„Heimurinn þarfnast ljóss þíns“

Boðskapur svæðisleiðtoga

Lissabon musterið
Öldungur Alan T. Phillips, Englandi
Öldungur Alan T. Phillips, Englandi Svæðishafi Sjötíu

Á tímum myrkurs, umróta og óvissu stöndum við frammi fyrir því að snúa okkur að hinni sönnu uppsprettu ljóss, vonar og friðar. Hann gaf okkur fordæmi kærleika og þjónustu og bauð okkur að gera slíkt hið sama. Þegar við fylgjum honum, gerum við sáttmála um að hjálpa þeim sem eru í þörf og að bera vitni um Krist allt okkar líf.[1]

Stuttu áður en Síðari heimstyrjöldin braust út, fjarlægði Þjóðlistasafnið í London þúsundir mikilvægra málverka til geymslu í Wales.[2] Almenningur krafðist þess samt af stjórnvöldum að þeir myndu skila einhverjum listaverkanna aftur og sú ákvörðun var tekið að hafa eitt málverk til sýnis í mánuði fyrir almenning,, til að lyfta hugum manna. Bréf birtist í ‚The Times‘ í janúar 1942 þar sem sagði: „Vegna þess að ásýnd London er sköðuð og marin þessa daga, þörfnumst við þess að sjá fallega muni, meira en nokkru sinni áður.“

Fyrsta ‚mynd mánaðarins‘ sem valin var fyrir almenning var Noli me Tangere („Snert mig ei“) eftir ítalska listamanninn Titian.[3] Listaverkið sýnir hinn endurreista Krist, birtast Maríu Magdalenu. Er hún kemur að gröfinni tómri, eftir dauða hans, telur hún hann vera garðyrkjumanninn og grátbiður hann að segja sér hvert hann hafi fært líkama Krists. Þegar hann kallar til hennar, þekkir hún rödd hans og þá gerir hún sér grein fyrir því hver hann sannlega er, frelsari hennar og „meistari.“[4]

Við höfum orðið vitni að miklum umrótum á þessu ári. Eins og María, eftir Titian, erum við kannski að leita frelsarans. Nelson forseti minnir okkur á að Jesús er „ljósið sem lýsir í myrkrinu.“[5] Frelsarinn kenndi fylgjendum sínum „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“[6]

Við getum meðal annars fylgt frelsaranum með því að halda sáttmála okkar um að hjálpa þeim sem eru í neyð. Þegar spámaðurinn Alma kenndi um skírnarsáttmálann, sagði hann að okkur bæri að vera „fús að bera hver annars byrðar, svo að þær verði léttar“ og „fús að syrgja með syrgjendum“ og „hugga þá sem huggunar þarfnast.“[7]

Frelsarinn er besta fyrirmynd okkar um þjónustu. Þrátt fyrir áskoranir, hótanir og ofsóknir þær sem hann stóð frammi fyrir „gekk [hann] um og gerði gott.“ Hann varði þjónustu sinni á jörðu til að blessa, þjóna og liðsinna öðrum. Friðþæging Jesú Krists var sjálf guðdómleg tjáning á kærleika, fórnfýsi og þjónustu gagnvart mannkyni. „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“[8]

Því miður er það ekki það sem heimurinn kennir. Hann kennir okkur að passa upp á okkur sjálf, að hamingjan felist í innkaupum, neyslu og hrósi samferðafólks okkar.[9] Frelsarinn lagði til mjög ólíka leið fyrir lærisveina sína. Það var leið þar sem minni áhersla var lögð á að „hafa“ og meiri áhersla á að „vera.“ Hann kenndi okkur sérstaklega að sýna kærleika, góðvild, fyrirgefningu, miskunn, þolinmæði, auðmýkt, ljúfmennsku, umburðarlyndi og lítillæti. Leiðsögn hans snerist minna um að „bjarga lífi sínu“ Í stað þess bauð hann okkur að „týna“ okkur við að annast og elska aðra.

Jesús Kristur varði tíma sínum við að þjóna og liðsinna öllum og okkur sem lærisveinum hans er boðið að gera slíkt hið sama. Frelsarinn sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“[10]

Tækifærin til að þjóna öðrum eru óteljandi. Það má vera eitthvað eins einfalt og að brosa, eða góðviljað orð. Tími sem gefin er til hlustunar. Góðverk, sérstaklega gagnvart þeim sem gætu verið afskiptir, gleymdir, félagslega einangraðir eða útundan í samfélagi ykkar.

Þjónusta blessar aðra, en hún blessar líka okkur sjálf á mikilvægan og þýðingarmikinn hátt. Hún getur hjálpað okkur að skynja elsku Guðs til okkar, og jafnframt að gleyma áhyggjum okkar, ótta, kvíða og efa.[11] Einföld, regluleg þjónustuverk eru staðfesting á elsku okkar til Guðs og annarra. Öldungur Uchtdorf sagði: „Þegar við sannlega skiljum merkingu þess að elska eins og Kristur elskar okkur, skýrist ringulreiðin og forgangsröðunin verður rétt. Ganga okkar sem lærisveina Krists verður gleðilegri. Líf okkar fær nýja merkingu. Samband okkar við himneskan föður verður dýpra og innilegra.“[12]

Má ég leggja þrennt til fyrir okkur öll að íhuga.

  1. Verið kyrr. Jesús Kristur er ljósið sem skín í myrkrinu.

  2. Verið ljós. Þið getið verið ljós á heimili ykkar, í fjölskyldunni og samfélaginu er þið aðstoðið þá sem þarfnast hjálpar og berið vitni um Krist allt ykkar líf.

  3. Gerið gott. Einföld þjónustuverk munu veita mörgum gleði, von og frið.

Jesús Kristur er ljósið sem við leitum að á tímum myrkurs, umróts og óvissu. Hann hefur boðið okkur að vera „ljós“ fyrir heiminn. Við vitum af einhverjum sem er í þörf, einhverjum sem við getum lyft upp og veitt styrk. Þetta er verkið sem við höfum verið kölluð til að gera.  Það er hans verk. Þegar við gerum svo, munum við uppgötva okkar rétta auðkenni sem börn ástríks himnesks föður.

 


[1] ‚Komið til mín‘ eftir Henry B. Eyring forseta, apríl 2013

[2] Letter from London: Art During Wartime eftir Ben Street, Art 21 Magazine, 23. september 2008

[3] The National Gallery; Mynd mánaðarins, október 2019: Noli me Tangere

[4] Jóhannes 20:14-18

[5] ‚Seven truths that have power to transform your life and others‘ eftir Russell M. Nelson forseta, Orlando Flórída, sunnudaginn 9. júní 2019

[6] Jóhannes 8:12

[7] Mósía 18:8–9

[8] Jóhannes 15:13

[9] ‚To have or to Be‘ eftir Erich Fromm, 1976

[10] Jóhannes 13:35

[11] ‘A Hallmark of the Lord’s True and Living Church’ eftir öldung Patrick Kearon, heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fullorðið fólk, 6. maí 2018, Brigham Young háskóli–Idaho

[12] ‚Elska Guðs‘ eftir öldung Dieter F. Uchtdorf, aðalráðstefna, október 2009