Kraftaverk upprisunnar

Boðskapur svæðisleiðtoga (apríl 2021)

Öldungur Saulo G. Franco, Spáni
Öldungur Saulo G. Franco, Spáni Svæðishafi Sjötíu

Þegar ég var 7 ára gamall varð ég vitni að því að fjölskylda okkar missti yngri bróður minn, sem var einungis 6 ára gamall. Það voru erfiðir tímar fyrir foreldra mína, sársaukinn sem fylgdi því að missa svo ungan son var þeim gríðarlegur og jafnvel mjög óréttlátur. Í stað þess að skella skuldinni á einhvern eða eitthvað, sá ég foreldra mína leita huggunar í fagnaðarerindinu og frelsaranum. Þetta hjálpaði þeim að þroska og styrkja trú þeirra á Krist og þá von að þau myndu sjá ástkæran son sinn einhvern tíma aftur. Sú trú og von sem þau þroskuðu með sér yfir árin, hjálpaði þeim að bera missi sonar síns af hugrekki. Fyrir þau var musterið eitt af lykilatriðum þess að öðlast nægilegan skilning og styrk til að takast á við þennan erfiða, líkamlega aðskilnað. Þar sem að þau höfðu meðtekið hinar heilögu musterishelgiathafnir mörgum árum áður, veittu þessir sáttmálar þeim von um að dag einn myndu þau rísa upp aftur sem foreldrar og börn.

Þessi von sem við leitum öll að þegar við missum einhvern sem við elskum á rætur í  upprisu frelsarans Jesú Krists. Þökk sé þeirri gjöf að við getum vonað að sá dagur komi að við munum sjá aftur þá sem hafa horfið á braut.

Upprisan er ein stórkostlegasta gjöfin sem við höfum hlotið frá himneskum föður okkar. Erum við meðvituð um þessa miklu gjöf? Trúum við því raunverulega að þetta muni gerast?

Spámaðurinn Joseph Smith sagði:

„Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn, reis upp á þriðja degi og sté upp til himins; og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það.“1 

Ef ekki væri fyrir upprisu frelsarans, hefði endurlausnaráætlunin náð fram að ganga, friðþægingin hefði ekki uppfyllt tilgang sinn og allt mannkyn væri týnt og án vonar. Postulinn Páll kenndi Korintubúum: „En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun ykkar, ónýt líka trú ykkar.“2 Upprisan er ein lykilkenning trúar okkar og kristindóms. Hún er nauðsynleg til að öðlast eilíft líf. Þegar við styrkjum trú okkar á Krist, eykst vitnisburður okkar og skilningur á upprisunni, svo og von okkar og geta til að takast á við mótlæti, áskoranir lífsins og alla erfiðleika sem við tökumst á við nú og um framtíð.

Þökk sé upprisunni að við eigum þá von að lifa á ný og hittast aftur, sama hvaða líkamlega ófullkomleika við tókumst á við í þessu lífi. Upprisan er gjöf án endurgjalds og skilyrða og er ætluð öllum sem lifa, hafa lifað og munu lifa.

Frelsarinn kenndi að fullvíst er að líf er eftir þetta líf. Hann sagði: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“3

Í heimi þar sem eins mikil ringulreið og óvissa ríkja og við búum  nú við, getum við fundið von um að allt muni verða betra. Ég er sannfærður um að betri tímar séu framundan og upprisan er sú kenning sem færir okkur þessa von. Ef við snúum lífi okkar í átt að frelsaranum, mun allt verða ljóst, þótt það virðist týnt um stund. Þetta er ein sú mesta blessun sem himneskur faðir hefur gefið okkur, að sonur hans dó fyrir okkur, svo við fengjum lifað á ný.

Ég veit að sá dagur kemur að ég og fjölskylda mín munum hitta yngri bróður minn aftur, þá upprisinn. Ég veit einnig að ef við erum trúföst, getum við verið saman sem eilífar fjölskyldur. Ég veit að Kristur er upprisinn og lifir! Sökum heilags anda veit ég að þetta er satt. Gjöf upprisunnar er ekki einungis stórkostleg gjöf, heldur er hún elska Guðs til okkar.

1 History of the Church, 3:30; úr ritstjórnargrein í Elders' Journal, júlí 1838, bls. 44; Joseph Smith var ritstjóri þessa tímarits.

2 1. Korintubréf 15:14

3 Jóhannes 11:25