Róm

Oaks forseti greinir nemendum í Róm frá ástæðum þess að trúfrelsið er mikilvægt

Hann segir mikilvægt að trúað fólk taki saman höndum við að „styðja, [vera] griðastaður og kunngera trúfrelsi um allan heim.“

Dallin H. Oaks forseti, í Æðsta forsætisráði Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, flutti ræðu á þriðjudaginn, í Sapienza-háskólanum í Róm, og sagði trúfrelsið vera ómetanlegt alþjóðlegt gildi sem vert væri að vernda.

Dallin H. Oaks forseti talar við Sapienza-háskólann í Róm, þriðjudaginn 14. desember 2021.
Dallin H. Oaks forseti talar við Sapienza-háskólann í Róm, þriðjudaginn 14. desember 2021.

Fyrsti ráðgjafi Æðsta forsætisráðsins útskýrði að kirkja Jesú Krists væri endurreist trúarbrögð (ekki mótmælendatrú eða kaþólsk trú) og sagði: „Hin endurreista kristna kenning í fyllingu sinni kennir að Guð skapaði og setti börn sín á jörðu til að þau yxu andlega með réttum ákvörðunum á milli góðs og ills, í samræmi við boðorð hans. Valfrelsi er því grundvallaratriði í áætlun Guðs.“

Með því að vitna í verk Coles Durham, prófessors í Brigham Young-háskóla, og tveggja sampostula, greindi Oaks forseti frá nokkrum af mikilvægustu ávinningsþáttum trúfrelsis.

Oaks forseti sagði að vernd trúfrelsis „tengdist ekki bara vernd annarra lykilréttinda, heldur einnig öðrum félagslegum þáttum, svo sem efnahagslegu frelsi, hærri vergri landsframleiðslu á mann, miðað við höfðatölu, betri tekjum kvenna, jafnrétti kynjanna, auknu læsi, betri heilsu og menntun og styrkingu lýðræðis.“

Paolo Naso, prófessor í stjórnmálafræði og blaðamennsku, og Dallin H. Oaks forseti, í æðsta forsætisráðinu, takast í hendur við Sapienza-háskólann í Róm, 14. desember 2021.
Paolo Naso, prófessor í stjórnmálafræði og blaðamennsku, og Dallin H. Oaks forseti, í æðsta forsætisráðinu, takast í hendur við Sapienza-háskólann í Róm, 14. desember 2021.

Aðra ávinningsþætti sem felast í trúfrelsi, sagði Oaks forseti vera fjölhyggju, frið og viðeigandi aðskilnað ríkis og kirkju. Oaks forseti vitnaði í ræðu öldungs D. Todds Christofferson frá október 2021 og sagði: „Saga trúfrelsis sýnir að virðing stuðlar að virðingu. Stjórnvöld sem varðveita trúfrelsi, búa við færri félagslegar erjur og meiri félagslegri samheldni.“

Oaks forseti lagði áherslu á annan ávinning: kærleiksstarfið sem hinir trúuðu inna af hendi. Hann las úr ræðu sem öldungur Quentin L. Cook hélt í júní 2021 í Notre Dame háskólanum, og sagði: „Trúarleg ábyrgð er gagnleg veraldlegu samfélagi,“ því að þau eru „mörg góðverkin sem trúarbrögð hvetja hina trúuðu til að inna af hendi í þágu annarra.“ Oaks forseti sagði frá nokkrum dæmum úr heimi Síðari daga heilagra árið 2021:

