Minning um líf Russells M. Nelson forseta

Fjölskylda og leiðtogar minnast hans sem „ástkærs læknis“

Minning um líf Russells M. Nelson forseta

Okkur er sárt að tilkynna að Russell M. Nelson forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, andaðist friðsællega rétt rúmlega 22:00 að MDT tíma í dag á heimili sínu í Salt Lake City. Hann var 101 árs – elsti forsetinn í sögu kirkjunnar.

Nelson forseti var kallaður sem postuli 7. apríl 1984. Hann varð aðalleiðtogi kirkjunnar í janúar 2018. Spámannstíðar hans verður eilíflega minnst fyrir heimsþjónustu (hann hefur heimsótt 32 lönd og sjálfstjórnarsvæði Bandaríkjanna), aukna byggingu mustera (hann tilkynnti um 200 ný musteri) og miklar breytingar. Á aprílráðstefnu árið 2018, þar sem Nelson forseti var studdur sem forseti kirkjunnar, hóf hann að kynna margar breytingar til hjálpar hinum heilögu við að þjóna meira eins og Jesús Kristur gerði og lagði áherslu á að frelsari heimsins væri þungamiðja alls þess sem kirkjan gerði. Í síðari hlutum þessarar minningargreinar er ítarleg frásögn af ferðum hans sem forseta og þeim mörgu breytingum sem hann innleiddi.

Öldungur Russell M. Nelson heldur á lítilli stúlku með eiginkonu sinni, Wendy, eftir ráðstefnufund í Guam í nóvember 2015.
Öldungur Russell M. Nelson heldur á lítilli stúlku með eiginkonu sinni, Wendy, eftir ráðstefnufund í Guam í nóvember 2015.

Áður en Nelson forseti helgaði sig fullri þjónustu í kirkjunni, var hann hjartaskurðlæknir, sem naut vegsemdar og virðingar um allan heim. Hann framkvæmdi fyrstu opnu hjartaaðgerðina í Utah árið 1955. Hann starfað sem forseti Society for Vascular Surgery, sem yfirmaður American Board of Thoracic Surgery, nefndarformaður Council on Cardiovascular Surgery fyrir American Heart Association og forseti Utah State Medical Association. Hann skrifaði fjölda kafla í læknabækur og önnur útgefin rit. Hann heimsótti og hélt fyrirlestra hjá mörgum samtökum víða í Bandaríkjunum og meðal annarra þjóða. Hann var einnig málfær á 11 tungumálum.

„Hann er einfaldlega mildasta og ljúfasta manneskja í samstarfi sem hægt er að hugsa sér.“ – Dallin H. Oaks forseti

„Við öll, sem höfum starfað með Russell M. Nelson, og þau fjölmörgu sem hann hefur kennt og átt samskipti við, höfum undrast hve hógvær hann er á miðað við allt sem hann hefur afrekað,“ sagði Dallin H. Oaks forseti, sem var kallaður til að þjóna í Tólfpostulasveitinni á sama degi og Nelson forseti árið 1984 og þjónaði sem fyrsti ráðgjafi Nelsons forseta í Æðsta forsætisráðinu. Og [við] höfum dásamað mildi hans. Hann er einfaldlega mildasta og ljúfasta manneskja í samstarfi sem hægt er að hugsa sér. Og hans verður alltaf minnst á þann hátt.“

Nelson forseti lætur eftir sig eiginkonu sína, Wendy, átta af 10 börnum sínum, 57 barnabörn og meira en 167 barnabarnabörn.

Líkt og átti við um postulana á tímum Nýja testamentisins, þá eru postular síðari daga heilagra kallaðir til að vera sérstök vitni Jesú Krists. Nelson forseti var einn af 15 mönnum sem hafa umsjón með vexti og þróun hinnar alþjóðlegu kirkju, sem telur nú meira en 17 milljónir meðlima.

Þess er ekki vænst að Tólfpostulasveitin tilkynni um eftirmann hans fyrr en að lokinni útför hans (upplýsingar fyrirhugaðar).

