Fyrir tuttugu og fimm árum, nú í september, giftum við Jenny okkur í Ástralíu. Við hittumst tveimur árum fyrr í Chicago í vinnuferð og aðeins tveimur dögum eftir að ég hitti hana kom þessi hugsun upp í huga minn: „Þú munt giftast þessari stúlku.“ Þessi skyndilegi innblástur leiddi mig í ferðalag frá London til Ástralíu til að fara með Jenny á stefnumót og síðan í kirkju. Hún var skírð 4 mánuðum síðar og flutti til London, svo við gætum farið á fleiri stefnumót. Við trúlofuðum okkur á Ítalíu tæpu ári síðar, giftumst í Sydney, innsigluðumst síðan í London-musterinu og urðum þessu næst foreldrar dásamlegu drengjanna okkar fjögurra. Þessi ástarsaga gerðist eins og stormsveipur!
Nú er við höldum upp á 25. brúðkaupsafmælið okkar, lít ég til baka undrandi yfir því hversu fljótt ég varð ástfanginn og hversu einfaldur skilningur minn á ástinni var. Síðustu 25 ár hafa kennt mér að ástin er miklu meira en upphaflega tilfinningin að „verða ástfangin“ – og hefur meira að gera með þjónustu og samvinnu, þar sem tveir vinir hjálpa hvor öðrum á ferð sinni til að verða sá eða sú sem Guð ætlaði þeim að verða. Í hjónabandi okkar höfum við fengið okkar skerf af hæðum og lægðum, með tárum og sorgum, sem og gleði og hamingju – það er allt hluti af áætluninni. Og þó að saga okkar hafi byrjað með „ást við fyrstu sýn“, hefur hún vaxið í það að vera allt önnur tegund af ást. „Tilfinningin“ ást kemur og fer óumflýjanlega, en „sagnorðið“ elska styður og styrkir hjónabandið og getur skapað allra dýrmætustu samböndin.
Ég sé margt hliðstætt við andlega trúarumbreytingu okkar og ferlið að verða lærisveinar Jesú Krists. Við erum öll blessuð með ljósi Krists hið innra (1) og hvert okkar býr að einstökum ljósgeislaupplifunum sem gera okkur kleift að byggja upp vitnisburð um Guð og son hans, Jesú Krist (2). En slíkar andlegar upplifanir fela ekki endilega í sér trúarumbreytingu, né veita þær okkur óhagganlega trú. Við upplifum öll stundir þar sem okkur finnst við ekki vera í nálægð Guðs, kannski þegar raunir eða efasemdir valda því að við riðum til falls; eins og æðsti presturinn Alma bendir á með þessari innblásnu spurningu: „Og sjáið nú, ég segi yður, bræður mínir, ef þér hafið fundið umbreytingu í hjörtum yðar og hafi yður langað til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku, þá spyr ég: Finnið þér slíkt nú?“ (3)
Eins og ást í hjónabandi, þá þarfnast trú okkar á Jesú Krist stöðugrar næringar, vökvunar og daglegs sólarljóss, eins og útskýrt er í Alma 32 (4). Fyrir flest okkar, gerist trúarumbreyting „orð á orð ofan og setning á setning ofan, örlítið hér, örlítið þar“ (5). Ferlið að verða lærisveinn Jesú Krists, er ævilangt viðfangsefni og það getur fært okkur gleði.
Gleði okkar í fagnaðarerindi Jesú Krists felst í framförum okkar á sáttmálsveginum og er við vinnum að þeim, byggist upp náið, persónulegt samband við föður okkar á himnum. „Nálgist mig og ég mun nálgast yður“ (6). Þegar við keppum að því að nálgast hann, finnum við kærleika hans ríkulegar í lífi okkar og við lærum að elska hann meira. Við byrjum þá að fylla mæli sköpunar okkar og ná guðlegum möguleikum okkar og upplifa frið í hjörtum okkar.
Ég er að átta mig á því, eftir 25 ára hjónaband og 50 ára kirkjusókn, að kjarni hamingjuríks lífs snýst alfarið um sambönd; bæði við föður minn á himnum og eiginkonu mína. Og að finna má hliðstæður í því hvernig þessi sambönd byrja og þróast með tímanum. Ég er svo þakklátur fyrir að himneskur faðir og eiginkona mín eru bæði svo fús til að fyrirgefa, sýna þolinmæði og sýna mér stuðning í veikburða viðleitni minni og að bæði sýni þau mér svo mikla elsku. Þegar ég beini tíma mínum, hæfileikum og orku að þessum tveimur sáttmálssamböndum, virðist allt annað falla í réttar skorður. Og þegar ég vinn í öðru hvoru þessara sambanda, virðist það hjálpa mér með hitt.
Leiðin að trúarumbreytingu, líkt og í hjónabandi, getur byrjað með skyndilegum innblæstri, en mun blómstra og verða að sáttmálssambandi við Guð, þar sem við erum fyllt elsku hans.
Í nafni Jesú Krists, amen.
- Moróní 7:16; Jóhannes 1:9
- Öldungur Dushku, Stólpar og geislar, aðalráðstefna, apríl 2024
- Alma 5:26
- Alma 32:37–42
- 2. Nefí 28:30; K&S 98:12
- K&S 88:63