Fylgja lifandi spámanni

Boðskapur svæðisleiðtoga

Follow Invite Take
Öldungur Torben Engbjerg
Öldungur Torben Engbjerg Svæðishafi Sjötíu

Eftir að hafa verið skírður í San Leandro í Kaliforníu, 20 ára gamall, og eftir að hafa lokið tveimur námsönnum í Brigham Young háskóla, var ég í flugi yfir Atlantshafið, á leið til Kaupmannahafnar að vori til, árið 1977. Ég var á leið heim til að verja sumrinu við að afla mér tekna fyrir næstu námsannir í BYU. Það hélt ég allavega!

Í hinu langa flugi reyndi ég að festa svefn, svo ég yrði hvíldur þegar ég hitti fjölskyldu mína – nú sem meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.  Hvíldin lét standa á sér.  Rödd spámannsins, Kimballs forseta á þeim tíma, hljómaði stöðugt i huga mínum og sagði:  „Sérhver verðugur ungur maður ætti að fara í trúboð.[1] „Ég er of gamall“, reyndi ég að sannfæra sjálfan mig um, „…Ég verð 22 ára á þeim tíma sem ég get farið, þremur árum eldri en flestir öldungar sem fara í trúboð.“ Ég heyrði stöðugt í Kimball forseta, næstum eins og hann sæti mér við hlið. Hann hélt mér vakandi og ég gat ekki leitt hann hjá mér.

Loks, af ótta við að fá engan svefn, sagði ég við himneskan föður: „Allt í lagi þá, ef þú innblæs einhvern til að biðja mig um að fara í trúboð – þá skal ég fara.“  Þetta gerði útslagið, ég féll í svefn og svaf þangað til flugvélin lenti, og hugsaði ekki lengur um það sem ég hefði lofað Drottni eða Kimball forseta. 

Einungis fáeinum dögum eftir komu mína til Norður-Danmerkur, fór ég í kirkju í Álaborgargreinina.  Ég þekkti engan þar.  Strax að lokinni sakramentissamkomu, kom greinarforsetinn, Johannes Vestbø, rakleiðis til mín og sagði: „Ég þekki þig ekki, en þú virðist vera meðlimur kirkjunnar klæddur í hvíta skyrtu og jakkaföt.  Ertu meðlimur?“  Ég staðfesti það og hann hélt áfram: „Má ég bjóða þér inn í skrifstofuna mína, til að kynnast þér betur?“  Fundur okkar hlýtur að hafa staðið yfir í einungis tíu til fimmtán mínútur.  Hann sagði aðeins að fáeinum mínútum liðnum: „Skrítið, jafnvel þótt ég þekki þig ekki, þá finnst mér sterklega að Drottinn sé að biðja mig um að biðja þig að fara í trúboð.  Viltu gera það?

Andinn varð yfirþyrmandi og tárin spruttu fram hjá okkur báðum, er ég minntist loforðs míns við Drottin, einungis fjórum dögum áður, og sagði honum frá því.  Ég vissi hvað mér bar að gera – fylgja rödd hins lifandi spámanns.  Fljótlega eftir þetta, var trúboðsumsókn mín send og í stað þess að fara í BYU, varði ég tekjum mínum þetta sumarið til að fara í trúboð og þjónaði í London-trúboðinu í Englandi, frá því nóvember þetta sama ár. 

Er við hefjum þetta nýja ár og setjum okkur hin persónulegu markmið svæðisáætlunar 2019, og hið fyrsta er „Fylgið spámanninum,“ þá veit ég af eigin reynslu að það mun færa okkur mestu blessanir lífsins.  Að fylgja hinum lifandi spámanni í öllu því sem hann hvetur til, „mun efla trú okkar á himneskan föður og Jesú Krist.” 

Hinn lifandi spámaður er talsmaður Drottins á jörðu. „Spámaður stendur ekki á milli ykkar og frelsarans.  Hann stendur öllu heldur við hlið ykkar og vísar veginn til frelsarans.“ [2] Líkt og staðfest er í 3. Nefí 20:24: „… Allir spámennirnir …  hafa vitnað um (Krist).“ Spámaðurinn mun mæla við okkur eilífan sannleika og veita okkur örugga leiðsögn.  „Í hvert skipti sem ég hef hlustað á ráð spámannsins, fundið það staðfest í bæn og því næst fylgt því, þá hef ég fundið að ég hef færst nær öryggi.“ [3] Spámaðurinn mun hvetja okkur til að hlýða boðorðunum, sem leiðir til hamingju, friðar og eilífs lífs.   

Í fjóra áratugi nú, hef ég kosið að að fylgja lifandi spámönnum.  Ekki einungis ég sjálfur, heldur hefur öll fjölskylda mín notið ómældra blessana vegna þeirrar ákvörðunar minnar að fylgja spámanninum árið 1977.  Ég skora á okkur öll að setja persónuleg markmið og einsetja okkur að fylgja spámanninum, sem getur veitt okkur ómældar blessanir, bæði í þessu lífi og því komandi.


[1] Spencer W. Kimball, Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, nóvember 1977, “It Becometh Every Man”, 3. málsgrein

[2] Neil L. Andersen, “The Prophet of God”, Liahona, maí 2018

[3] Henry B. Eyring, “Finding Safety in Counsel”, Ensign, maí 1997, bls. 25