Hvað kennir trú mormóna um bæn?
Mormónar, einnig þekktir sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, trúa því að bænin sé samskipti á milli okkar og Guðs, himnesks föður okkar. Himneskur faðir vill að við biðjum til hans daglega, bæði sem einstaklingar og með fjölskyldum okkar Mormónar trúa því að Guð vilji að við „biðjum til hans og einskis annars“ (“Prayer,” Gospel Topics, topics.lds.org). Mormónatrúin kennir, eins og Biblían, að þegar Jesús Kristur var á jörðinni, þá útskýrði hann að við ættum að biðja til himnesks föður í nafni Jesú (sjá Jóhannes 16:23). Hvað mormóna varðar þá er bænin bæði boðorð frá Guði og tækifæri til að vera í persónulegum samskiptum við hann.
Hvernig ætti ég að biðja?
Til að sýna virðingu okkar og kærleika gagnvart Guði þegar við biðjum, þá krjúpum við, lútum höfði og lokum augunum. Mormónar trúa því að þegar við biðjum, ættum við að vera meðvituð um það að við erum að tala við himneskan föður okkar og nota kærleiksríkt og virðingafullt mál.
Mormónatrúin kennir að það sé kraftur í því að biðja upphátt og að ritningarnar hvetji okkur að biðja oft í einrúmi svo að við getum tjáð sannar tilfinningar okkar til Guðs (sjá Matteus 6:6–7; Alma 34:17–27). Hins vegar getum við beðið til Guðs hvar og hvenær sem er. Trú mormóna felur í sér kenninguna um að jafnvel hugsun geti verið bæn, ef henni er beint til Guðs (sjá Leiðarvísir að ritningunum, „bæn“ scriptures.lds.org).
Mormónar trúa því að þegar við biðjum ættum við að tjá þakklæti okkar til himnesks föður fyrir hinar mörgu blessanir okkar. Eins og einn leiðtogi mormóna sagði: „Merkingarfyllstu og andlegustu bænirnar sem ég hef upplifað fólu í sér margvíslegar
þakkir og fáar ef nokkrar beiðnir“ (David A. Bednar, “Pray Always,” Ensign or Liahona, nóv. 2008, 42). Trú mormóna felur í sér þá kenningu að allt sem við höfum kemur frá Guði og jafnvel mitt í mestu erfiðleikum okkar þá getum við samt þakkað honum fyrir blessanir okkar.
Mormónatrúin kennir að himneskur faðir vilji að við biðjum hann um það sem við þörfnumst í bænum okkar. Jesús Kristur kenndi: „Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða“ (Matteus 7:7–8). Mormónar trúa því að þegar við biðjum þá getum við beðið himneskan föður að hjálpa okkur með stundlegar, tilfinningalegar og andlegar þarfir okkar og aðrar þarfir sem við gætum haft. Mormónar trúa því einnig að sem ástkær faðir okkar þá þráir Guð að hjálpa okkur og mun veita okkur allar þær blessanir sem eru okkur til góðs. Þegar við hins vegar biðjum himneskan föður um blessanir, ættum við að biðja þess að hans vilji ráði og svo gera allt sem í okkar valdi stendur að vera verðug þeirra blessana sem við biðjum um.
Hvaða blessanir koma frá bæn?
Mormónar trúa því að bæn geti fært margar blessanir. Trú mormóna kennir að þegar við biðjum getum við skynjað elsku Guðs til okkar. Við finnum fyrir þakklæti er við íhugum hinar mörgu blessanir sem eru þegar í lífi okkar. Við upplifum mikla hamingju og frið er við vinnum að því að samstilla vilja okkar vilja Guðs allt okkar líf. Við erum blessuð með meiri þolimæði og trú. Við getum skynjað áhrif heilags anda leiða og leiðbeina okkur. Þegar við biðjum opnar Guð gáttir himins og veitir okkur blessanir sem hann var þegar tilbúinn að veita okkur og sem við þurftum aðeins að biðja um til að fá. Við getum einnig hjálpað til við að blessa líf annarra er við sendum einlæga bæn til Guðs fyrir velferð þeirra.
Hvernig getið þið lært um áætlun Guðs varðandi ykkur?
Til að læra meira um trú mormóna og hverju mormónar trúa varðandi bæn, heimsækið mormon.org.