Finndu þína persónulegu ræðu Benjamíns konungs á aðalráðstefnu

Boðskapur svæðisleiðtoga

Öldungur Tom-Atle Herland, Noregi
Öldungur Tom-Atle Herland, Noregi Svæðishafi Sjötíu

Aðalráðstefna er okkur öllum dásamlegur tími til andlegrar endurnýjunar, að styrkjast í trú á Jesú Krist og finna aukinn frið. Þegar Benjamín konungur í Mormónsbók bauð fólki sínu á einskonar aðalráðstefnu við musterið, þá flutti hann eina áhrifaríkustu ræðu ritninganna. Skýr áhersla hans á Jesú Krist og friðþægingu hans er okkur öllum mikil blessun, jafnvel í dag. Í Ensign frá janúar 1992, má lesa greinina „King Benjamin’s Manual of Discipleship,“ eftir öldung Neal A. Maxwell, í Tólfpostulasveitinni. Í boðskap sínum þar leggur öldungur Maxwell áherslu á mikilvægi þess að vera gerendur orðsins.

Aðalráðstefna er gullið tækifæri til að finna okkar eigin ræðu Benjamíns konungs. Þessar ræður, sem tala af svo miklu afli til hjarta okkar, sálar og anda, eru líkt og manna frá himni. Þar sem við erum öll ólík að upplagi, þá getur ein ræða haft áhrif á einn einstakling og önnur á annan og þar fram eftir götunum. Aðstæður okkar í lífinu eru mismunandi, skilingur okkar á fagnaðarerindinu er misjafn og við leggjum mismunandi mat á það sem gerist umhverfis okkur, en á aðalráðstefnu er alltaf ein ræða sem talar til hjarta okkar og sálar. Það gefur okkur kost á að vera ekki aðeins heyrendur orðsins, heldur líka gerendur þess (Jakbr 1:22, Jóh 13:17, Matt 7:21-25). Við getum, líkt og öldungur Maxwell segir, orðið lærisveinar Jesú Krists. Það er jafnvel eitt hið mikilvægasta sem við gerum að aðalráðstefnu lokinni, að láta þessar ræður, sem eru okkur svo gefandi, verða okkur hvatning til vaxtar og lífsbreytingar. Auk þess munu slíkar ræður efla okkur og stuðla að friði í einkalífi okkar og róstursömum heimi. Við getum fundið að Guð og Jesús elska okkur sannlega, þrátt fyrir veikleika okkar og áskoranir.

Eyring forseti flutti afar máttuga ræðu á síðustu aðalráðstefnu, í apríl 2017. Ræðan bar yfirskriftina „My Peace I Leave with You,“ og er mér sem ræða Benjamíns konungs. Það á líka við um ræðu Uchtdorfs forseta, „Fullkomin elska rekur út óttann“ og ræðu öldungs Relunds, „Okkar góði hirðir,“ svo og þegar Nelson forseti ræddi svo náið um Krist í ræðu sinni „Að færa kraft Jesú Krists inn í líf okkar.“ Þessi aðalráðstefna var mér mikil blessun.   Mér fannst eins og ég sæti við musterið og hlustaði á Benjamín konung.

Ef þið gefið ykkur tíma til að hlusta á eða lesa fleiri ræður, þá gæti það undrað ykkur að uppgötva að sumar ræðnanna eru líkt og falinn fjársjóður, sem þið funduð ekki fyrr en þið gáfuð ykkur tíma til að lesa þær aftur.

Nelson forseti vitnaði í Mark 5: 22-43. Þar er að finna eina dásamlegustu frásögn ritninganna sem ég veit um. Jesús hitti Jaírus, sem var samkundustjóri er féll að fótum Jesú og sárbað hann um að lækna deyjandi dóttur sína. Sjálf frásögnin er dásamleg, en á leið þeirra til dóttur Jaírusar, þar sem þeir gengu um götur og rákust utan í marga sem þar voru, þá sagði Jesús skyndilega: „Hver snart mig?.“ Lærisveinarnir urðu forviða og sögðu að hér rækjust allir á, en Jesús fann að kraftur fór út frá honum þegar kona nokkur snart klæði hans. Konan hafði verið sjúk í 12 ár og hafði eytt öllu sem hún átti til að hljóta heilsu, en var enn ólæknuð. Kristur læknaði hana á staðnum. Frásögn þeirra er afar áhrifarík. Á lds.org og með því að nota hlekkinn Bible Videos (Biblíumyndbönd), getið þið fundið einnar mínútu og 40 sekúndna myndband sem lýsir hinum dásamlegu samskiptum Krists og konunnar.

Finndu núna þína persónulegu ræðu Benjamíns konungs á aðalráðstefnu Aðalráðstefna er við musterið. Verið bæði heyrendur og gerendur orðsins, þá munuð þið finna, líkt og konan gerði, kraft fara út frá orði Krists, sem mun lækna og efla ykkur. Hughreysta ykkur. Leiðbeina ykkur. Líkt og ræða Benjamíns konungs.