Dagskrá þessi er „traustur vinur“ sem vonast til að geta náð „djúpt í hjörtu fólks sem leitar friðar“
Sunnudaginn 13. júlí 2025 náði hinn þekkti þáttur „Tónlist og hið talaða orð“, sem er í höndum Tabernacle Choir at Temple Square, þeim sögulega áfanga að sýna fimm þúsundasta þáttinn í Ráðstefnuhöllinni í Salt Lake City, Utah. Þetta fordæmalausa afrek undirstrikar viðvarandi arfleifð þessa vikulega þáttar og djúpstæð alþjóðleg áhrif hans.
Þátturinn er lengsta samfellda útsending heims. Meira en 6 milljónir manna í yfir 50 löndum hlusta á hann í gegnum útvarp, sjónvarp og streymi á netinu í hverri viku.
„,Tónlist og hið talaða orð‘ á sér engin landamæri í þessum mikla heimi marga kynþátta og þjóðerna,“ sagði Russell M. Nelson forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. „,Tónlist og hið talaða orð‘ er alþjóðleg auðlind. Tónlist er tungumál andans um allan heim. Tónlist hefur samskipti við hjarta og sál einstaklinga á þann hátt sem skrifuð orð fá ekki gert.“

Þátturinn hefur skírskotun til margra trúarbragða og menningarheima. Rabbíninn Jarrod R. Grover, yfirrabbíni í Beth Tikvah-samkunduhúsinu í Toronto, er aðeins eitt vitni að áhrifamætti hins óháða trúarlega boðskapar þáttarins um von og frið.
„Þegar fjölmiðlalandslagið er fullt af þáttum sem eru neikvæðir og gagnrýnir og fréttum sem eru niðurdrepandi og streituvaldandi, þá er ,Tónlist og hið talaða orð‘ sjaldgæf undantekning sem sér okkur fyrir hálftíma af tónlist og boðskap sem er eingöngu jákvæður og fullvissandi og vongóður,“ sagði Grover rabbíni, sem horfði á fimm þúsundasta þáttinn í eigin persónu, þökk sé boði frá Derrick Porter, kynni þáttarins.

Grover rabbíni skrifaði Porter í mars, eftir að sá síðarnefndi bauð áhorfendum að deila reynslu sinni af þáttunum. Rabbíninn, sem hefur horft á þáttinn undanfarin þrjú ár, eftir að trúboðar kynntu hann fyrir honum, hélt að hann myndi aldrei sjá „Tónlist og hið talaða orð“ í eigin persónu, vegna sinnar annasömu dagskrár og nálægðar aðalráðstefna kirkjunnar við páska og helgidaga haustsins.
Svar Porters, með boði til rabbínans um að koma til Salt Lake City, barst á páskadegi.
„[Það er] dagur kraftaverka,“ sagði Grover rabbíni. „Ég bókstaflega féll af stólnum mínum. Mér líður eins og Guð hafi leiðbeint mér að vera hér með ykkur þessa helgi, því ég bjóst aldrei við að þetta myndi gerast.“
Heimsókn Grover rabbína hafði fleiri kraftaverk í för með sér. Honum var boðið að syngja með kórnum á æfingu fimmtudaginn 10. júlí. Eftir útsendinguna á sunnudeginum var hann viðstaddur heimkomuræðu eins trúboðans sem hann varð nánastur í Toronto.
„Þetta er bara kraftaverk eftir kraftaverk sem ég hef upplifað, til að gera þessa helgi einstaka og ég er mjög þakklátur kirkjunni fyrir gestrisnina,“ sagði Grover rabbíni.
Michael O. Leavitt, forseti Tabernacle Choir, endurómaði orð Nelsons forseta um algildi tónlistar og benti á að starf kórsins væri ætlað „milljörðum manna, sem tala hundruð tungumála, sem leita sannleikans og leita friðar og hafa sömu mannlegu þörf fyrir lækningu, sem ,Tónlist og hið talaða orð‘ veitir á svo faglegan og einstakan hátt“.

Perry Sook, sameiginlegur stjórnarformaður Landssambands útsendingarstöðva, sagði að fimm þúsundasti þáttur „Tónlistar og hins talaða orðs“ tákni meira en langlífi og alþjóðlega útbreiðslu.
„Hann táknar óhagganlegt ágæti, skuldbindingu við opinbera þjónustu og viðvarandi áhrifamátt trúar og tónlistar til að sameina okkur öll,“ sagði Sook.
Viðburðarík saga
Heidi Swinton, sem varði 20 árum sem sjálfboðaliði í kórnum, sagði að þátturinn hefði hjálpað Bandaríkjunum og heiminum að standast marga storma í gegnum árin, allt frá kreppunni miklu til Kóvid-19 heimsfaraldursins.