„Ástkær læknir“ bæði læknisfræði og trúar

Russell M. Nelson útskýrir skurðaðgerð fyrir hjúkrunarfræðingi.
Russell M. Nelson útskýrir skurðaðgerð fyrir hjúkrunarfræðingi.

Menn vænta þess varla að postuli sé heimsþekktur hjartaskurðlæknir, eins og raunin var með Nelson forseta, áður en hann var kallaður til ævilangrar þjónustu í kirkjunni. En ekki er óalgengt að hjörtu séu læknuð bæði líkamlega og andlega meðal lærisveina Jesú Krists á öllum aldri. Lúkas ritari Nýja testamentisins, var nokkuð virtur læknir – Páll postuli, sem hann ferðaðist með sem trúboði, kallaði hann „lækninn elskaða“ (Kólossubréfið 4:14).

Sem læknir, var Nelson forseti hugsanlega þekktastur fyrir þátt sinn í þróun gervihjarta- og lungnavélar, sem væri nægilega lítil að stærð til að virka á skurðstofu. Það var mögulegt með ómetanlegum stuðningi og hvatningu frá fyrri eiginkonu hans, Dantzel, og var það afrek sem jók þakklæti hans fyrir gjöf lífsins. „Ég held að skurðlæknir sé í einstakri aðstöðu til að skilja eitt mesta sköpunarverk Guðs – mannslíkamann,“ sagði hann. „Sérhver hluti líkamans hvetur mig til trúar.“

Lotning Nelsons forseta fyrir lífinu, innrætti honum andlega nálgun á læknisfræði. Sú ritningargrein sem hann hafði að leiðarljósi bæði innan og utan skurðstofunnar er í Kenningu og sáttmálum: „Og þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin“ (Kenning og sáttmálar 130:21).

„Með öðrum orðum,“ sagði Nelson forseti, „þið óskið ekki eftir blessun; þið vinnið að blessun og gerið hana mögulega. Ég kenndi oft teyminu mínu sem ég vann með: Þessi sjúklingur hefur verið að biðja fyrir eigin velferð og hann á fjölskyldu sem biður fyrir velferð hans. Allar þessar bænir munu ekkert gott gera, ef þið gerið ein mistök, svo þið verðið að vinna starfið ykkar fullkomlega, til þess að þessi sjúklingur eigi möguleika á að fá þá blessun sem hann leitar eftir.“

Tími hans í læknanámi náði yfir fyrstu 12 ár hjónabands hans. Útskrift hans frá læknadeild háskólans í Utah, 22 ára að aldri, var fylgt eftir með starfsnámi og nokkurra ára sérfræðinámi í viðbót í Minnesota og Massachusetts; tveggja ára herskyldu í Washington, D.C. og erlendis; og doktorsgráðu frá University of Minnesota. Mikill áhugi hans á rannsóknum leiddi að lokum til brautryðjendastarfs hans við hjarta-lungnavélina. Síðar starfaði hann sem prófessor í skurðlæknisrannsóknum og var yfirmaður sérnámsdeildar brjóstholsskurðlækninga við Utah-háskóla og formaður brjóstholsskurðlækningadeildarinnar við LDS sjúkrahúsið í Salt Lake City.

Russell M. Nelson forseti árið 1982. Hann var fær hjartaskurðlæknir í mörg ár, áður en hann var kallaður sem postuli í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Russell M. Nelson forseti árið 1982. Hann var fær hjartaskurðlæknir í mörg ár, áður en hann var kallaður sem postuli í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Árið 1955 framkvæmdi Nelson forseti fyrstu opnu hjartaaðgerðina í Utah og hann framkvæmdi yfir 7.000 aðgerðir á starfsferli sínum. Ein athyglisverðasta aðgerð hans, átti sér stað árið 1972, þegar áhugi Nelsons forseta á læknisfræði og trú kom saman, er hann var beðinn að framkvæma áhættusama skurðaðgerð á Spencer W. Kimball, sem á þeim tíma var starfsreyndur postuli kirkjunnar. Nelson forseti þjónaði sem aðalforseti sunnudagaskóla kirkjunnar, samhliða starfi sínu sem hjartaskurðlæknir. Honum var veitt prestdæmisblessun fyrir aðgerðina, sem hann trúði að hafi haft áhrif á niðurstöðuna.

