Því svo elskaði Guð heiminn

Boðskapur svæðisleiðtoga (Desember 2020)

Öldungur Michael Cziesla, Þýskalandi
Öldungur Michael Cziesla, Þýskalandi Svæðishafi Sjötíu

Eitt af því hefðbundna sem ég geri á aðventutíma jóla, er að hlusta á „Messías,“ eftir Georg Frideric Handel á meðan ég ek í vinnuna. Þetta tónverk er þrískipt og segir sögu hjálpræðis Krists, sem hefst á opinberuninni um Jesú Krist í Gamla testamentinu og fjallar um líf hans og uppfyllingu þeirra spádóma, fæðingu hans og dauða á krossinum og loks síðari komu hans. Einn megin hluti í Messías er tónsettur texti nokkurra versa í 9. kapítula Jesaja. Nokkrar meginreglur eru þar áberandi, einkum:

  1. Öll göngum við stundum í myrkri – í Kristi finnum við ljósið

„Sú þjóð, sem í myrkri gekk, hefur séð mikið ljós. Yfir þá, sem búa í skuggalandi dauðans, hefur ljós skinið.“ (Jesaja 9:2.)

Öll upplifum við stundir myrkurs og áskorana og liðið ár einkenndist af einkar sérstökum erfiðleikum. Margir upplifðu einmanaleika og ótta við framtíðina. Fæðing Krists vekur okkur von. Í Kristi finnum við ljós, jafnvel þótt myrkrið umhverfis virðist ríkjandi. Hann er ljós heimsins og getur verið hverju okkar ljós, ef við einungis göngum í ljósi hans (sjá öldungur Quentin L. Cook, „Drottinn er mitt ljós,“ aðalráðstefna, apríl 2015.

  1. Við finnum sanna gleði í boðskap Jesú Krists

„Þú eykur stórum fögnuðinn, þú gjörir gleðina mikla. Menn gleðja sig fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskurðartímanum, eins og menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt.“ (Jesaja 9:3.)

Stundum er ég líka spurður af vinnufélögum mínum og meðlimum kirkjunnar um ástæðu þess að ég sé alltaf glaður. Ég upplifi líka áskoranir í lífinu og hlutirnir fara ekki alltaf eins og ég hefði helst viljað eða vænst. Við getum þó fyrir Krist haft eilífa yfirsýn og það sem virðast miklar áskoranir, geta litið allt öðruvísi út frá því sjónarhorni. Fagnaðarerindi hans – gleðitíðindi hans – sýnir að ljósið kemur alltaf eftir myrkrið og að náð hans nægir okkur öllum (sjá 2. Korintubréfið 12:9.) Það vekur mér gleði! 

  1. Í Kristi finnum við styrk; hann veitir svör við nauðsynlegum lífsins spurningum

„Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ (Jesaja 9:6.)

Kristur er vissulega undraráðgjafi. Við skulum hagnýta okkur þessa gjöf þegar við erum vanmáttug og virkilega reyna að „hlýða á hann“ (sjá ræðu Russells M. Nelson forseta „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020). Hann er ekki einungis frelsari okkar og lausnari í eilífinni, heldur getur hann líka liðsinnt okkur í daglegu lífi.  Alma sagði: „Hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og … hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns …, svo að hjarta hans fyllist miskunn …, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.“ (Alma 7:11,12.) Við getum ætíð lagt traust okkar á Krist!

  1. Kristur er Friðarhöfðinginn; hann ætti að vera miðpunktur okkar á jólum

„Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu.“ (Jesaja 9:7.)

Kristur er Friðarhöfðinginn. Þegar við vandlega leitum friðar hans á heimilum okkar í jólatíðinni, munu jólin ekki einungis verða dásamleg, heldur verða okkur uppspretta andlegs styrks.

Öldungur Uchtdorf útskýrði þessa reglu greinilega: „Stundum líkjast tilraunir okkar til að skapa hin fullkomnu jól leiknum Jenga ‒ þið kannist við hann, í honum eru notaðir litlir trékubbar, sem staflað er ótryggilega upp til að búa til turn. Þegar hæð turnsins er aukin, er kubbur tekinn úr turninum áður en hann er settur efst á viðkvæma bygginguna.

Hver þessara litlu kubba er táknrænn fyrir hina fullkomnu jólaviðburði sem við þráum svo innilega að séu fyrir hendi.  Í huga okkar höfum við dregið upp hina fullkomnu mynd ‒ af fullkomnu tréi, fullkomnum ljósum, fullkomnum pökkum og fullkomnum fjölskylduviðburðum.  Okkur gæti jafnvel langað til að endurskapa einhverjar töfrastundir liðinna jóla, og þá dugar ekkert minna en fullkomleiki.

Fyrr eða síðar mun eitthvað óþægilegt gerast ‒ trékubbarnir falla, gluggatjöldin brenna, jólasteikin brennur, peysan er ekki af réttri stærð, rafhlöður vantar í leikföngin, börnin rífast og upp úr sýður ‒ og okkar fullkomnu og töfrandi jól hrynja og verða að engu.  Af þessu leiðir að jólin valda oft streitu, kvíða, og ergelsi og jafnvel vonbrigðum.

En séum við aðeins fús til að ljúka upp hjarta okkar og huga fyrir anda jólanna, munum við sjá margt undursamlegt gerast umhverfis okkur, sem beinir athygli okkar að hinu himneska.  Yfirleitt er það eitthvað smávægilegt ‒ við lesum ritningarvers, við heyrum helga jólsögu og hlustum í raun á boðskap hennar eða verðum vitni að einlægri kærleikstjáningu.  Á einn eða annan hátt þá hrærir andinn við hjarta okkar og við sjáum að jólin eru í eðli sínu mun varanlegri en margt af því smávægilega í lífinu sem við svo oft notum til að skreyta þau.“ (Öldungur Dieter F. Uchtdorf, „Gluggatjöld, gleði og jólin,” jólasamkoma 2011.)

Allar þessar sérstöku upplifanir sem við tengjum jólunum, eru kærleikstjáning Guðs til okkar, sem ég finn aftur og aftur, einkum á jólatímanum.

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16.)

Við skulum minnast þess sem mestu skiptir á þessum jólum: Það er sú elska sem Guð ber til hvers okkar!