25. febrúar, Reykjavík, Ísland

Merkum áfanga náð fyrir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á Íslandi með stofnun umdæmis.

Umdæmi var stofnað á sérstakri ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík, Íslandi.

Ísland náði merkum áfanga þann 24. febrúar 2024. Á sérstakri leiðtogaráðstefnu í Reykjavík, tilkynnti öldungur Erik Bernskov, svæðishafi Sjötíu á Norður-Evrópusvæðinu, ásamt Leif G. Mattsson forseta trúboðsins í Danmörku, formlega um endurstofnun umdæmis Reykjavíkur-Íslands.

Vöxtur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á Íslandi hefur verið stöðugur frá árinu 1945. Í dag eru meðlimir rétt tæplega 400 talsins á Íslandi og greinar eru fjórar á þremur stöðum í landinu. Auk Akureyrargreinar, Selfossgreinar og Reykjavíkurgreinar 1, var Reykjavíkurgrein 2 stofnuð þann 22. janúar 2023, með spænskumælandi söfnuði sem vex hratt, til að mæta þörfum nýs aðkomufólks til Íslands frá Rómönsku Ameríku, einkum frá Venesúela. Í þessum fjölbreytta söfnuði eru kirkjumeðlimir frá mörgum heimssvæðum sem myndar mjög samheldið samfélag. Þeir skilja að „líkaminn hefur einnig þörf fyrir hvern lim, svo að allir geti uppbyggst saman….“ (Kenning og sáttmálar 84:110).

Á leiðtogafundinum á laugardeginum bar öldungur Bernskov persónulegt vitni um að himneskur faðir hefði staðfest fyrir sér að vilji hans væri að umdæmi Reykjavíkur-Íslands yrði endurstofnað. Tilvísun í (Jóhannes 15:5) „[Höfum hugfast … að án hans getum við ekkert gert.]“

Leif G. Mattsson forseti sagði: „Ég veit að þetta er verk Drottins. Mér finnst þetta vera rétti tíminn fyrir Ísland. Drottinn mun ljúka upp fyrir okkur. Hann mun gera hið ómögulega mögulegt.“  

Ann-Mari, ráðgjafi svæðissamtaka, kom í heimsókn frá Danmörku og ræddi um prestdæmiskraft sem „streymir gegnum alla meðlimina er þeir halda sáttmála sína og reyna að halda boðorðin. Við þurfum hann í eigin lífi, við þurfum hann í kirkjustarfi okkar.  Því okkur kann stundum að finnst við ekki geta gert þetta ein.“  

Hún ræddi um uppbyggingu og kallanir í kirkjunni og um „ástríðu sína fyrir ráðum.“  „Með samráði tökum við betri ákvarðanir og náum meiri árangri í þjónustu Drottins þegar við metum framlag hvers annars og vinnum saman.“ 

Á laugardagskvöldið komu meðlimir greinanna fjögurra saman á dásamlegum menningarviðburði, fylltum tónlist, dansi og veitingum til að fagna fjölbreytileika meðlimanna og einingu þeirra í Kristi. 

Ráðstefnan að morgni sunnudags hófst með því að Mattsson forseti kynnti hina nýju umdæmisleiðtoga. Innfæddur Íslendingur, Guðmundur Sigurðsson, var kallaður sem umdæmisforseti og eiginkona hans er Valgerður Knútsdóttir. Ráðgjafi hans er eldri trúboði, Tony Floyd Tibbitts og eiginkona hans er Cynthia frá Midway, Utah.  Systir Bettína Gudnason var kölluð sem umdæmisleiðtogi kvenna fyrir Líknarfélagið, Stúlknafélagið og Barnafélagið. 

Mattson forseti talaði til hinna heilögu og sagði meðlimunum að annar ráðgjafi og leiðtogar aðildarfélaga yrðu kallaðir eftir því sem Ísland yxi að vexti. 

Hinum nýju umdæmisleiðtogum og eiginkonum þeirra var boðið að gefa vitnisburði sína. 

