„Rödd hrópanda í eyðimörk“

„Rödd hrópanda í eyðimörk“ - Öldungur Bragason í Nevada eyðimörkinni
„Rödd hrópanda í eyðimörk“ - Öldungur Bragason í Nevada eyðimörkinni

Ástvinir geta fundist tvö ár líða hægt, þegar einhver úr fjölskyldunni ákveður að eyða tveimur af sínum bestu árum í þjónustu til annarra, annars staðar í heiminum. Fjölskylda Bjarka Bragasonar frá Selfossgrein Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, hefur nú endurheimt hann fyrir fáeinum dögum síðan, en hann þjónaði í Las Vegas trúboðinu.

Ungir menn getað hafið trúboðsþjónustu með 18 ára aldri, en mælt er með því að þeir hafi lokið framhaldsskóla. Þegar Bjarki var spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að fara í trúboð, svaraði hann: „Ég fór til að gefa til annarra þar sem mér var gefið, sem er fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég fór einnig til að læra meira og vaxa með nýjar reynslur og ábyrgðir. Í þriðja lagi fór ég einfaldlega til að fylgja boðorði Guðs um að deila fagnaðarerindinu með öðrum.“

Spámenn til forna hafa oft verið kenndir við trúboðsstarf, enda hafa þeir varað við og kennt, líkt og trúboðar gera í dag. Það er við hæfi að nota þau orð sem rituð hafa verið um Jóhannes skírara, en hann prédikaði í heitri eyðimörk, alveg eins og Bjarki gerði:


Eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

(Lúkas 3:4)

Mikill þroski og lærdómur fylgir trúboði sem þessu og sést mikill munur á Bjarka nú. Hann segir: „Ég hef lært að allir eru að fara í gegnum eitthvað í lífi sínu og þurfa einhvern til að hlusta á sig og styðja. Ég hef einnig lært mikilvægi þess að dæma ekki aðra af útliti þeirra og koma fram við aðra með góðmennsku út af því að við erum öll bræður og systur, börn Guðs... Það eru margir sem skilja ekki hugsunarhátt minn og svara jafnvel með hörku, en ég hef lært að sýna í staðinn þolinmæði og elsku, með skilngingshugarfari til skoðana sem eru ólíkar mínum.“

Vitnisburður Bjarka hefur einnig eflst: „Jesú Kristur lifir og gerir okkur kleift að komast í gegnum hvaða erfiðleika og áskoranir sem lífið lætur okkur hafa. Ég hef alltaf fundið sérstaka, kunnuglega tilfinningu þegar ég bið með einlægni til Guðs. Ég hef einnig lært að Mormónsbók sé bók sem Guð hefur gefið okkur til að hjálpa okkur í gegnum lífsins storma og að gefa okkur sértæk svör við spurningum okkar. Hún hefur breytt lífi mínu og margra aðra sem ég hef deilt henni með.“

Rúmlega 65.000 trúboðar kirkjunnar þjóna um heim allan um þessar mundir.