Varsjá, Póllandi

Öldungur Uchtdorf segir úkraínskum flóttamönnum í Póllandi að Guð sé með þeim

Hann segir þá vera dæmi fyrir heiminn um gæsku, staðfestu og ljós

Öldungur Dieter F. Uchtdorf í Tólfpostulasveit Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu kom með boðskap kristilegrar vonar til úkraínskra flóttamanna í Póllandi, sunnudaginn 10. apríl 2022.

Postulinn, sem sjálfur var tvisvar flóttamaður í Síðari heimsstyrjöldinni, miðlaði kirkjumeðlimum ljósi og von Krists daginn á enda. Í helgistund sem haldin var í Varsjá, sérstaklega fyrir flóttamenn, las hann úr ritningunni í Nýja testamentinu sem talar beint um bágindi flóttamanna. Til að mynda í áttunda kapítula Rómverjabréfsins spyr Páll: „Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?“ Hann svaraði að ekkert getur gert okkur „viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú.“

Þessi ritning, sagði öldungur Uchtdorf við hina úkraínsku flóttamenn, er „jafn sönn og nú og hún var fyrir 2.000 árum. Hún er líka sönn hvað varðar mörg skiptin þar á milli. … Áherslan á Jesú Krist mun veita ykkur frið í hjarta til að komast í gegnum þetta í heilu á höldnu, á þann hátt að þið getið brosað til barna ykkar. Þegar eiginmaður ykkar, faðir ykkar, vinur ykkar er ekki með ykkur, getið þið hugsað til þeirra og beðið fyrir þeim. Þegar þið svo sameinist aftur, munið þið segja: ,Ég vissi að þetta myndi gerast, því ég trúi því að góðir hlutir muni gerast aftur fyrir okkur öll.‘ Góðir hlutir munu vissulega gerast fyrir ykkur.“

Þjóðverjinn benti líka á frásögnina um Jesú að lægja storm og sjó, að beiðni áhyggjufullra lærisveina hans (sjá Markús 4).

„Það skall allt í einu á stormur, eins og stormurinn ykkar núna,“ sagði öldungur Uchtdorf. „[Hvað sagði Jesús] við postula sína [eftir að hann lægði storminn?] ,Hafið þið enga trú?‘ Það er þó erfitt á tímum þegar báturinn sekkur. Þetta er þó það sem hann sagði. Hann lægði síðan vatnið og gerði stillilogn. Þeir lærðu því þá lexíu sem þeir urðu að trúa.“

Öldungur Uchtdorf líkti síðan stöðu flóttamannanna við stöðu lærisveinanna við Tíberíasvatn, eftir dauða og upprisu Jesú (sjá Jóhannes 21). … Postularnir voru niðurbrotnir. Messías þeirra var dáinn. Þeir vissu ekki hvað til bragðs ætti að taka.

„Allt var búið Það versta hafði gerst. Ég get ekki ímyndað mér hvernig þeim leið – líkt og ég get ekki ímyndað mér hvernig ykkur líður [sem flóttamönnum í dag],“ sagði öldungur Uchtdorf. „Hér voru þeir, algjörlega úrvinda á vatninu, reynandi að veiða – sem þeir kunnu, þeir voru atvinnumenn – en þeir gátu ekki veitt neitt. Þannig hlýtur ykkur stundum að líða. Þið getið ekki gert það sem þið vanalega gerið.“

Á sama hátt og Jesús sagði þessum postulum að leggja net sitt hinum megin við bátinn til að finna fisk, þá gætu þessir flóttamenn þurft að leita ljóss á óhefðbundinn hátt.