„Þetta var alveg eins og tónlistarmaður sem spilaði píanókonsert, án þess að gera mistök eða leikmaður í hafnabolta sem kastaði villulausum bolta níu lotur í röð,“ sagði hann. „Þessi langa og flókna aðgerð var gerð án nokkurra ágalla. Í lok aðgerðarinnar, þegar hjarta hans tók kipp af krafti, vissi ég að hann myndi lifa. Þegar við vorum að loka brjóstholi hans, fékk ég á tilfinninguna að þessi maður myndi lifa það að verða forseti kirkjunnar.“

Spencer W. Kimball varð vissulega forseti kirkjunnar og lifði 13 ár í viðbót.

„[Nelson forseti] hafði mikla innsýn, vegna læknaþjálfunar sinnar, í þau heilsufarsvandamál sem upp koma hjá aðalvaldhöfum,“ sagði Oaks forseti. „Og hann gaf okkur ótrúlega innsýn í hvað slík greining þýddi og hverjar horfurnar væru og hagnýtar afleiðingar þessarar tilteknu greiningar.“

Lífið með Dantzel

Nelson forseti reyndi ætíð að gera sitt besta í hverju því verkefni sem beið hans. Sem barn, var það sviðslistin, ekki lækningalistin, sem fangaði athygli hans fyrst. Hann söng tenór í verðlaunakvartett og lék aðalhlutverkið í söngleik sem nýnemi í Utah-háskóla. Reyndar leiddi ást hans á tónlist hann að lokum til ástarinnar í lífi sínu.

Nelson forseti og fyrri eiginkona hans, Dantzel, árið 1945.
Nelson forseti og fyrri eiginkona hans, Dantzel, árið 1945.

Hann man eftir því að hafa mætt á æfingu fyrir væntanlegt leikrit og heyrt í sópransöngkonu á sviðinu. „Hún var stórkostleg,“ rifjaði Nelson forseti upp. „Rödd hennar var ótrúleg og ég spurði: ‚Hver er þetta?‘ Tónlistarstjórinn svaraði: ‚Þetta er Dantzel White. Hún er sú sem þú munt syngja með í þessari sýningu.‘“ Nelson forseti sagði: „Frá þessum tímapunkti fórum við ekki á stefnumót með neinum öðrum.“

Tónlist varð þungamiðja lífs þeirra saman. Nelson-hjónin voru aldrei án tónlistar á heimili sínu, eftir að hafa keypt notað píanó fyrir minna en 100 dollara snemma í hjónabandi sínu. Á starfstíma sínum sem læknir, vaknaði Nelson forseti árla á morgnana til að spila á píanó og læra í ritningunum. Hann sagði að sameining þessarra hluta, hefði fært andleg áhrif inn á heimili þeirra.

Líkt og mörg ung hjón, þá unnu Nelson-hjónin saman að því að ná endum saman og það reyndist ekki alltaf auðvelt. Nelson forseti minntist þess að hafa gengið um götur Boston kvöld eitt með eiginkonu sinni, en þau áttu fjögur börn á þeim tíma, er hún þrýsti nefinu að gluggarúðu húsgagnaverslunar og spurði: „Elskan, heldurðu að við munum einhvern tíma hafa efni á lampa?“ Það var á þessum tímum, sagði Nelson forseti, sem þau mundu eftir ritningarversinu í Matteus 6:33, sem segir: „Leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis. Allt þetta mun veitast yður að auki.“

„Mér fannst þau vera mjög góðir félagar,“ sagði Gloria Nelson Irion, þriðja af tíu börnum Nelsons, sem voru níu stúlkur og einn drengur. „Þau hugsuðu vel um hvort annað og voru mjög trygg í ást sinni til hvors annars. Þegar pabbi kom heim úr vinnunni, eða kom inn á heimilið, var það allra fyrsta sem hann gerði að leita uppi móður mína og heilsa henni með faðmlagi og kossi. … Hann sýndi okkur að það besta sem maður getur gert fyrir börnin sín er að elska móður þeirra.“

Nelson fjölskyldan árið 1982.
Nelson fjölskyldan árið 1982.

