
Fyrir nokkrum mánuðum treysti öldungasveitarforseti minn mér fyrir þeirri ábyrgð að þjálfa nývígðan 14 ára gamlan kennara í deildinni minni í hirðisþjónustu. Ég var stoltur af því að geta kennt honum allt sem ég hafði lært eftir margra ára þjónustu, en reyndar var það hann sem kenndi mér þennan dag!
Á þessu tímabili voru skylduverk mín yfirþyrmandi og tók það mig fáeinar vikur að hefja þjónustu mína með honum. Að lokum mælti ég okkur mót við fjölskyldu sem við ætluðum að þjóna. Á leiðinni til heimilis fjölskyldunnar notaði ég hvert tækifæri til að segja honum frá öllu því sem ég vissi um ábyrgð prestdæmishafa. Meðan við vorum að spjalla við fjölskylduna, sneri móðirin sér að unga þjónustufélaga mínum og sagði: „Takk fyrir að sjá fyrir okkur síðustu vikurnar. Þú hringdir þrisvar sinnum til að inna eftir því hvernig okkur liði og í dag bakaðir þú köku fyrir okkur.“ Ég varð hvumsa! Félagi minn hafði ekki beðið eftir því að ég segði eða sýndi honum hvað gera ætti, hann byrjaði einfaldlega að þjóna. Hann tók af skarið sökum kærleiks fyrir fjölskyldunni og fylgdi hughrifum heilags anda. Hann sýndi mér að aldur er engin hindrun í þjónustunni.
Þennan dag kenndi hann mér eins og frelsarinn kenndi, „að framkvæma með hjartanu, í kærleika, án þess að hreykja sér upp, að gera frekar en að segja.“

Frelsarinn sagði: „Fylgið mér þess vegna og gjörið það, sem þér hafið séð mig gjöra.“1 Að hann lét skírast þótt fullkominn væri, sýnir okkur hve mikilvægt það er að kenna með fordæmi. Útrétt hönd hans til sjúku konunnar sýnir okkur hve mikið honum er annt um sérhvert okkar. Það hvernig hann verndaði konuna sem staðin var að hórdómi, er tákn um hvað friðþægjandi fórn hans getur gert í lífi okkar. Sú staðreynd að hann snerti holdsjúka manninn, hjálpar okkur að skilja að er við snúum okkur til hinna þurfandi, erum við að kenna með verkum okkar.
Í handbókinni „Kenna að hætti frelsarans“ segir: „Takmark sérhvers trúarkennara – sérhvers foreldris, sérhvers sem kallaður er til kennslu, sérhvers heimilis-og heimsóknarkennara og sérhvers fylgjanda Krists – er að kenna hina hreinu kenningu fagnaðarerindisins með andanum, til að hjálpa börnum Guðs að grundvalla trú sína á frelsarann og verða líkari honum.“ „Hin hreina kenning Krists er máttug. Hún breytir lífi allra þeirra sem skilja hana og reyna að lifa eftir henni. Kenning Krists hjálpar okkur að finna og dvelja á sáttmálsveginum. Að dvelja á hinum þrönga en vel skilgreinda vegi, mun að lokum gera okkur hæf til að meðtaka allt sem Guðs er. Ekkert er dýrmætara en allt það sem föðurins er!“2
Að kenna eins og frelsarinn kenndi krefst þess að við höfum hann í öndvegi í lífi okkar, fylgjum kenningum hans og breiðum út kærleika alls staðar. Að kenna eins og hann merkir einnig að nota sérhvert tækifæri til að bera vitni um hann, um friðþægingarfórn hans og kærleik, vegna þess, eins og Drottinn sagði: „Þetta er fagnaðarerindi mitt, og þér vitið, hvað yður ber að gjöra í kirkju minni. Því að þau verk, sem þér hafið séð mig vinna, þau skuluð þér einnig vinna.“3
Ég ber vitni um þá elsku sem hann ber til sérhvers okkar. Hann er frelsarinn og lausnarinn og hann mun leiða okkur til eilífs lífs. Í nafni Jesú Krists, amen.
2 Nelson forseti: Hreinn sannleikur, hrein kenning og hrein opinberun. Aðalráðstefna, október 2021