„Verið opin fyrir aðlögun,“ sagði öldungur Uchtdorf. Vitið að frelsarinn elskar ykkur. Hann þekkir fórnir ykkar. Hann er fús til að umvefja ykkur örmum sínum af kærleika.“

Postulinn sagði flóttamönnunum að þeir væru „fyrirmynd um gæsku, ákveðni í að feta braut frelsis og standa með hinu rétta, vera ljós fyrir margar þjóðir.“ Margir, sagði hann, munu líta til þeirra og segja: „Ef þau geta það, þá getum við gert það.“ Hann hvatti fólkið til að vanmeta ekki áhrif fordæmis síns. „Vitið að Guð er með ykkur,“ sagði hann. „Hann mun blessa ykkur. Hann mun færa allt til rétts vegar að lokum, eins og hann alltaf gerir. Ef til vill ekki að okkar tímasetningu. Hann mun þó vissulega gera það samkvæmt eigin tímasetningu.“

Öldungur Uchtdorf hvatti flóttamennina til að sigra reiði með kærleika, mæta hatri með gæsku og sigrast á lygum með sannleika.

„Farið gegnum lífið og treystið Guði og trúið á hann,“ sagði hann. „Ég blessa ykkur, að þú munið sjá að hönd Drottins leiðir ykkur gegnum þetta líf.“

Eiginkona öldungs Uchtdorf, Harriet, talaði einnig til flóttamannanna. Hún sagði: „Ég veit að himneskur faðir vakir yfir ykkur. Ég veit að Jesús Kristur elskar ykkur, sérhvert ykkar. Hann elskar ykkur sannlega … þið eruð ekki ein.“

Einn flóttamaður, Maryna Bovt, sagði að heimsókn öldungs ​​Uchtdorf væri „mikill stuðningur við alla Úkraínumenn.“ Nærvera postulans hjálpaði henni að sjá að kirkjan viðurkennir ekki aðeins þarfir fólksins hennar, heldur einnig tilfinningar þess.

Maryna sagði einnig að ummæli öldungs ​​Uchtdorf væru lykill sem myndi hjálpa henni að þola krefjandi daga framundan.

„Þið vitð, það er mjög erfitt að elska alla, að skilja alla, þegar fólkið okkar þjáist,“ sagði hún. „Ég skil að eina leiðin er að vera hluti af Kristi.“

Hinir heilögu í Póllandi aðstoða flóttamenn frá Úkraínu með mat, vatn, lyf, húsaskjól og aðrar þarfir.

Marcin Kulinicz, maður í Varsjá, stofnaði Facebook-síðu sem hefur nú 9.000 manns sem styðja flóttamenn. Fram að þessu, hefur hópurinn hans safnað nægum birgðum fyrir sex sendingar til Lviv og Kænugarðs. Hann sagði að hægt væri að sjá hönd Guðs á þessum myrkva tíma, vegna ljóss og aukins trausts meðal fólks.

„Fólk þarf að treysta hvert öðru meira á stríðstímum. … Ég þurfti að treysta nokkrum öðrum,“ sagði hann. „Fullt af fólki treysti mér stundum fyrir lífi sínu – eða þegar ég var að koma með flóttamenn hingað til Póllands – og lífi ástvina sinna. Ég var með eiginkonur og börn annarra.“

Marcin sagði að það væri mikilvægt að muna að aðstoð við flóttamenn væri maraþonhlaup, ekki spretthlaup.

„Að hjálpa flóttamönnum á stríðstímum og við uppbyggingu á stríðstímum er langtímaverkefni,“ sagði hann. „Margir einbeita sér að sjálfboðavinnu og framlögum – og það er frábært. Þetta mun þó standa yfir í mörg ár og við þurfum að vera viðbúin fyrir mjög langan tíma.“

Annar sjálfboðaliði, Agnieszka Mazurowska frá Varsjá, sagðist vera fús til að hjálpa og hlusta.

„Ég skil að það að hjálpa er að elska fólk. Ég elska allt fólk um allan heim,“ sagði hún. „Þannig að þegar ég sé einstæða móður með börnin sín, eða ég sé þungaða konu fyrir framan mig, þá finn ég til mikillar elsku til hennar og þeirra og ég verð að veita þeim stuðning. Þetta er skylda mín. Ég trúi á Krist, svo ég reyni að lifa eins og hann og því bregst ég þannig við.“