Tilkynning um undantekningar í klæðaburði ungra karlkyns trúboða

Klæðaburður trúboða

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur tilkynnt um undantekningar í hefðbundnum klæðaburði ungra karlkyns trúboða.

Undantekingar þessar, sem Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin hafa samþykkt, gefa svæðisforsætisráðum kost á að aðlaga klæðaburð trúboða á sérstökum svæðum, til að auka og viðhalda virðuleika trúboða, öryggi, skilvirkni, aðgengileika og menningarlegri aðlögun, þegar þeir koma fram fyrir hönd Drottins og kirkju hans.

„Klæðaburður trúboða hefur reglubundið tekið breytingum í tímans rás, með hliðsjón af svæðum, klæðavenju og hefðum,“ sagði öldungur Dieter F. Uchtdorf, meðlimur Tólfpostulasveitarinnar og formaður Framkvæmdaráðs trúboðs. „Þessar undantekningar eru þáttur í því ferli. Í öllum tilvikum höfum við í huga þá köllun trúboða að vera fulltrúar Jesú Krists, heilsu og öryggi þeirra og menningarlegu tilfinninganæmi þeirra staða sem þeir þjóna á.“

Samkvæmt uppfærðu leiðbeiningunum, er lögð áhersla á hefðbundinn klæðaburð trúboða, sem er hvít spariskyrta og bindi og á sumum svæðum jakka. Að auki, á viðurkenndum kennslusvæðum, geta ungir menn (almennt þekktir sem öldungar) klæðst hvítri eða látlausri blárri spariskyrtu, með eða án bindis. Þessar undantekningar verða ákvarðaðar af svæðisforsætisráðum og trúboðsforseti mun láta trúboða vita hvort þessar undantekningar eiga við um kennslusvæði þeirra.

Allir öldungar munu halda áfram að klæðast hvítri skyrtu og bindi og á sumum svæðum jakka, þegar þeir fara í musterið, samkomur á sunnudögum, leiðtoga- og svæðisráðstefnur, trúboðsskóla, skírnarathafnir og aðrar kirkjusamkomur.

„Klæðnaður trúboða mun alltaf vera virðulegur, tilhlýðilegur og aðlaðandi, er þeir framfylgja þeim tilgangi sínum að kenna fólki um fagnaðarerindi Jesú Krists,“ sagði öldungur Uchtdorf.

Þessi tilkynning kemur í kjölfar breytingar á hefðbundnum klæðaburði í desember 2018 fyrir unga menn sem þjóna sem trúboðar.