Hljóta andlega leiðsögn frá Drottni Jesú Kristi

Boðskapur svæðisleiðtoga

Stúlka les í ritningunum
Öldungur Paul V. Johnson
Öldungur Paul V. Johnson Forseti Evrópusvæðisins

Hafið þið einhvern tíma verið í erfiðum aðstæðum og fundist þið hafa þörf fyrir leiðsögn Drottins? Hann þekkir ykkur og veitir ykkur handleiðslu þegar mest á reynir. Við getum skynjað og skilið betur handleiðslu hans.

Við getum notið handleiðslu hans á marga vegu. Við höfum hinar helgu ritningar og orð lifandi spámanna og postula. Við hljótum leiðsögn frá öðrum leiðtogum og þeim sem standa okkur næst. Við getum líka hlotið handleiðslu fyrir tilstilli drauma, sýna eða vitjana, en oftast hljótum við innblástur milliliðalaust með hinni lágværu og kyrrlátu rödd andans. Drottinn sagði: „… ég mun segja þér í huga þínum og hjarta, með heilögum anda…Sjá, þetta er andi opinberunar.…“1 Hugsanir vakna í huga ykkar og tilfinningar í hjarta ykkar. Andinn getur talað til okkar í gegnum hugsanir og tilfinningar. Ef við gætum okkar ekki, eigum við á hættu að verða af þessum samskiptum.

Boyd K. Packer forseti sagði: 


„Andinn nær ekki athygli okkar með því að kalla eða hrista okkur til með harðri hendi. Heldur hvíslar hann. Hann tjáir sig svo blíðlega að við fáum vart skynjað hann ef við erum önnum kafinn…”


Stundum ýtir hann nægilega við okkur, svo athygli okkar vakni. Ef við hlustum ekki á hinar blíðu tilfinningar, þá mun andinn oftast draga sig í hlé og bíða þess að við leitum og hlustum…“2

Hvernig getum við aukið hæfni okkar til að skynja slíkan innblástur, ef innblástur andans hlýst oftast með kyrrlátum hugsunum og ljúfum tilfinningum? Ef einhver talaði lágt til okkar og okkur reyndist erfitt að heyra orðaskil, myndum við auðvitað reyna að lækka niður í því sem truflaði og fara nær þeim sem talaði.

Það er ýmislegt í lífi okkar sem vekur andlegan „hávaða“ og getur komið í veg fyrir að við skiljum og skynjum innblástur andans.  Margir fjölmiðlar okkar tíma eru ekki uppbyggjandi og geta vakið andlegan hávaða í lífi okkar.  Við getum líka verið svo upptekin af samfélagsmiðlum og samskiptatækjum okkar að við verðum af hljóðum stundum, frá skarkala heimsins, sem auðvelda okkur að skynja innblástur Drottins. Syndin vekur andlegan hávaða í lífi okkar.  Iðrun, rétt hvíldardagstilbeiðsla, hljóðar trúarlegar lærdómsstundir og ígrundun og bænir færa okkur nær Drottni og lækka niður í hávaða heimsins. Þetta eykur hæfni okkar til að skynja og skilja hugsanir og tilfinningar gefnar af heilögum anda.

Við ættum að gæta þess að reyna ekki að þvinga fram eða krefjast leiðsagnar frá Drottni í öllu mögulegu. Öldungur Dallin H. Oaks kenndi: „Löngun til að verða leiddur af Drottni er styrkur, en henni þarf að fylgja skilningur á því að himneskur faðir lætur okkur um að taka margar persónulegar ákvarðanir. Persónulegar ákvarðanir eru ein af uppsprettum þess styrks sem okkur er ætlað að öðlast hér á jörðu.…

Við ættum að kanna það vel í huga okkar og nota þá röksemdarhæfni sem skaparinn hefur gefið okkur. Síðan ættum við að biðja um leiðsögn og framkvæma í samræmi við hana ef við hljótum hana. Ef við fáum ekki leiðsögn, ættum við að breyta samkvæmt bestu vitund. Þeir sem þráast við að leita opinberaðrar handleiðslu varðandi efni sem Drottinn hefur kosið að upplýsa okkur ekki um getur kallað fram svar úr eigin hugarheimi eða af hlutdrægni eða leitt til falskrar opinberunar.“3

Þegar við lifum samkvæmt sáttmálum okkar og finnum leiðir til að lækka í hávaða heimsins umhverfis, þá reynist okkur auðveldar að hljóta leiðsögn frá Drottni, er hann veitir okkur hana.

______________________

1 K&S 8:2-3

2 Boyd K. Packer, The Candle of the Lord, Ensign, jan. 1983, 53.  

3 Dallin H. Oaks, Our Strengths Can Become Our Downfall, Ensign, okt. 1994, 13-14