Tækifærin eru óendanleg

Boðskapur svæðisleiðtoga

Fólk í sunnudagaskóla
Öldungur Alessandro Dini Ciacci, Ítalíu
Öldungur Alessandro Dini Ciacci, Ítalíu Svæðishafi Sjötíu

Þegar fólk spurði mig af hverju ég hefði ákveðið að þjóna í fastatrúboði, eftir að ég gekk í kirkjuna, sagðist ég hafa fundið fjársjóð og vildi miðla honum öðrum. Sú gleði sem hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists færir í líf mitt, er ástæða þess að ég hika ekki við að miðla öðrum fagnaðarerindinu og bjóða þeim að koma með mér í kirkju.

Öldungur Dieter F. Uchtdorf, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Tækifærin [eru] ótal mörg, hvar sem þið búið á jörðunni, til að miðla gleðitíðindum fagnaðarerindis Jesú Krists meðal fólks sem þið hittið, lærið með, búið með, starfið með og blandið geði við.“[1]

Þegar Söru, eiginkonu minni, var nýlega falið að flytja ræðu á sakramentissamkomu, sagði ég nokkrum vinum hennar frá því og benti þeim á að Sara myndi sannlega vera þeim þakklát, ef þeir kæmu henni til stuðnings. Ein vinkona hennar kom með eiginmann sinn og tvö börn. Einfalt boð varð til að styrkja vináttuböndin og fá fólk sem okkur er kært til að koma með okkur í kirkju.

Almennt hefur fólk einlægan áhuga á trú okkar og vill vita meira. Öldungur Quentin L. Cook, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Hin nýja samkomudagskrá sunnudaga veitir meðlimum tilvalið tækifæri til að bjóða vinum og kunningjum, af árangri og elsku, að koma og sjá og upplifa kirkjuþjónustu.“[2]

Yfir árin höfum við boðið mörgum vinum og ættingjum að koma með okkur á sakramentissamkomu barnanna, í skírn barna okkar, er við flytjum sérstök söngatriði, er við flytjum ræður, á sérstakar kvöldvökur, eða heimsóknir aðalvaldhafa og oft höfum við líka boðið fólki á heimili okkar til fjölskyldukvölds eða kvöldverðar með okkur og trúboðunum.

Tækifærin eru óendanleg. Við getum boðið þeim sem ekki hafa komið í kirkju um hríð eða ættingja að vera með okkur þegar við hljótum köllun og jafnvel líka við embættisísetningu. Við getum boðið vinum okkar sem ekki eru í kirkjunni að koma á sakramentissamkomu eða í sunnudagaskóla. Við getum boðið þeim, ef við kennum námsbekk eða ef við hyggjumst gefa vitnisburð okkar á sakramentissamkomu. Við getum jafnvel boðið vinum okkar að taka þátt í þjónustuverkefni kirkjunnar með okkur eða fara með okkur á sjúkrahús eða hjúkrunarheimili til hirðisþjónustustarfs. Við getum boðið þeim heim eftir kirkju til hádegisverðar.

Í hverju sem boðið felst, þá er líklegra að það verði þegið, ef við biðjum fyrir þeim sem við bjóðum, leitum innblásturs um hvers eðlis boðið ætti að vera, föstum fyrir þeim og bregðumst síðan við. Í flestum tilvikum er boð þó ekki fullnægjandi; við gætum þurft að gera áætlun fyrir þau og með þeim sem við höfum boðið. Þau gætu viljað vita hvers vænta má eða þurft á fari að halda.

Stundum eru þeir sem okkur ber að hjálpa við kirkjusókn, þeir sem við förum alltaf með í kirkju. Það gæti verið að hjálpa fjölskyldumeðlimi með því að hafa til morgunverð eða strauja skyrtu eða kjól, til að flýta fyrir og koma tímanlega. Það getur líka falist í því að forðast neikvæðar athugasemdir um samkomurnar eða fólkið, svo þeir sem við reynum að hjálpa geti einblínt á hið jákvæða og fundið gleði í kirkjusókn.

Við ættum að bjóða öllum, jafnvel þeim sem við teljum að komi ekki. Megum við, í þessari viðleitni okkar, finna hugrekki í þessu loforði öldungs Quentin L. Cook: „Ef við sýnum elsku, góðvild og auðmýkt, munu margir taka á móti boði okkar. Þeir sem kjósa að taka ekki á móti því, verða áfram vinir okkar.“[3]


[1] Dieter F. Uchtdorf, „Trúboðsstarf: Gefa af hjartans list,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

[2] Quentin L. Cook, „Heit elska til barna föður okkar,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

[3] Sama.