Er þið hugleiðið „meiri kærleik“ Jesú Krists í dymbilvikunni, getið þið haft visku og hugleiðingar Jeffreys R. Holland forseta í páskanámi ykkar.
Í nýju myndbandi sem tekið er upp á skrifstofu hans, les Jeffrey R. Holland forseti, úr Tólfpostulasveit Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, úr 27. kafla Matteusarguðspjalls í Biblíunni og fer yfir atburði krossfestingar Krists og leggur áherslu á það háð sem Jesús þoldi. Hann bendir á hina endurteknu notkun á „ef“ í þeim áskorunum sem Jesús tókst á við, eins og: „Ef þú ert sonur Guðs … stíg niður af krossinum.“ Hann beinir athygli að orðum Krists sem hann talaði hárri röddu: „Elí, Elí, lama sabaktaní?“ Holland forseti útskýrir að þegar Jesús hrópaði „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ var faðirinn aldrei nær syni sínum. Postulinn kennir að Jesús hafi þurft að upplifa þessa einveru.
„Beinskeyttasta yfirlýsingin sem við höfum í hinum helgu ritningum af [krossfestingunni og hinni dásamlegu staðfestingu á guðleika Krists] er frá rómverskum hundraðshöfðingja, vantrúuðum, trúleysingja, svo að segja, sem segir: ‚Sannarlega var þessi maður sonur Guðs,‘“ kennir Holland forseti. „Og það er minn vitnisburður til ykkar.“
Orð Hollands forseta eru dæmi um einlægt nám í dymbilviku. Ykkur er boðið að taka þátt í dýpra námi á þessum helgu dögum, með því að nota páskaefnið á ChurchofJesusChrist.org. Þar er að finna hugleiðsludagbækur fyrir fullorðna og börn, sem hægt er að hlaða niður, tónlistarspilunarlista, páskamyndbönd, verkefni fyrir börn og fleira.