Guðmundur Sigurðsson forseti sagði við söfnuðinn: „Ég er afar þakklátur fyrir að vera kallaður til að þjóna Drottni í þessari mikilvægu og ábyrgðamiklu köllun. Ég hef alltaf átt mjög sterkan vitnisburð. Ég bið þess að ég verði blessaður til að styðja greinarforsetana og meðlimina.“ 

Systir Valgerður Knútsdóttir hvatti meðlimina: „Haldið fast í vitnisburði ykkar og hafið hugfast að Guð er við stjórnvölinn.  Enginn getur tekið vitnisburð ykkar í burtu. Það eruð aðeins þið sem getið sagt skilið við hann.“

Tibbitts forseti ræddi um trúboð sitt í Svíþjóð og norræna áa sína og tjáði mikinn kærleika sinn til íbúa Norðurlandanna.  Systir Tibbitts tjáði elsku sína til frelsarans og trúboðs síns á Íslandi.

Systir Mattson sagði frá persónulegum dæmum um uppvaxtarár sín og hvernig það hefði breytti fjölskyldu hennar að vera meðlimir kirkjunnar.  Hún sagði frá mörgum kraftaverkum og blessunum í Danmerkurtrúboðinu. Hún lýsti ánægju sinni með að hafa nýja umdæmið og vonaði að það styrkti meðlimina.

Mattson forseti sagði frá því þegar hann var ungur biskup í Svíþjóð.  Hann hefði þar kynnst Guðmundi Sigurðssyni sem ungum manni að kynna sér kirkjuna.  „Hann var afar vingjarnlegur og opinn.  Við töluðum um fagnaðarerindið.“ Guðmundur sneri aftur til Íslands.  Mörgum árum síðar, komst Mattson forseti að því að Guðmundur og Valgerður, eiginkona hans,hefðu verið skírð sama dag, í maí 1982.  Þau ólu upp dásamlega fjölskyldu! „Ég veit að Guðmundur forseti og umdæmisforsætisráðið munu gera nákvæmlega það sem Drottinn vill að þeir geri.“

Öldungur Erik Bernskov lauk samkomunni með því að hvetja til samheldni meðal meðlimanna og vitnaði í Jóhannes 17:20–22.

„Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra,

að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.

Og ég hef gefið þeim þá dýrð sem þú gafst mér svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt.“

Samkoman fór fram á þremur tungumálum, þar sem meðlimir og trúboðar þýddu á milli íslensku, ensku og spænsku. Sálmarnir voru sungnir samhliða á öllum tungumálunum, af gleði og í anda lofgjörðar. Meðlimir tjáðu þakklæti fyrir andann sem þeir fundu og boðskapinn sem þeir hlýddu á frá öllum sem tóku þátt.

Í viðtali við Bárð Árna Gunnarsson og eiginkonu hans, Perlyndu, ræddi bróðir Bárður um stuðning sinn við nýjan umdæmisforseta: „Guðmundur Sigurðsson forseti er rétti maðurinn á réttum stað. Hann mun geta sameinað okkur.“  Þau sögðu frá trúskiptum sínum og hvernig lífið leiddi þau saman til að finna hvort annað, hann frá Íslandi og hún frá Filippseyjum. Fjölskylda þeirra er blönduð og býr hamingjusöm saman á Íslandi.

Áður en tilkynnt var að Guðmundur Sigurðsson yrði kallaður sem umdæmisforseti, var viðtal tekið við hann og eiginkonu hans, Valgerði.  Systir Valgerður segir að þau hafi verið fyrstu hjónin á Íslandi til að skírast sama dag. Hún rifjaði upp hvernig boðskapurinn sem trúboðarnir færðu henni hefði „snert hjarta sitt.“  Hún sagði: „Trúboðarnir voru að segja mér það sem mér fannst ég alltaf hafa vitað. Þannig að ég hafði vitnisburð án þess að vita hvað vitnisburður var.“ 

