Miðlið öðrum elsku Jesú Krists. Vingist við þá sem eru einmana. Takið á móti gjöfunum sem frelsarinn býður ykkur. Einblínið á hann til að finna von og lækningu.
Þessum boðskap og fleiru til var miðlað af fjórum leiðtogum á Jólasamkomu Æðsta forsætisráðsins árið 2025 í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Útsendingunni frá Ráðstefnuhöllinni á Musteristorginu, sem var tekin upp fyrir fram, var miðlað heiminum sunnudaginn 7. desember 2025. Ræðumenn voru Henry B. Eyring, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu; Jeffrey R. Holland forseti Tólfpostulasveitarinnar; Timothy L. Farnes aðalforseti Piltafélagsins; og Susan H. Porter aðalforseti Barnafélagsins.
Eyring forseti: Eigið í samstarfi við Krist og miðlið elsku og von
Eyring forseti minntist þeirrar kristilegu hefðar sem hann hafði sem ungur faðir, að baka nýtt brauð fyrir hina þurfandi með tveimur dætrum sínum. Auk brauðsins, þá risti Eyring forseti nokkur orð á frönsku í trébretti sem þýða: „Ég elska og ég vona.”
„Á þessari jólatíð bíða okkur allra tækifæri til að breiða út faðminn og sýna góðvild af kristilegum kærleika … hún getur haft varanleg áhrif – og mun oft gera það,” sagði Eyring forseti. „Þegar við hefjum þessa dásamlegu jólahátíð, gef ég ykkur vitnisburð minn um að Jesús Kristur er kærleikur og von. Við getum líka átt í samstarfi við hann og miðlað öðrum elsku hans og von með óeigingjörnum góðverkum.”
Fyrsti ráðgjafinn í Æðsta forsætisráðinu kom einnig þessari hugsun á framfæri, sem öldungur Howard W. Hunter miðlaði fyrir mörgum áratugum:
„Látið af illdeilum þessi jól. Finnið gleymdan vin. Hafnið tortryggni og skiptið henni út fyrir traust. Skrifið bréf. Gefið milt svar. Hvetjið ungmenni. Sýnið hollustu ykkar í orði og verki. Efnið loforð. Hættið að vera langrækin. Fyrirgefið andstæðingi. Biðjist afsökunar. Reynið að skilja. Endurskoðið kröfur ykkar til annarra. Hugsið fyrst til einhvers annars. Verið góðhjörtuð. Verið blíð. Hlæið aðeins oftar. Tjáið þakklæti ykkar. Bjóðið ókunnugan velkominn. Gleðjið barnshjarta. Njótið fegurðar og undurs jarðarinnar. Tjáið ást ykkar og tjáið hana svo aftur.”
Holland forseti: Verið fjölskylda hinna einmana
Holland forseti ræddi þá einsemd sem margir upplifa yfir hátíðirnar. Hann sagði að síðastliðin þrjú jól án eiginkonu sinnar, Patriciu (sem lést í júlí 2023), hafi verið sérstaklega einmanaleg.
„Þessi jól langar mig að bjóða hverju ykkar, þó ekki nema í stutta stund, að vera fjölskylda einhvers sem annars er einsamall. Einmanaleiki er hrikalega sár tilfinning,” sagði Holland forseti.
Hann benti fólki á föður þess á himnum „sem aldrei gefst upp eða bregst” og á Jesú Krist „sem ólst upp til að ‚[bera þjáningar okkar]‘, [leggja á sig harmkvæli okkar] og [vera kraminn vegna misgjörða okkar]. Við þökkum föður okkar á himnum fyrir hinn fyrirheitna Messías, æðstu gjöf þeirra allra á jólum.”
Farnes forseti: Taka á móti gjöf Krists
Farnes forseti sagði sögu frá því þegar hann var ungur trúboði í Brasilíu, þar sem fjölskylda bauð honum og trúboðsfélaga hans jólamáltíð þrátt fyrir takmörkuð fjárráð fjölskyldunnar.
„Þau höfðu gefið okkur fallega gjöf og í fyrstu hafði ég verið hikandi við að þiggja hana. Þessi jól breyttu lífi mínu varanlega,” sagði Farnes forseti. „[Við] getum … dag hvern haldið jól hátíðleg – og ættum að gera það – með því að snúa okkur til frelsarans og taka á móti gjöf hans af þakklæti. Þegar við tökum á móti gleði daglegrar iðrunar, munum við uppgötva að blessanir jólanna og kraftaverk gjafar hans geta ávallt verið okkar.”
Porter forseti: Kristur er uppspretta vonar og lækningar
Porter forseti sagði frá þeim erfiðleikum sem hún upplifði á aðfangadagskvöld árin 2010 og 2016 þegar eiginmaður hennar, Bruce, var lagður inn á spítala og „barðist fyrir lífi sínu”. Bruce lifði af heilsubrest sinn árið 2010 en ekki þann næsta. Hann lést 28. desember 2016.
„Þótt útkoman hafi verið mismunandi á hvoru þessara aðfangadagskvölda, þá er hvort þeirra okkar heilagt,” sagði Porter forseti. „Var tárum úthellt, djúp sorg upplifuð vegna missis og einmanaleika? Já. Fundum við kærleiksljós Guðs? Já. Þegar okkur fannst vera sólsetur í lífi okkar, þá veitti hann okkur ljós og skilning. Þegar við einblínum stöðugt á frelsara heimsins, mun hann lýsa leið okkar til vonar og lækningar.”