Æðsta forsætisráð Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur gefið út staðsetningu Birmingham-musterisins í Englandi Musterið verður byggt á eins hektara svæði staðsettu á 185-187 Penns Lane, Sutton Coldfield, Birmingham, Englandi.
Áætlanir gera ráð fyrir um það bil eitt þúsund fermetra musteri á einni hæð, auk gestahúss og móttökuaðstöðu. Russell M. Nelson forseti kirkjunnar tilkynnti musterið á ráðstefnu kirkjunnar í apríl 2022. „Jákvæður andlegur kraftur eykst þegar við tilbiðjum í musterinu og við vöxum að skilningi okkar á undursamlegri vídd og dýpt þeirra blessana sem við hljótum þar,“ sagði spámaðurinn. „Ég bið ykkur að spyrna gegn veraldarhyggju með því að einblína á eilífar blessanir musterisins. Viðvera ykkar þar færir ykkur blessanir um eilífð,“ sagði hann þegar tilkynnt var um sautján ný musteri, þar á meðal Birmingham-musterið í Englandi.
Boðun hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists hófst árið 1837 í Bretlandi, þegar trúboðar, þar á meðal tveir meðlimir Tólfpostulasveitarinnar, tóku að kenna í Preston. Á nítjándu öld fluttu rúmlega 52.000 trúaðir frá Bretlandi til að ganga til liðs við meginkjarna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í Bandaríkjunum. Árið 1870 voru breskir innflytjendur næstum helmingur íbúa Utah.
Musterin þrjú í Bretlandi eru meðal annars hið sögulega London-musteri í Englandi (vígt árið 1958), Preston-musterið í Englandi (vígt árið 1998) og Birmingham-musterið í Englandi (tilkynnt árið 2022). Birmingham-musterið í Englandi verður þriðja musterið sem starfrækt er í Bretlandi, sem er heimaland tæplega 187.000 meðlima í yfir 315 söfnuðum.
Enn er verið að þróa nákvæmar hönnunaráætlanir fyrir þetta musteri. Frekari upplýsingar, til að mynda um útlit og dagsetningu fyrstu skóflustungu, verða síðar birtar almenningi. Verkefnaleiðtogar halda áfram að vinna með embættismönnum á staðnum varðandi áætlanir til undirbúnings fyrir byggingu musterisins.
Meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu líta á musterin sem „hús Drottins“ og helgustu tilbeiðslustaði jarðar. Musterin eru frábrugðin samkomuhúsum eða kapellum kirkjunnar. Öllum er velkomið að sækja guðsþjónustur á sunnudögum og aðra viðburði á virkum dögum í samkomuhúsum á heimasvæðum. Megintilgangur musteranna er hins vegar að trúfastir meðlimir kirkjunnar taki þátt í helgum athöfnum, eins og hjónabandsvígslum sem sameina fjölskyldur að eilífu.