Guðmundur Sigurðsson sagði frá því er hann hitti trúboðana. „Ég var óviss og var með fiðring í maganum. Ég vissi að þeir myndu skora á okkur að láta skírast. Ég var mjög taugaóstyrkur. Trúboðarnir báðu mig að flytja lokabænina, svo ég bað til föðurins: „Ef þetta er vilji þinn, viltu þá taka óvissuna í burtu.“ Á sama augnabliki hurfu fiðringurinn og óvissan. Og þegar ég lauk bæninni stóð ég upp og sagði: „Ég er tilbúinn til að láta skírast.“  Bróðir Guðmundur Sigurðsson hafði verið meðlimur kirkjunnar í ellefu mánuði þegar hann var kallaður sem greinarforseti árið 1982. Hann var fyrsti umdæmisforsetinn árið 1986. 

Saga Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á Íslandi er merkileg saga trúar, brottflutnings og þrautseigju.

Heimsóknir heimsleiðtoga kirkjunnar til „Lands elda og ísa“ – eins og Ísland hefur verið nefnt – eru ekki tíðar og heimsókn öldungs Stevenson vakti tilhlökkun meðal meðlima kirkjunnar þar í landi, sem hafa fjölbreyttan bakgrunn. 

Fyrstu trúboðarnir til að boða fagnaðarerindi Jesú Krists á Íslandi voru Guðmundar Guðmundsson og Þórarinn Hafliðason. Þessir trúboðar voru Íslendingar sem höfðu nýlega tekið trúna í Danmörku og farið aftur til heimalands síns 1851. Eftir andlát Þórarins, hélt Guðmundur áfram að prédika í næstum tvö ár. Árið 1853, þrátt fyrir viðvarandi andstöðu, skipulagði hann grein í Vestmannaeyjum.

Þótt Íslendingar hafi haldið áfram að ganga í kirkjuna, fóru sumir frá Íslandi til Norður-Ameríku án þess að greinar yrðu stofnaðar. Nýir trúskiptingar leiddu oft kirkjuna með aðstoð íslenskra meðlima, sem sneru aftur sem trúboðar.

Trúboðsstarfi á Íslandi var hætt í upphafi fyrri heimsstyrjaldar, en í lok síðari heimsstyrjaldar hafði kirkjan hægt og bítandi endurbyggt nærveru á Íslandi. Bandarískir hermenn sem staðsettir voru í nálægð Keflavíkur mynduðu fámennan söfnuð árið 1945 og tóku að boða fagnaðarerindið.

Trúboðar frá Kaupmannahöfn í Danmörku voru sendir aftur til Íslands árið 1975 og grein var skipulögð í Reykjavík árið eftir. Árið 1977 vígði öldungur Joseph B. Wirthlin Ísland til boðunar fagnaðarerindisins. Öldungur David B. Haight heimsótti Ísland í september 1983 og vígði byggingu sem hafði verið breytt til kirkjunota. Sex vikum síðar var kirkjan formlega viðurkennd á Íslandi þegar öldungur Robert D. Hales heimsótti Kirkju- og dómsmálaráðuneytið. 

Mormónsbók var gefin út á íslensku árið 1981. Öldungur Russell M Nelson heimsótti Ísland í október 1989 og veitti þá postullegu blessun að landið myndi verða „heiminum sannleiks- og leiðarljós.“ 

Fyrsta nýbyggða samkomuhúsið var vígt árið 2000. Gordon B Hinckley forseti var fyrsti kirkjuforsetinn til að heimsækja Ísland, árið 2002.

Öldungur Gary E Stevenson í Tólfpostulasveitinni og eiginkona hans, systir Lesa Stevenson, komu til Reykjavíkur, Íslandi, í ferð sem var hluti af sögulegri heimsókn á Norður-Evrópusvæði kirkjunnar í september 2023 og þar voru þau á samkomu með trúboðum og staðarmeðlimum. Þetta var fyrsti viðkomustaðurinn í þriggja landa ferð sem lá einnig til Edinborgar í Skotlandi og Northampton í Englandi.  

Fyrir sögutímatal Íslands, smellið á þennan hlekk.