega dásamlegt.  Við erum rík að fjölbreytileika og það er yndislegt!

Félagsleg viðmið verða sífellt aðskildari grunnreglum fagnaðarerindis Jesú Krists, sem þekkjast og skiljast með endurreisn þeirra á þessum síðari dögum.  Þrátt fyrir þetta er þó alltaf til stöðugur, viðvarandi, óbilandi sannleikur og hvort sem hann er skilinn eða viðurkenndur sem slíkur, þá mun hann aldrei breytast.  Hann er sá að sérhver karl, kona og barn sem lifað hefur, lifir nú þegar eða mun lifa á þessari dýrðlegu og fjölbreyttu jörðu, er barn Guðs, okkar himneska föður.  Við erum hér á þessari jörðu til að upplifa jarðlífið í guðlegum tilgangi, því „[Guð sagði]: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss. … Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.““ (1. Mósebók 1:26–27) og við eigum að verða eins og Guð sjálfur er: „Ég sagði: „Þér eruð guðir, allir saman synir Hins hæsta.““  (Sálmarnir 82:6). 

Adam & Eve

Fjölskylduyfirlýsingin segir einnig: „Allar mannlegar verur ‒ karlar og konur ‒ eru skapaðar í mynd Guðs. Hver þeirra er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og sem slík á sérhvert þeirra sér guðlegt eðli og örlög.“  Hve mikil forréttindastaða það er að geta þekkt og skilið þennan grundvallarsannleika.  Ég er þakklátur fyrir það. Ég tek því ekki sem sjálfgefnu.  Sem ungur drengur, vegna lífsreynslu á þeim tíma, hafði ég spurningar um eðli Guðs, hver hann væri, hvernig hann liti út.  Ég heimsótti kirkjur á staðnum og ég spurði presta þessara spurninga.  Ég spurði spurninga sem tengdust tilgangi lífsins og hvers vegna við værum hér ef við þyrftum að þjást af sársauka og sorg.  Ég gat ekki fengið fullnægjandi svör sem mér fundust rétt. 

Atonement

Það er annar guðlegur og stöðugur sannleikur, sem er að Kristur, bróðir okkar og frelsari, friðþægði fyrir misgjörðir alls mannkyns, fyrir hvern einstakling, óháð upprunalandi, kynþætti eða trú.  Upprisa og ódauðleiki er gjöf til allra barna Guðs, án allra skilyrða. Hins vegar er gjald sem þarf að greiða fyrir að fá notið hins guðdómlega kraftar friðþægingarinnar, sem er sönn iðrun til að losna undan syndabyrði.  Frelsarinn útskýrði þetta sjálfur við komu sína til Ameríku: „Og ekki skuluð þér fórna mér blóðfórnum framar. Já, fórnir yðar og brennifórnir skulu undir lok líða, því að ég tek ekki lengur við fórnum yðar og brennifórnum.  En þér skuluð bjóða mér sem fórn sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda. Hvern þann, sem kemur til mín með sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, mun ég skíra með eldi og heilögum anda.“ (3. Nefí 9:19–20).  Alma staðfesti í orðum sínum: „Hver sem þess vegna iðrast og herðir ekki hjarta sitt, mun eiga kröfu til miskunnar, fyrir minn eingetna son, til fyrirgefningar synda sinna, og hann mun ganga inn til hvíldar minnar.“ (Alma 12:34).  Miskunnsamlega þekkjum við af kenningum Jakobs varðandi þá sem ekki hafa tækifæri til að verða kennt, fá skilið og hljóta vitnisburð um Krist: „Því að friðþægingin fullnægir kröfum um réttvísi hans til handa öllum þeim, sem ekki hafa fengið lögmálið gefið, svo að þeir frelsist … og þeir eru færðir aftur þeim Guði, sem gaf þeim lífsanda, sem er hinn heilagi Ísraels.“ (2. Nefí 9:26).

Ó, hve dásamleg þessi gjöf er öllu mannkyni!  Ég er þakklátur fyrir hana, því ég upplifi reglulega gleði þess að hljóta fyrirgefningu syndar og jafnframt gleði þess að hafa hlotið lækningu.

Ég mun ljúka með því að minna á boðið sem okkur var gefið af frelsaranum sjálfum: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“  (Matteus 11:28–30)