Frankfurt am Main

Kirkja Jesú Krists sendir matvæli, tjöld, lækningabirgðir og fleira til Tyrklands og Sýrlands

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu heldur áfram að senda hjálpargögn til fórnarlamba jarðskjálftans í Tyrklandi og Sýrlandi, með aðstoð nokkurra alþjóðlegra samtaka.

Frá því að skjálftarnir riðu yfir 6. febrúar hefur aðstoð kirkjunnar numið meira en 5 milljónum Bandaríkjadala.

„Missirinn og þjáningarnar af völdum þessara jarðskjálfta hafa verið yfirþyrmandi,“ sagði Gérald Caussé, Yfirbiskup kirkjunnar. „Hjörtu okkar og bænir beinast sannlega til bræðra okkar og systra í Tyrklandi og Sýrlandi. Við erum innilega þakklát fyrir að við sem kirkja höfum burði til að hjálpa þeim núna og á langri vegferð þeirra til enduruppbyggingar.“

Svæðisskrifstofa kirkjunnar í Þýskalandi sendir 40 stór tjöld (sem hvert um sig rúmar 20 manns) til Tyrklands, ásamt rausnarlegum birgðum af fatnaði fyrir karla, konur og börn.

„Það er dásamlegt þegar samfélagmeðlimir af ólíkum trúarbrögðum vinna saman að því að veita hjálp,“ sagði Abdullah Kaya, meðlimur í Ráðgjafaráði útlendinga í Frankfurt.

Tyrkneska ræðismannsskrifstofan í Frankfurt hefur stofnað söfnunarstöð til að tryggja áreiðanleika afhendingar framlaga frá Þýskalandi til fórnarlamba jarðskjálftans.

Önnur aðstoð kirkjunnar til Tyrklands er veitt í gegnum samtök eins og Project HOPE og Þróunar- og hjálparstofnun aðventista (ADRA). Hún felur í sér matvæli, vatn, skýli, heilsugæslustöðvar, hitara, yfirhafnir, lækningavörur, hreinlætispakka, ábreiður, barnavörur og rafala.

Í Sýrlandi styður kirkjan starf samtaka eins og MedGlobal, Mercy Corps, International Medical Corps og Rahma Worldwide. Það felur í sér læknishjálp fyrir tugþúsundir manna, ásamt matvælum, vatni, skýli, ábreiðum, eldsneyti, hreinlætisvörum, barnavörum og hreinlætisþjónustu.

„Þessi viðbrögð eru staðfesting á skuldbindingu okkar við æðstu boðorðin tvö. Við sýnum kærleika okkar til Guðs með því að liðsinna börnum hans, hver sem staðsetning þeirra eða bakgrunnur er,“ sagði Blaine R. Maxfield, framkvæmdastjóri Velferðar- og sjálfsbjargarþjónustu kirkjunnar. „Það væri erfitt að gera of mikið úr þakklæti okkar fyrir þau dásamlegu hjálparsamtök sem starfa samhliða okkur við að gera þessa hjálp mögulega eða fyrir meðlimi og velunnara kirkjunnar sem gefa svo rausnarlega á þessum mikla neyðartíma.

Mannúðarþjónusta kirkju Jesú Krists

Mannúðarþjónusta Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu veitir líkn, eflir sjálfsbjargarviðleitni og veitir tækifæri til þjónustu. Hún fylgir því boði Jesú Krists að fæða hungraða, gefa þyrstum að drekka, taka vel á móti ókunnugum, klæða nakta og vitja sjúkra og þjáðra.

Mannúðarstarf kirkjunnar er gert mögulegt með rausnarlegum framlögum og sjálfboðaliðastarfi Síðari daga heilagra og velunnara trúarinnar. Yfir sex milljón dagsverka eru innt af hendi af sjálfboðaliðum sem vinna að velferðarverkefnum á hverju ári.

Kirkjan styrkir hjálpar- og þróunarverkefni í yfir 180 löndum og svæðum og veitir aðstoð án tillits til kynþáttar, trúarbragða eða þjóðernis. Aðstoðin byggir á reglum um persónulega ábyrgð, stuðning samfélagsins, sjálfsbjargarviðleitni og sjálfbærni.

Verkefnin í Tyrklandi og Sýrlandi eru að hluta til styrkt af Hjálparstofnun SDH í Ástralíu.