„[Kórinn] getur verið rödd sem segir: ,Við getum þetta. Við getum komist í gegnum þetta,‘“ sagði Swinton. „Ronald Reagan kallaði hann ‚kór Bandaríkjanna‘ og ég held að það sé vegna langlífis hans, því frá upphafi útvarpsins hefur kórinn verið í framlínunni og boðað það góða sem gerist og erfiðu hlutina sem gerðust og sagt: ‚Tökum saman örmum og við munum komast í gegnum þetta.‘“
Hinn vikulegi þáttur fór fyrst í loftið 15. júlí 1929.
„Ég man eftir fyrstu útsendingu ‚Tónlistar og hins talaða orðs,‘“ sagði hin 101 árs gamla Warna Huff. „Þetta er eitthvað sem maður gleymir ekki.“
Huff var fimm ára á þeim tíma og horfir enn á þáttinn í hverri viku.
„Hann lætur manni bara líða vel,“ sagði hún. „Hann lætur þig bara skynja eitthvað sem þú hefur þörf fyrir. Tónlistin er dásamleg.“

Hinn 100 ára gamli Nelson forseti á líka góðar minningar um þáttinn.
„Ég man ekki eftir lífinu án ‚Tónlistar og hins talaða orðs,‘“ sagði spámaðurinn. „Ég fæddist árið 1924 og fyrsta útsendingin ‚Tónlistar og hins talaða orðs‘ var 15. júlí 1929. Ég man eftir því sem lítill drengur að hafa hlustað á sunnudagsútsendingarnar.“
Fimm þúsundasti þátturinn fer samhliða öðrum athyglisverðum áfanga: Kórstjórinn Mack Wilberg er nú á sínu 26. starfsári með kórnum og hans 17. sem stjórnandi.
„Mér finnst við alltaf standa á herðum þeirra þúsunda sem hafa komið á undan okkur og hafa gert okkur mögulegt að vera enn með þessa frábæru útsendingu í hverri viku,“ sagði Wilberg. „Von okkar er sú, að við getum haldið áfram að færa heiminum gleði, von og frið.“
J. Spencer Kinard og Lloyd Newell, tvær af fjórum röddum í sögu „Tónlistar og hins talaða orðs,“ eru meðal þeirra sem komu á undan.
Kinard starfaði í tæp 32 ár með Tabernacle Choir. Hann var einungis 31 árs árið 1972 þegar þáverandi öldungur Gordon B. Hinckley bað hann að koma í áheyrnarprufu til að taka við af hinum nýlátna öldungi Richard L. Evans sem ný rödd „Tónlistar og hins talaða orðs“. Kinard gegndi því starfi í næstum 19 ár og síðan í 11 ár sem gestgjafi í hlutverki utan útsendingar, þar sem hann talaði við áhorfendur fyrir og eftir æfingar og útsendingar á sunnudögum.
.png)
Kinard rifjaði upp merkilegar stundir, þar á meðal beinar útsendingar frá vígsluathöfnum Ronalds Reagan og George Bush og dagskrá með Johnny Cash við Washington-minnismerkið, vegna tvö hundruð ára afmælishátíðar Bandaríkjanna. Kinard naut þess einnig að ferðast til Japans, Skandinavíu, Þýskalands og Englands.
Hann sagði þó að það sem sannlega höfðaði til hans væru viðbrögð áhorfenda, þar sem fólk var oft í tárum, og tjáði hvernig tónlistin eða boðskapurinn hafði jákvæð áhrif á líf þess.
„[Þegar] einhver kemur til þín á eftir með tár í augunum um að söngurinn eða boðskapurinn eða eitthvað hafi haft áhrif á líf viðkomandi til góðs þann dag – þá voru það augnablikin sem þú manst mest eftir,“ sagði Kinard. „Að vera tengdur við eitthvað sem er 90 ára gamalt og enn á við lýði er alveg ótrúlegt. Og að vera tengdur við eitthvað jafn víðþekkt og The Tabernacle Choir at Temple Square er alveg ótrúlegt tækifæri í lífi manns.“
Líkt og Kidard sagði Newell að hann hafi oft tekið á móti þakklæti áhorfenda fyrir þáttinn.
„Ég var árum saman í útsendingum og þegar ég flutti fréttirnar kom enginn til mín eftir fréttaútsendingu og sagði: ‚Fréttaflutningurinn þinn snerti virkilega hjarta mitt.‘ Ég heyrði það aldrei,“ sagði Newell sem hefur verið þulur þáttanna í næstum 35 ár. „En með ‚Tónlist og hinu talaða orði‘ myndum við öll sem tengjumst þættinum – söngvararnir, hljómsveitarstjórarnir, við öll – segja að við fáum stöðugt að heyra þetta.“
Newell varð rödd „Tónlistar og hins talaða orðs“ árið 1990, þá 34 ára gamall. Hann er lykilmaður í varanlegri arfleifð þáttarins. Hann missti aldrei af útsendingu og tók þátt í 1.800 beinum útsendingum þáttarins (um 36% af 5.000 þáttum).

