Leiðbeiningar um mikilvægar helgiathafnir, blessanir og annað tengt kirkjustarfi

Á undantekningartímum er yfirleitt hægt að framkvæma helgiathafnir, ef nauðsynlegar varúðarráðstafanir eru gerðar. Þegar t.d. smitsjúkdómur er áhyggjuefni, ættu þeir sem framkvæma helgiathafnir að þvo hendur sínar vandlega og þeim er einnig heimilt að nota hanska og andlitsgrímur.

Skírnir og staðfestingar

Skírnir og staðfestingar þurfa samþykki prestdæmisleiðtoga með viðeigandi lykla. Þegar þess er þörf geta skírnarathafnir farið fram með einungis fjórum einstaklingum: Skírnþeganum, presti eða Melkísedeksprestdæmishafa sem framkvæmir skírnina og tveimur vitnum. Skírn er framkvæmd með leyfi biskups eða trúboðsforseta, sem hefur nauðsynlega prestdæmislykla. Biskupinn eða trúboðsforsetinn, eða einhver sem þeir tilnefna, (sem gæti verið eitt vitnanna) verður að fylgjast með og skrá skírnina og staðfestinguna. Ef nauðsyn krefur, getur sá sem veitir leyfið gert það með fjarbúnaði. Leiðtogar, fjölskylda og vinir geta horft á með því að nota fjarbúnað. Þegar sakramentissamkomur eru tímabundið afboðaðar, er heimilt að staðfesta skírnarþega strax að lokinni skírn.

Prestdæmisvígslur og embættisísetningar

Prestdæmisvígslur og embættisísetningar gera kröfu um fyrirfram samþykki þess einstaklings sem hefur viðeigandi prestdæmislykla. Þær gera líka kröfu um líkamlega handayfirlagningu heimilaðs prestdæmishafa. Sá sem hefur prestdæmislyklana, eða einhver sem hann tilnefnir, verður að fylgjast með helgiathöfninni og skrá hana. Ef nauðsyn krefur, er þessum einstaklingi heimilt að fylgjast með helgiathöfninni með fjarbúnaði.  Leiðtogar, fjölskylda og vinir geta horft á í gegnum fjarbúnað.

Vígslur, kallanir og embættisísetningar má framkvæma án þess aðstuðningur fari fyrst fram í deild og stiku, ef það er fyrirfram samþykkt af þeim sem hefur viðeigandi prestdæmislykla. Með þessu er hægt að halda verki Drottins áfram og athafnir eru staðfestar síðar, þegar samkomur hefjast að nýju.

Þjónusta við hina sjúku

Prestdæmisblessun gerir kröfu um líkamlega handayfirlagningu. Að öllu jöfnu þjónusta tveir eða fleiri Melkísedeksprestdæmishafar, en einum er heimilt að gera það. Eftir að hafa gripið til allra nauðsynlegra varúðarráðstafana, þar sem aðstæður banna að hendur séu lagðar á höfuð einhvers, er hægt að bjóða fram bæn, þar með talið í gegnum fjarbúnað. Það er trúarbæn en ekki prestdæmisblessun. Hver sem er getur hvenær sem er beðist fyrir, fastað eða þjónað öðrum á annan hátt.

Þjónusta sakramentis

Meðlimir ættu að nýta sér blessanir þess að mæta á sakramentissamkomu og meðtaka sakramentið vikulega, þegar mögulegt er. Í undantekningartilvikum, þegar sakramentissamkomur í deild eru ekki haldnar í lengri tíma, getur biskup heimilað verðugum prestdæmishöfum í deild sinni að undirbúa og þjónusta sakramentið á eigin heimilum eða á heimilum annarra deildarmeðlima, þar sem ekki er verðugur prestur eða Melkísedeksprestdæmishafi. (Sjá General Handbook [Almenn handbók], 18.9.1.) Sé þörf á því, getur einn prestur eða Melkísedeksprestdæmishafi þjónustað sakramentið.

Meðlimir mega hafa eigið brauð og vatn. Hins vegar ætti heimilaður prestdæmishafi/hafar að undirbúa sakramentið. Prestdæmishafinn/hafarnir sem þjónusta sakramentið verða að vera á sama stað og þeir sem meðtaka það, þegar þeir brjóta brauðið, flytja bænirnar og útdeila sakramentinu. Við óvenjulegar aðstæður, þegar sakramentið er ekki í boði, geta meðlimir huggað sig við að læra sakramentisbænirnar og einsett sér að lifa eftir þeim sáttmálum sem þeir hafa gert og beðið fyrir þeim degi að þeir fái meðtekið það persónulega, réttilega þjónustað af prestdæminu.

Einstaklingar og fjölskyldur eru blessuð þegar þeir geta sjálfir haft heimilismiðaða hvíldardagsþjónustu, persónulega eða með fjarbúnaði. Slík tilbeiðsla getur falið í sér bænir, sálma og trúarkennslu. Þegar prestdæmishafi/ar eru viðstaddir og hafa heimild, má blessa sakramentið og útdeila því.

Annað tengt kirkjustarfi

Samkomur. Við sérstakar aðstæður geta leiðtogar afboðað samkomur og athafnir tímabundið. Þegar aðstæður krefjast, geta fundir, viðtöl og deildarráðsfundir biskupsráðs farið fram með fjarbúnaði, til dæmis með sím- eða myndhringingu. Biskupar og leiðtogar geta notað tæknina til að senda skilaboð, til að styrkja heimilismiðaða tilbeiðslu meðlima.

Hirðisþjónusta. Þjónandi bræður og systur munu uppgötva að hægt er að veita sínum tilnefndu einstaklingum og fjölskyldum nauðsynlegan stuðning á marga mismunandi vegu. Hvort hirðisþjónusta er innt af hendi persónulega eða með fjarbúnaði fer eftir aðstæðum hvers staðar og þörfum, löngunum og heilsu þeirra sem þátt taka. Þjónustuviðtöl geta farið fram með fjarbúnaði, sé þörf á því. Í sérstökum tilvikum getur þjónusta í eigin persónu takmarkast við alvarlegar og brýnar líkamlegar, andlegar eða tilfinningalegar þarfir. Þjónandi bræður og systur ættu að sýna elsku og stuðning á tilhlýðilegan hátt.