Hver heldurðu að þú sért?

Boðskapur svæðisleiðtoga

Unglingur með pabba sínum að læra um fjölskyldusögu
Öldungur Tom-Atle Herland, Noregi
Öldungur Mark Gilmour, Englandi

Í mörgum löndum víða um heim hefur sjónvarps-heimildaþáttaröðin „Who Do You Think You Are?“ (Hver heldurðu að þú sért?) vakið bæði hrifningu og þátttöku áhorfenda. Margar frægar stjörnur hafa verið með í þáttaröðinni og einlæglega hrifist er sögur af ættmennum þeirra hafa komið fram og verið kynntar. Þessi einlæga og hjartnæma hrifning er áhugaverð, einkum í ljósi fagnaðarerindisins. Án aðstoðar mikilhæfra ættfræðinga, hefðu þessar frægu stjörnur ekki orðið fyrir slíkri áhrifamikilli upplifun.

Hver heldurðu að þú sért? Hver eru ættmenni þín? Sjálfur er ég barn foreldra sem snérust til trúar á kirkjuna og fagnaðarerindið. Faðir minn og móðir gengu í kirkjuna í október 1971. Faðir minn skírði mig eftir að ég varð 8 ára í febrúar 1972. Faðir minn, sem var trúfastur í kirkjunni, sneri sér fljótt að ættarsögu og hefur unnið ættarsögustarf í þágu mörg þúsundi forfeðra okkar.  Faðir minn vinnur enn við eigin ættarsögu, þótt hann sé 83 ára gamall. Ég hef þegar hafist handa við að finna nöfn í ættlegg móður minnar. Móðir mín lést árið 1998 og þótt mikið verk hefði þegar áunnist, er mörgu enn ólokið.  Markmið mitt er að sjá nafn mitt jafn oft og nafn föður míns eða móður minnar á helgiathafnaspjöldunum, er ég fer í musterið. Ef ég á að geta það, þarf ég að fá aðstoð, eins og í heimildaþáttunum „Hver heldurðu að þú sért?“ Eiginkona mín – afar áhugasamur ættfræðingur – hjálpar mér að finna nöfn. Án hennar hjálpar, hefði árangurinn verið harla lítill. Ef þið eruð eins og ég og margir aðrir, finnið þá einhvern til að aðstoða ykkur við þetta verk. Þið munuð þá ná auknum árangri og sjá að ættmenni ykkar finnast og að musterisverk verði unnin fyrir þau.  Það er dásamlegt að gera musterisverk. Það er einkar sérstakt að fara í gegnum musterið fyrir eitt af mínum eigin ættmennum, sem ég hef sjálfur fundið og lesið um.

Nelson forseti flutti dásamlega ræðu á aðalráðstefnu í apríl 2018, sem hefur yfirskriftina: Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf. Í þessari ræðu sagði hann nokkuð afar athyglisvert, sem allt frá því hefur verið mér afar mikilvægt: „Ekkert er áhrifaríkara við að ljúka upp gáttum himins eins og samspilandi þættir aukins hreinleika, algjörrar hlýðni, einlægrar leitar, daglegrar endurnæringar á orðum Krists í Mormónsbók og reglubundins tíma sem helgaður er musteris- og ættarsögustarfi.“ [Leturbreyting hér]. Við skulum fylgja spámanninum. Við skulum fara með nöfn ættmenna okkar í musterið.

Á síðasta áratug hefur orðið mikil aukning í byggingu nýrra mustera. Okkur er mikilvægt að fara oft í musterið, þar sem það er nú auðveldara. Trúföst kona í kirkjunni kom eitt sinn að máli við mig, er ég þjónaði sem stikuforseti, og sagðist ekki hafa farið í musterið í langan tíma. Hún hafði blendnar tilfinningar til musterisins. Ég sagði það ekki vera vandamál. Að ég þekkti sjálfur fólk sem hefði sömu tilfinningar. Ég spurði hvort hún vildi koma með okkur í eina af hinum vikulöngu ferðum frá Noregi til musterisins í Stokkhólmi í Svíþjóð en  taka einungis þátt í einni musterissetu. „Bara einni setu á dag?“ spurði hún afar undrandi. „Nei,“ sagði ég, „bara einni setu yfir alla vikuna! Þú getur ákveðið daginn sem þér finnst musterið höfða best til þín og sótt einungis eina musterissetu þann dag. Hina dagana geturðu rölt umhverfis musterið og gert það sem þér finnst færa þig nær Kristi.“ Hún gerði svo og það leiddi til viðhorfsbreytingar hjá henni og bætti sambandið við musterið.

Hver getur hjálpað ykkur við að finna ættmenni? Hvað getið þið gert til að fara reglubundið í musterið?

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“[1]

 


[1] Jóh 3:16