Dantzel var hjartað á heimili Nelson-fjölskyldunnar. Nelson forseti sagði: „Hún hefur verið mér félagsskapur, gefið mér tíu falleg börn og alla þessa dásamlegu óáþreifanlegu hluti sem eiginkona gefur eiginmanni, til að hvetja hann að keppa að óeigingirni og fyllra lífi.“

Frá elstu til yngstu eru börn Nelsons (með nöfn maka innan sviga) Marsha N. Workman (Richard Workman), Wendy N. Maxfield (lést 2019, gift Norman A. Maxfield), Gloria N. Irion (Richard A. Irion), Brenda N. Miles (Richard L. Miles), Sylvia N. Webster (David R. Webster), Emily N. Wittwer (d. 1995, gift Bradley E. Wittwer), Laurie N. Marsh (Richard M. Marsh), Rosalie N. Ringwood (Michael T. Ringwood), Marjorie N. Lowder (Bradley J. Lowder) og Russell M. Nelson yngri. (Britney).

Hvað hann snerti, varði Nelson forseti tíma með börnum sínum mitt í annasamri lækna- og kirkjudagskrá. Hann ferðaðist mikið og tók oft einn fjölskyldumeðlim með sér í einu. Hann leit á þennan tíma með börnum sínum sem viturlegan ávinning. „Þessar ferðir gáfu mér tækifæri til að hlusta á vandamál þeirra og metnað og fyrir okkur einfaldlega að tala saman og deila hugmyndum og reynslu hvert með öðru,“ sagði hann. Athafnir, eins og ritningarlestur, fjölskyldubænir tvisvar á dag og vikuleg fjölskyldukvöld, hjálpuðu líka við að viðhalda nánum böndum fjölskyldunnar.

„Þegar fjölskyldan stækkaði, lagði hann áherslu á að vera viðstaddur alla mikilvæga lífsviðburði. Hann kom í blessun hvers barns, skírn, prestdæmisvígslu, trúboðskveðjustund [og] brúðkaup,“ sagði Irion.

Stofnað til hjónabands með Wendy L. Watson

Nelson forseti trúði því staðfastlega að leyndardómurinn að baki hamingjuríks lífs væru ekki eigur manns, heldur sú þekking sem maður byggi yfir frá Guði. Fólk „verður að vita að Guð lifir. Það verður að vita að hann hafi áætlun fyrir það. Ef það fylgir þeirri áætlun, mun það finna gleði, jafnvel þótt erfiðleikum lífsins fylgi sorg, áskoranir, stundum sársauki og harmur,“ sagði hann. „Ef það getur átt þessa trú á hann og tengst honum, mun það hafa styrk til að standast raunir lífsins. Í ferlinu mun það finna mikla gleði.“

Það reyndi á andlegt atgerfi hans, þegar hans ástkæra Dantzel lést óvænt í febrúar 2005. Ef eitthvað var, þá styrkti dauði hennar trú hans og skuldbindingu við fjölskylduna.

Á aðalráðstefnu í apríl 2006 talaði Nelson forseti um þörfina á að styrkja hjónabandið.

„Hjónaband veitir meiri möguleika á hamingju en nokkur önnur mannleg sambönd,“ sagði hann. „Samt ná sum hjón ekki fullum möguleikum sínum. Þau láta rómantíkina ryðga, taka hvort öðru sem sjálfsögðum hlut, leyfa að önnur áhugamál eða vanræksluský skyggi á sýnina um hvað hjónaband þeirra gæti í raun verið. Hjónabönd yrðu hamingjusamari ef þau yrðu betur ræktuð.“

Stuttu eftir ráðstefnuna, giftist Nelson forseti Wendy L. Watson. Fyrir giftinguna, hafði systir Nelson, sem fæddist í Kanada, verið prófessor í hjónabands- og fjölskyldumeðferð í 25 ár – síðustu 13 árin við Brigham Young háskólann.

Russell M. Nelson forseti og eiginkona hans, Wendy, í Singapúr, miðvikudaginn 20. nóvember 2019.
Russell M. Nelson forseti og eiginkona hans, Wendy, í Singapúr, miðvikudaginn 20. nóvember 2019.

