Salt Lake City, Utah

Öldungur Patrick Kearon kallaður í Tólfpostulasveitina

Öldungur Patrick Kearon er nýjasti meðlimur Tólfpostulasveitar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hann var kallaður fimmtudaginn 7. desember 2023 og vígður síðar sama dag af Russell M. Nelson forseta og öðrum meðlimum Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar.

Plaku Patrik Kirën
Öldungur Patrick Kearon.

„Köllun til hins heilaga postuladóms er heiminum einn vitnisburður um guðleika Drottins Jesú Krists,“ sagði Russell M. Nelson forseti, þegar hann var kallaður til að þjóna í þeirri stöðu árið 1984.

Auk þeirrar megin ábyrgðar sinnar að vera sérstök vitni um nafn Krists um allan heim, hafa þessir postular umtalsverða stjórnsýsluskyldu er lýtur að því að hafa yfirumsjón með rekstri og þróun hinnar alþjóðlegu kirkju. Tólfpostulasveitin er næstæðsta forsætisráðið í yfirstjórn kirkjunnar. Hún þjónar undir stjórn Æðsta forsætisráðsins, sem er skipuð af kirkjuforseta og tveimur ráðgjöfum.

Öldungur Kearon, sem hefur þjónað sem starfsreyndasti forseti forsætisráðs hinna Sjötíu frá því í ágúst 2020, skipar hina lausu stöðu sem skapaðist við andlát M. Russells Ballard forseta, sem andaðist sunnudaginn 12. nóvember 2023. Hann er bresk- og írskættaður og hefur verið aðalvaldhafi frá 3. apríl 2010.

„Þessi heilaga köllun vex mér afar í augum og ég finn til mikillar auðmýktar,“ sagði öldungur Kearon. „Ég mun þurfa að leggja allt mitt traust á frelsarann þegar ég leitast við að verða það sem hann þarf á að halda frá mér og miðla vitnisburði mínum um kærleika hans og ljós. Gnægð og náð Jesú Krists hafa fært afar mikla gleði í líf mitt, sem og græðandi smyrsl hans á erfiðleikatímum. Ég elska hann. Ég mun leitast við að þjóna honum eftir bestu getu.“

Öldungur Kearon, 62 ára, er alinn upp í Bretlandi og Mið-austurlöndum, þar sem faðir hans starfaði í varnarmálaiðnaðinum. Tíu ára gamall fór hann í heimavistarskóla í Englandi, meðan foreldrar hans voru áfram í Sádi-Arabíu. Hin umtalsverða raun þess aðskilnaðar innrætti honum varanlegan skilning og næmni sem hefur sett mark sitt á þjónustu hans.

„Auðvitað erum við öll á svo marga vegu langt að heiman,“ kenndi öldungur Kearon eitt sinn nemendum í Brigham Young háskólanum. „Samlíkingin hér við okkar eilífa heimili er skýr. … Eilífur faðir okkar hefur ekki látið neitt okkar fara að heiman, fara úr návist sinni, án þess að eiga kost á að fá njóta kærleika hans og leiðsagnar – alla daga lífs okkar.“

Á fullorðinsárum sínum, bjó og starfaði öldungur Kearon í Bretlandi, Sádi-Arabíu og Bandaríkjunum við ýmsar atvinnugreinar og starfrækti þar á meðal eigin samskiptaráðgjöf.

Öldungur Kearon komst fyrst til þekkingar á Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu þegar hann bjó í Kaliforníu hjá fjölskyldu Síðari daga heilagra. Hann sagði þau hafa „lifað gleðiríku lífi sem byggðist á þjónustu.“ Nokkrum árum síðar hitti hann trúboða á götu í London og var að lokum skírður á aðfangadagskvöldi 1987.

Tveimur árum eftir skírn sína, hitti öldungur Kearon Jennifer Hulme, nemanda í Brigham Young háskóla í Provo. Hún var að heimsækja London í sex mánaða námi erlendis. Parið gifti sig í Oakland-musterinu í Kaliforníu, árið 1991, og þau bjuggu síðan í Englandi í 19 ár áður en þau fluttu til Utah, þegar hann var kallaður sem aðalvaldhafi Sjötíu. Þau eiga fjögur börn sem heita: Sean (sem dó í frumbernsku), Elizabeth, Susannah og Emma.

Áður en öldungur Kearon var kallaður sem aðalvaldhafi, voru kallanir hans í kirkjunni meðal annars svæðishafi Sjötíu, stikuforseti og greinarforseti.

Öldungur Kearon verður studdur á aðalráðstefnu í apríl 2024.