  • Meðlimir kirkju Jesú Krists um allan heim hafa lagt af mörkum um 6 milljón klukkustunda þjónustu í velferðar- og mannúðarverkefnum á vegum kirkjunnar (að ótöldu því sem meðlimir gera á eigin spýtur).
  • Vefsíðan JustServe gerir yfir 655.000 sjálfboðaliðum mögulegt að tengjast og uppfylla þarfir í samfélögum sínum.
  • Kirkjan á í samstarfi við kaþólsku kirkjuna og aðra á Ítalíu, til hjálpar flóttafólki varðandi matvæli, húsaskjól, læknishjálp og færniþjálfun.
  • Síðari daga heilagir eiga í samstarfi við samtök múslima, gyðinga og kristinna í Miðjarðarhafsríkjunum, til að ráða bót á erjum, hungri, sjúkdómum og fólksflutningum.
  • Kirkjan á í samstarfi við stjórnvöld á Indlandi, til að veita betri aðgang að umhirðu sjónar, mæðra- og nýbura og færniþjálfun. Kirkjan gaf einnig 4 milljónir dollara til kaupa á súrefniskútum, öndunarvélum og öðrum lækningabúnaði.
  • Kirkjan tekur þátt í meira en 575 öðrum verkefnum tengdum Kóvid-19 í 74 löndum.

Líkt og í boðskap hans í Virginíu-háskóla í nóvember, sagði Oaks forseti að hið mikilvæga kristna gildi að lifa friðsamlega með öðrum – sem kirkjan kallar „sanngirni fyrir alla“ – sé nauðsynlegt til að trúfrelsi fái þrifist.

Alessandro Saggioro, prófessor í sagnfræði og trúarbrögðum við Sapienza-háskólann í Róm, talar til nemenda og kennara, 14. desember 2021.
Alessandro Saggioro, prófessor í sagnfræði og trúarbrögðum við Sapienza-háskólann í Róm, talar til nemenda og kennara, 14. desember 2021.

„Raunveruleiki þess að lifa sem samborgarar í fjölhyggjusamfélagi er sá að við verðum að sætta okkur við einhver lög sem okkur er í nöp við og læra að lifa friðsamlega með þeim einstaklingum sem hafa önnur gildi en okkar eigin,“ sagði hann. „Við ættum ekki að búast við eða sækjast eftir að allt falli okkur í hag, heldur stuðla að sanngirni fyrir alla með gagnkvæmri virðingu. Það krefst þess auðvitað að við reynum að skilja reynsluheim og áhyggjuefni annarra.“

Oaks forseti sagði að þótt það dragist nú á langinn á Bandaríkjaþingi að sýna öllum frumvörpum sanngirni, „þá eru gildin sem hér um ræðir svo mikilvæg að allar sáttatilraunir eru erfiðisins virði.“ Að koma á „raunhæfum tengslum milli stjórnvalda og þeirra sem sækjast eftir trúfrelsi eða trú“ er „nokkuð sem við getum lært mikið af hvert öðru,“ sagði hann.

Oaks forseti vitnaði í tölfræði þar sem fram kemur að fáir á okkar tíma virði skipulögð trúarbrögð og trúfrelsi. Af hverju er það svo? Ef til vill vegna þess, sagði hann, að við höfum misst þráðinn varðandi grunnkenningu Krists um að elska Guð og náungann.

„Með kærleika og gagnkvæmri virðingu, sem guðleg boðorð kveða á um, þurfum við að finna leiðir til að læra hvert af öðru og styrkja sameiginlegan skilning, sem sameinar okkur í stöðugu fjölhyggjusamfélagi,“ sagði hann. „Það er leiðin til að koma í veg fyrir að djúpstæður ágreiningur um mikilvæg gildi rjúfi okkar borgaralegu einingu.“

Oaks forseti sagði að leiðin áfram væri samstaða milli trúarbragða. Hann vitnaði í öldung Cook og sagði að kaþólskir, evangelískir, gyðingar, múslimar, Síðari daga heilagir og önnur trúarbrögð „yrðu að vera hluti af bandalagi trúarbragða sem styðja, eru griðastaður og kunngera trúfrelsi um allan heim.“

„Sem einn þeirra er kallaður er til að vitna um Jesú Krist og stuðla að þeim friði og kærleika sem hann kenndi,“ sagði Oaks forseti að lokum, „ber ég vitni um áhrifamátt þessara hugmynda og ákalla blessanir Guðs yfir alla sem leitast við að efla þær.“