Systir Nelson hefur rætt um þá andlegu baráttu sem hún upplifði við föstu og bæn, áður en hún ákvað að stofna til sambands við öldung Nelson, sem þá var. Hún segir að það hafi meðal annars reynst gríðarleg áskorun að verða hluti af stórri fjölskyldu og rífa sig upp með rótum frá ferlinum.

„Við hugsum: ‚Ó, það er vilji Drottins. Það þýðir að allt verður bara auðvelt, dásamlegt og stórkostlegt.‘ En þess í stað var þetta erfitt,“ sagði systir Nelson í þjónustuferð til Kyrrahafseyja með spámanninum í maí 2019. „Við höfðum mismunandi væntingar. Hann var enn að syrgja Dantzel, án nokkurs vafa. … Þetta var mikil breyting.“

„Við elskum hana mikið,“ sagði Irion. „Hún hefur verið föður mínum og fjölskyldu okkar mikil blessun fyrir að annast hann.“

„Börnin hans voru stórkostleg, verð ég að segja,“ bætti systir Nelson við. „Ég vildi verða vinur þeirra og þau voru svo sannarlega mínir vinir. Þau hefðu ekki getað tekið betur á móti mér. Barnabörnin eru dýrðleg. Og núna eru barnabarnabörnin alveg ótrúleg.“

Í þjónustuheimsókn í Ástralíu árið 2019, lýsti Nelson forseti Wendy á þennan hátt: „Hún er læknir. Hún er öldrunarfræðingur. Hún er hjónabands- og fjölskylduráðgjafi. Og hún er mjög skemmtileg stelpa að vera með.“

Fjöltungu spámaður fyrir þjóðirnar

Í þjónustuheimsóknum til nokkurra landa Rómönsku Ameríku, haustið 2019, flutti spámaðurinn verulegan hluta prédikana sinna á spænsku, Síðari daga heilagra heimamönnum til mikillar ánægju. Í Perú flutti hann til dæmis inngangsorðin á ensku. Hann breytti síðan um og sagði: „Með ykkar leyfi, vil ég tala til ykkar á spænsku.“ Lófatak fyllti allan leikvanginn.

Russell M. Nelson forseti, eiginkona hans, Wendy, og öldungur Gary E. Stevenson í Tólfpostulasveitinni, heilsa Síðari daga heilögum í Perú á kvöldsamkomu 20. október 2018.
Russell M. Nelson forseti, eiginkona hans, Wendy, og öldungur Gary E. Stevenson í Tólfpostulasveitinni, heilsa Síðari daga heilögum í Perú á kvöldsamkomu 20. október 2018.

„Ég var eitt sinn með honum og hann skipti yfir í rússnesku er hann átti samskipti við rússneskumælandi manneskju,“ sagði Oaks forseti. „Ég veit að hann lærði nógu mikla kínversku til að taka þátt í opinni hjartaaðgerð í Kína, gefandi leiðbeiningar á kínversku, á skurðstofunni.“

Dóttir hans sagði föður sinn í raun hafa verið vel málfæran á 11 tungumálum.

„Ég held að hann hafi elskað að hitta fólk alls staðar að úr heiminum,“ sagði Irion. „Hann unni því að sjá það meðtaka fagnaðarerindið, verða heilagt og sjá breytinguna á því frá sorg til vonar og frá myrkri til ljóss.“

Hann átti einnig stóran þátt í að fá kirkjuna viðurkennda í mörgum kommúnistaríkjum. „Hann var sjónarvottur að kraftaverkunum sem gerðust þar,“ sagði dóttir hans. „Hann gerði sitt besta og Drottinn gerði svo það sem upp á vantaði. Dyr eftir dyr opnuðust, sem hann hélt aldrei að myndi gerast.

Eftir að Nelson forseti varð leiðtogi Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í janúar 2018, heimsótti hann margoft hina Síðari daga heilögu og stjórnvöld og trúarleiðtoga í nær öllum heimsálfum. Hann ferðaðist til 32 landa og bandarískra sjálfstjórnarsvæða.

