
Í apríl 2023 sagði Nelson forseti: „Hvaða spurningar eða vandamál sem þið hafið, þá er svarið alltaf að finna í lífi og kenningum Jesú Krists“ (1).
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég og eiginkona mín heimsóttum Friðriksborgarkastala í bænum Hillerød norður af Kaupmannahöfn í Danmörku, ásamt nokkrum meðlimum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sem komu í heimsókn erlendis frá.
Friðriksborgarkastalinn er fallegur kastali byggður af Kristjáni fjórða Danakonungi á árunum 1600 til 1625 í hollenskum endurreisnarstíl. Kirkja og bænaherbergi fyrir konung voru einnig byggð sem hluti af kastalanum.
Eftir hrikalegan eldsvoða árið 1859, var hinn trúarlegi listmálari Carl Bloch beðinn að skreyta hið litla, nýlega endurreista bænaherbergi með málverkum sem lýstu lífi Krists. Þessi málverk voru gleymd flestum í heiminum, þar til Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu prentaði eintök af málverkunum árið 1962, til notkunar fyrir kennara í Barnafélagi og sunnudagaskóla og fyrir foreldra á heimilinu.
Við hófum skoðunarferð okkar um kastalann með vinum okkar með því að fara fyrst í bænaherbergið til að sjá upprunalegu málverkin eftir Carl Bloch. Eftir að hafa sýnt þeim málverkin fór ég áfram í nærliggjandi herbergi til að halda áfram skoðunarferðinni um kastalann. Enginn fylgdi mér hins vegar eftir, svo ég fór aftur til að leita hinna.
Þegar ég kom aftur í bænaherbergið, voru vinir okkar enn að skoða málverkin, djúpt snortin af því sem þau sáu. Mér varð ljóst, mér til skammar, að ég hafði komið til að sýna vinum okkar falleg málverk næstum eins og leiðsögumaður fyrir ferðamenn, en þau höfðu staldrað við og gefið sér tíma til að sjá meira en það sem Carl Bloch hafði málað svo fallega á kopar. Þannig sáu þau líf og kenningar Jesú Krists og voru hrærð af boðskap frelsara okkar.
Eftir að hafa sameinast vinum okkar aftur, áttum við eftirminnilega stund saman þar sem við skoðuðum hvert hinna 23ja málverka fyrir sig og ræddum um hvern atburð í lífi hans og boðskapinn að baki þeirra. Við byrjuðum á málverkinu sem lýsti heimsókn engilsins til Maríu er hann sagði við hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans“ (2)
Eftir nokkurn tíma skoðuðum við síðasta málverkið sem sýndi hinn upprisna Jesú Krist. Þessi mynd er mér áminning um það sem Jesús Kristur fékk áorkað fyrir okkur öll. Nefí dregur þetta svo vel saman í sínum gleðilega boðskap: „Ég miklast í hreinskilni og miklast í sannleika og miklast í Jesú mínum, því að hann hefur leyst sál mína undan víti“ (3).

Upplifunin í Friðriksborgarkastala fyrir framan Carl Bloch málverkin, sem ég hef oft séð, var mér mikilvæg áminning. Við getum skoðað málverk af Jesú Kristi eða lesið sögur um Jesú Krist, en við þurfum að gefa okkur tíma og leggja okkur fram við að ígrunda merkingu kenninga hans og heimfæra hana upp á líf okkar. Þannig „lærum við meira um friðþægingu hans, kærleika hans, miskunn hans, kenningu hans og hið endurreista fagnaðarerindi hans til lækningar og framþróunar“ (4) og finnum svör við spurningum okkar og vandamálum.
- „Jesús Kristur er alltaf svarið,“ aðalráðstefna apríl 2023
- Lúkas 1:30–31
- 2. Nefí 33:6
- „Jesús Kristur er alltaf svarið,“ aðalráðstefna apríl 2023