Tileinka sér efni aðalráðstefnu

Boðskapur svæðisleiðtoga

Fjölskylda í Helsinki fylgist með aðalráðstefnu
Öldungur Matthieu Bennasar
Öldungur Matthieu Bennasar, Frakklandi Svæðishafi Sjötíu

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig fólk brygðist við ef það gæti keypt aðgöngumiða til að sjá Adam á Wembley vellinum, Abraham á Stade de France eða Móses á Santiago-Bernabéu vellinum. Flestir væru fúsir til að láta á það reyna og myndu hugsanlega borga dágóða peningaupphæð í þeim tilgangi. Okkur, sem Síðari daga heilögum, er boðið að endurnærast á orðum nútíma spámanna á sex mánaða fresti. Aðalráðstefna verður nú í baksýnisspeglinum í nokkra mánuði. Hvað hefur okkur áunnist af ríkum áhrifum hennar? Hvernig hefur líf okkar breyst? Hvernig höfum við tileinkað okkur hið dýrmæta efni hennar?

Við undirbúning þessa boðskapar spurði ég fjölskyldu mína að því hvaða blessanir þau hefðu upplifað af því að tileinka sér kenningar síðustu aðalráðstefnu okkar. Hér á eftir eru nokkrar viskugersemar sem þar komu fram. Hver þeirra er ykkar?

  • „Áður taldi ég að ástand mitt frammi fyrir Drottni væri í öfugu hlutfalli við þörf mína til að iðrast: Ef ég þyrfti ekki að iðrast, hlyti ég sannlega að vera á rétta veginum, því ég væri ekki að gera neitt rangt! Ég skil nú af orðum spámannsins, að því er einmitt öfugt farið: Ég þarf að einblína daglega á iðrun til að ná andlegum framförum.“

  • „Að ráðstefnu lokinni, fann ég mig knúinn til að læra ritningarnar af auknum áhuga og af því leiddi að ég hlaut mun fleiri andleg hughrif, sem ég reyndi að bregðast við.“

  • „Ég hlaut mikilvægan skilning á því hvenær ég gæti ályktað iðrun minni lokið: Að finna anda Drottins í lífi mínu, merkir hvort heldur að mér hefur verið fyrirgefið eða að ég er á góðri leið með að vera fyrirgefið.“

  • „Á ráðstefnu upplifði ég dýpri þrá til að verja auknum tíma fyrir persónulega opinberun. Það leiddi í raun til aukinnar opinberunar og innblásturs í lífi mínu, sem ég er þakklátur fyrir.“

  • „Ég var áminntur um að engin rétt leið væri fyrir hendi til að gera hið ranga og það gerði mér kleift að takast betur á við freistingar.“

Þegar ég íhugaði þessi svör, stóðu þrjár reglur upp úr til að auka þrá okkar til að hljóta þær blessanir sem aðalráðstefna getur fært okkur:

  1. Það er engin hjáleið til andlegs vaxtar, verkefnið er okkar. Hversu upplyftandi og uppfræðandi sem aðalráðstefna getur verið, mun andlegur vöxtur ekki verða fyrr en við lifum eftir þeim persónulega innblæstri sem við hlutum á aðalráðstefnu.
  2. Þegar við einblínum á loforðin sem við hlutum á aðalráðstefnu, verðum við fúsari til að bera kennsl á blessanir Drottins og skynja elsku hans til okkar í ríkara mæli. Við getum glaðst yfir því að þjóðir taki á móti fagnaðarerindinu, án þess að átta okkur á tengingu þess við fyrirheitnar blessanir hins nýlega spámannlega ákalls um rétta notkun opinberaðs nafns kirkjunnar. Nelson forseti sagði: „Ég lofa ykkur, að ef þið gerið ykkar besta til að endurheimta hið rétta nafn kirkju Drottins, (…) munum [við] hafa þekkingu og kraft Guðs okkur til hjálpar við að færa öllum þjóðum, kynkvíslum, tungum og lýðum hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists.[i]
  3. Líkt og tilgreint er í ritningunum, þá er endurtekning forsenda andlegs lærdóms: Oft þurfa menn margar endurtekningar til að muna eftir, heimfæra og loks tileinka sér reglur frá aðalráðstefnu. Að læra einu sinni, veitir því sjaldan þráðan árangur. Með einarðlegu endurteknu námi verðum við lifandi pistill, boðorðin rituð á hjartaspjöld okkar.

Þegar við íhugum síðustu aðalráðstefnu og búum okkur undir þá næstu, skulum við hafa í huga að aðalráðstefnur eru blessunarríkur tími fyrir okkur til að komast töluvert nær Guðdóminum í lífi okkar og tilvalið tækifæri til að snerta hönd Guðs.


[i] Russel M. Nelson forseti, „Hið rétta nafn kirkjunnar,“ október 2018