Hann varði líka talsverðum tíma í að byggja brýr með leiðtogum annarra trúarbragða, hópa og þjóða. Mest áberandi var heimsókn hans til Frans páfa í Vatíkaninu í mars 2019 og samband hans við National Association for the Advancement of Colored People (NAACP), borgaraleg réttindasamtök í Bandaríkjunum.

Frans páfi tekur á móti Russell M. Nelson forseta í Vatíkaninu, laugardaginn 9. mars 2019. (©ljósmynd birt með leyfi Vatíkansins)
Frans páfi tekur á móti Russell M. Nelson forseta í Vatíkaninu, laugardaginn 9. mars 2019. (©ljósmynd birt með leyfi Vatíkansins)

„Við áttum afar hjartanlega og ógleymanlega reynslu,“ sagði Nelson forseti um heimsókn sína með páfanum. „Hans heilagleiki var afar auðmjúkur, hlýr og vingjarnlegur. Hve ljúfur og yndislegur maður hann er og hve lánsamir kaþólikkar eru að eiga slíkan auðmjúkan, umhyggjusaman, ástríkan og hæfan leiðtoga.“

Í maí 2018 gekk spámaðurinn til liðs við leiðtoga NAACP til að kalla eftir aukinni borgaralegri og kynþáttatengdri einingu. Síðan buðu leiðtogar NAACP Nelson forseta að tala á árlegri ráðstefnu samtakanna í Detroit í júlí 2019. „Við þurfum ekki að vera eins eða líta eins út til að sýna hvert öðru kærleika. Við þurfum jafnvel ekki að vera sammála til að elska hvert annað,“ sagði Nelson forseti. Hann hitti aftur leiðtoga NAACP í júní 2021 til að kynna mennta- og mannúðarverkefni í tengslum við áframhaldandi samstarf þeirra.

Spámaðurinn heimsótti leiðtoga margra þjóða á ferðalögum sínum um ýmis lönd. Þar á meðal voru embættismenn frá Kambódíu, Kólumbíu, Indónesíu, Nýja-Sjálandi, Perú, Samóaeyjum, Tonga, Víetnam og fleiri löndum. Hann bauð líka marga leiðtoga velkomna á Musteristorgið, þar á meðal víetnamska sendinefnd, sendiherra Kúbu og leiðtoga Múslimska heimsbandalagsins.

Spámaðurinn hvatti til þessarar viðleitni til að byggja brýr, með því að hvetja Síðari daga heilaga til að vera friðflytjendur sem „byggja upp, lyfta, uppörva, sannfæra og innblása – hversu erfiðar sem aðstæðurnar eru.“

„Bræður og systur, við getum bókstaflega breytt heiminum – einni manneskju og einum samskiptum í senn. Hvernig? Með því að sýna hvernig leysa má einlægan skoðanaágreining með gagnkvæmri virðingu og háleitri umræðu,“ sagði Nelson forseti. „Ef ykkur er alvara með að hjálpa við að safna saman Ísrael og þróa sambönd sem vara gegnum eilífðirnar, þá er núna tíminn til að losa sig við biturleika. Núna er tíminn til að hætta að standa fast á því að það sé annaðhvort ykkar leið eða engin leið. Núna er tíminn til hætta að gera það sem fær aðra til að tippla á tánum af ótta við að raska ró ykkar. Núna er tíminn til að grafa stríðsvopn ykkar. Ef ykkar munnlega vopnabúr er fullt af móðgunum og ásökunum, þá er núna tíminn til að segja skilið við það. Þið munuð rísa sem andlega sterkur karl eða kona Krists.“

Þegar þá öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, ferðaðist með Nelson forseta árið 2018 (ferð sem fól meðal annars í sér viðkomu í friðarborginni Jerúsalem), veitti hann athygli heimssýn Nelsons forseta.

