Það sem mormónar trúa varðandi Jesú Krist

Lærið meira um son Guðs og skapara heimsins

Það sem mormónar trúa varðandi Jesú Krist
Mormónar trúa að Jesú Kristur sé sonur Guðs. Hann kom til jarðar til að kenna okkur og sýna okkur hvernig við ættum að lifa.

Hafið þið einhvern tíma hugleitt hverju mormónar trúa varðandi Jesú Krist? Eins og margir aðrir kristnir einstaklingar hér í heimi, þá líta mormónar, sem einnig eru þekktir sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, til Jesú Krists sem Drottins og tilbiðja hann sem frelsara sinn. Margt af því sem mormónar trúa varðandi Jesú Krist er svipað því sem aðrir kristnir trúa um hann. Mormónar trúa hins vegar líka mörgum hreinum og dýrmætum sannleika varðandi frelsarann sem er aðeins að finna í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Hver er Jesús Kristur samkvæmt trú mormóna?

Eins og flestir hinna kristnu, þá trúa mormónar því að Jesús Kristur sé sonur Guðs og skapari heimsins. Mormónar hafa hins vegar þá sérstöðu að trúa því að Guð faðirinn og Jesús Kristur séu tvær aðskildar verur. Mormónar trúa því að Guð og Jesús Kristur séu algerlega sameinaðir í sínum fullkomna kærleika til okkar, en hvor um sig sé þó aðgreind persóna með sinn eigin dýrlega líkama (sjá K&S 130:22).

Mormónar trúa því að allir karlar og konur sem hafa fæðst, þar með talið Jesús Kristur, hafi fyrir þetta líf dvalið hjá Guði sem andabörn hans. Guð vildi að hvert og eitt okkar kæmi til jarðar til að öðlast reynslu, læra og þroskast til að verða líkari honum. Guð vissi hins vegar einnig að börn hans myndu öll syndga, deyja og skorta dýrð hans. Við myndum þarfnast frelsara til að sigrast á syndum okkar og ófullkomleika og sættast við Guð. Mormónar trúa því að Jesús Kristur hafi fyrir löngu síðan, í fortilveru okkar hjá Guði, verið valinn til að verða þessi frelsari. Við hrópuðum af gleði þegar áætlunin um sáluhjálp barna Guðs var lögð fyrir okkur (sjá Jobsbók 38:7).

Hver er trú mormóna varðandi jarðneskt líf Jesú Krists?

Mormónar trúa því að Jesús hafi fæðst sem barn í Betlehem. Sem barn Guðs föðurins og jarðneskar móður, Maríu, þá óx hann upp og lærði guðlegt hlutverk sitt og fagnaðarerindi föður síns orð á orð ofan, setning á setning ofan (Sjá K&S 98:12). Mormónar trúa því að Jesús Kristur hafi lifað fullkomnu jarðnesku lífi, til að gefa okkur hið fullkomna fordæmi að fylgja. Hann varð Messías, sá frelsari sem Guð lofaði fólki sínu og spámenn höfðu löngu spáð fyrir um. Ritningarnar segja hann hafa kennt fagnaðarerindi sitt í orði og verki, er hann „gekk um vegi Palestínu, læknaði hina veiku, gaf blindum sýn og reisti látna frá dauðum“ ( „The Living Christ: The Testimony of the Apostles,” Ensign eða Liahona, apríl 2000, 2).

Mormónar trúa því einnig að í gegnum friðþægingu sína hafi Jesús Kristur þjáðst ólýsanlega í Getsemane og á krossinum fyrir syndir mannkyns, svo að hann gæti liðsinnt okkur fullkomlega í öllum okkar þjáningum. Mormónar trúa því að Jesús Kristur hafi dáið á krossinum og risið aftur til þess að allt mannkyn gæti verið endurreist og dag einn snúið aftur til dvalar hjá ástríkum himneskum föður. Einungis ein manneskja hefur nokkru sinni lifað algerlega syndlausu lífi, frelsarinn var hið fullkomna fórnarlamb, flekklaus. Sú trú einskorðast við Síðari daga heilaga að Jesús Kristur hafi heimsótt fólk sitt í Ameríku eftir dauða sinn (sjá Jóhannes 10:16; 3 Nefí 11).

Hvernig get ég orðið líkari Jesú Kristi?

Jesús Kristur er hið fullkomna fordæmi um allt það sem gott er: trú, von, kærleika, dyggð, þekkingu, þolinmæði, auðmýkt, hlýðni og alla aðra verðuga eiginleika. Mormónar trúa að er við vinnum að því að þroska með okkur þessa eiginleika, þá verðum við líkari Jesú Kristi. Við getum haldið áfram að verða líkari honum er við biðjum reglulega, iðrumst þeirra mistaka sem við gerum og leitum í ritningunum til að læra meira um líf hans.

Eina leiðin til að finna varanlega hamingju er að hafa trú á Jesú Kristi og fylgja kenningum hans. Líf okkar hér á jörðu getur verið afar erfitt, fullt af áskorunum og jafnvel sorgum. Hins vegar lofaði Drottinn í Matteus 11:28: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“

Til að læra meira um trú mormóna á Jesú Krist og til að styrkja ykkar persónulega samband við hann, heimsækið mormon.org.