Newell kallar þáttinn „traustan vin“ og eitthvað „stöðugt og áreiðanlegt“ í heimi fullum af breytingum.
„Heimurinn er svo mikið á tjái og tundri og það er svo mikil togstreita og erfiðleikar,“ sagði Newell. „Allt frá styrjöldum, þar á meðal heimsstyrjöldum, efnahagsumróti, hæðum og lægðum, kreppunni miklu, erfiðleikum af ýmsu tagi í gegnum árin, er þátturinn kunnuglegt akkeri, traustur vinur, þar sem fólk getur gengið víst að ,Tónlist og hinu talaða orði‘ viku eftir viku.“
Newell sagði að gildi þáttarins hafi orðið einkar ljóst meðan á Kóvid-19 heimsfaraldrinum stóð. Í upphafi heimskreppunnar voru engar nýjar útsendingar af „Tónlist og hinu talaða orði“ í fjóra mánuði. Næstu 18 mánuði, tóku Newell og lítið teymi upp nýja hluta af hinu talaða orði, sem voru settir inn í fyrri þætti með tónlist til útsendingar.
„Það gaf okkur tækifæri til að ræða við fólk um allan heim um heimsfaraldurinn og um það sem við erum sameiginlega að ganga í gegnum,“ sagði Newell. „Þetta var mikilvægt tækifæri fyrir okkur til útsendingar, jafnvel fyrir kirkjuna í einhverjum skilningi, til að geta talað um algildar reglur, um að komast í gegnum erfiða hluti, um samfélagið, gildi fjölskyldunnar, gildi tengsla, um að standa vörð um hvert annað og standast á erfiðum tímum.“
Djúpar rætur „Tónlistar og hins talaða orðs“ ná einnig í gegnum kynslóðir flytjenda þáttarins. Fiðluleikarinn Jane Clark í Orchestra at Temple Square kemur t.d. úr fjölskyldu þar sem fimm kynslóðir í röð hafa starfað með kórnum.

„Þetta er eiginlega það eina sem við þekkjum,“ sagði Clark og útskýrði að hún hefði nánast alist upp í Laufskálanum í Salt Lake, vegna þess að móðir hennar var kórmeðlimur í rúm 26 ár. Þetta uppeldi ýtti undir „ást á kórnum, fyrir að vera á þessum sögufræga [stað], ást á tónlist og þjónustu, og það hefur mikla þýðingu“.
Clark deildi sérstakri stund frá 75 ára afmæli þáttarins, þar sem hún og móðir hennar deildu sviðinu.
„Ég hugsaði: ‚Ég er á sviði með mömmu í fyrsta skipti.‘ Þannig að það hafði mikla þýðingu,“ sagði Clark.
Fimm þúsundasti þátturinn
Derrick Porter varð fjórða rödd „Tónlistar og hins talaða orðs“ á síðasta ári. Í fimm þúsundasta þætti sunnudagsins, sem bar titilinn „5.000 innblásnar vikur,“ lagði Porter áherslu á varanlegt verkefni þáttarins, að vekja tilfinningar friðar, vonar og dýpri tengingar við hið guðlega í næstum heila öld. Hann lagði áherslu á hvernig útsendingin snertir stöðugt eitthvað djúpt hið innra hjá hlustendum með tónlist og einföldum skilaboðum og veitir styrk til að halda áfram.
Boðskapur hans var aðallega mótaður af yfir 1.000 andríkum frásögnum, sem áhorfendur og hlustendur sendu inn um heim allan, og útskýrðu hvernig „Guð er í raun í smáatriðum lífs okkar“. Ein aðalsagan var af föður Caden Simpson, sem fann djúpan frið og tilfinningu fyrir nærveru Guðs í gegnum tónlist kórsins í baráttu sonar hans við krabbamein.
Lagavalið á sunnudaginn var: „Sjá, dagur rís“ (flutt í fyrstu útsendingunni árið 1929), „When in Our Music God is Glorified,“ spuni organistans Richards Elliott við „Hymn to Joy,“ „Pilgrim Song,“ „Sjá, líttu á lilju vallarins“ og „Á háum fjallsins hnjúk.“
„Er við höldum upp á þessa fimm þúsundustu útsendingu,“ sagði Porter, „færum við Guði þakkir fyrir varanlega náð hans. Í von og trú horfum við til framtíðar og treystum því að hönd hans muni leiða okkur.“
Í sérstöku viðtali benti Porter á að tilverumáttur þáttarins í gegnum áratugina eigi rætur að rekja til mikilvægis hans fyrir augnablikið.
„Í hverri viku er tónlistin og boðskapurinn sett saman til að bregðast við því sem er að gerast í heiminum,“ sagði Porter. „Það er tónlistin, það er hið talaða orð [og] hið mikla hlutverk andans sem sameiginlega vekja öllum sem hlusta von, frið og gleði.“
Þrátt fyrir að útbreiðsla þáttarins sé viðtæk og fari stækkandi, sagði Porter að markmiðið væri ekki vinsældir, áhorf eða smellir.
„Hann snýst um að fara djúpt inn í hjörtu fólksins, sem er að leita að friði og huggun í annasömum heimi,“ sagði Porter. „,Tónlist og hið talaða orð“ leitast við að fylla tómarúm sem er í heiminum. Og það tómarúm er regluleg, endurtekin rödd sem segir: ‚Þetta verður allt í lagi.‘“