„Hann er spámaður heimsins og hefur þá yfirsýn,“ sagði öldungur Holland. „Hann hefur þá spámannlegu sjáandagjöf. Við styðjum hann sem sjáanda og opinberara og hann horfir yfir allan heiminn.“

Nelson forseti heilsar hinum háverðuga Dr. Amos C. Brown, fyrir blaðamannafund með leiðtogum NAACP í stjórnsýslubyggingu kirkjunnar á Musteristorgi í Salt Lake City, 14. júní 2021.
Nelson forseti heilsar hinum háverðuga Dr. Amos C. Brown, fyrir blaðamannafund með leiðtogum NAACP í stjórnsýslubyggingu kirkjunnar á Musteristorgi í Salt Lake City, 14. júní 2021.

Maður sem breytti kirkjunni

Nelson forseti kynnti margar mikilvægar breytingar til sögunnar. Eins og áður var nefnt, þá var hver þeirra hönnuð til að leggja áherslu á að hafa Jesú Krist að miðpunkti.

„Nelson forseti, ég veit ekki hve mikið „streymi“ við fáum höndlað þessa helgi. Sum okkar eru hjartaveik. Sú hugsun læðist þó að mér að þú getir lagað það líka. Hvílíkur spámaður!“ – öldungur Holland, apríl 2018

Undir hans stjórn breytti spámaðurinn því hvernig hinir heilögu um allan heim þjóna hver öðrum. Hann lagði síendurtekið áherslu á mikilvægi hins rétta nafns kirkjunnar. Hann breytti áherslum trúarfræðslu, svo hún hefði heimilið að miðpunkti og nyti stuðnings kirkjunnar. Hann breytti reglum sem leyfða börnum LGBT foreldra að láta skírast. Hann breytti viðtalsspurningum musterismeðmæla í kirkjunni, til að hjálpa meðlimum að skilja betur tilgang musteristilbeiðslu. Hann kynnti nýja heimslæga ungmennaáætlun fyrir börn og unglinga kirkjunnar. Hann tilkynnti nýja vitnareglu fyrir skírnir lifenda, staðgenglaskírnir og innsiglanir lifenda og með staðgenglum. Hann innleiddi alþjóðlega reglu fyrir borgaralega gift hjón sem geta gift sig þegar í stað í einu af musterum kirkjunnar. Hann endurskipulagði og sameinaði prestdæmissveitir og félög fyrir fullorðna og börn. Hann kynnti ýmsar breytingar á trúboðsreglum og verklagi. Hann breytti tákni kirkjunnar svo það hefði mynd af hinum upprisna, lifandi Drottni Jesú Kristi. Og hann las nýja yfirlýsingu til heimsins um endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists.

„Svo ég umorði það sem Ralph Waldo Emerson sagði: Minnisstæðustu stundir lífsins eru þegar við upplifum streymi opinberana,“ sagði þáverandi öldungur Jeffrey R. Holland, undir lok aðalráðstefnunnar í apríl 2018, þar sem spámaðurinn kynnti nokkrar athyglisverðar breytingar. „Nelson forseti, ég veit ekki hve mikið „streymi“ við fáum höndlað þessa helgi. Sum okkar eru hjartaveik. Sú hugsun læðist þó að mér að þú getir lagað það líka. Hvílíkur spámaður!“

Allar þessar breytingar voru gerðar þegar Nelson forseti hvatti Síðari daga heilaga til að meðtaka persónulega leiðsögn frá Guði, á sama hátt og hann meðtók opinberun fyrir kirkjuna. Hann og aðrir leiðtogar hafa ítrekað sagt að þessar breytingar séu hluti af viðvarandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists.

Meistarakennari sem snerti hjörtu

Oaks forseti vísaði til Nelsons forseta sem meistarakennara. „Ég hef heyrt skurðlækna sem hann þjálfaði geta þess hve árangursríkur hann var í því að kenna þeim að verða skurðlæknar,“ sagði Oaks forseti. „Og ég hef séð hann sem meistarakennara kenna þjónum Drottins á sama hátt.“

Sem „ástkær læknir“ snerti Nelson forseti bókstaflega hjörtu hundruða sjúklinga sem þjáðust af líkamlegum kvillum. Hann læknaði hjörtu í orði og verki sem lærisveinn Krists.

Fleiri heimildir

Arftaka í Æðsta forsætisráði Kirkju Jesú Krista hinna Síðari daga heilögu