Trú okkar á Drottin Jesú Krist

  Boðskapur svæðisleiðtoga

  Öldungur Michael Cziesla
  Öldungur Michael Cziesla

  Trú á Drottin Jesú Krist og persónulegt samband við hann, eru afar mikilvæg í lífi okkar. Í fjórða trúaratriðinu má lesa að „trú á Drottin Jesú Krist“ er ein af frumreglum fagnaðarerindisins.[i] Oft ræðum við um hið stutta hugtak „trú“ sem þessa frumreglu. Vissulega stendur hugtakið trú ekki eitt og óstutt hér, heldur vísar það til Jesú Krists og persónulegs vitnisburðar okkar um að hann er hverju okkar frelsari og lausnari. Trú á Krist veitir okkur gleði, von og fullvissu, sem og „styrk okkur til stuðnings í öllum mikilvægum viðburðum lífs okkar.“[ii] Stundum er þó jafnvel reynt á trú hins sterkasta lærisveins Drottins. Það ætti ekki að koma okkur á óvart, heldur ætti það að verða okkur til hvatningar.

  Við þekkjum öll atvikið með Tómasi postula. Lærisveinarnir sem Drottinn hafði birst eftir upprisu sína, sögðu við Tómas: „Vér höfum séð Drottin.“ Tómas, sem hafði ekki verið með þeim, svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“ Átta dögum síðar birtist Drottinn postulunum aftur og sagði við Tómas, sem nú var með þeim: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“ Tómas varð gagntekinn og gat aðeins sagt: „Drottinn minn og Guð minn“ – og Jesús svaraði með hinum þekktu orðum: „Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“ [iii]

  Þegar við heyrum þessa frásögn, hugsum við kannski um Tómas og afhverju trú hans væri álitin „lítil“. Hann var postuli og hafði verið í samfélagi Krists, séð mörg kraftaverk og átti vissulega staðfastan vitnisburð um kenningar Drottins. Upplifun Tómasar er ekki svo frábrugðin þeim áskorunum sem hvert okkar stendur frammi fyrir í heimi þar sem allt er stöðugt meira dregið í efa.

  Það sama átti við um ungan meðlim sem ólst upp í kirkjunni, er hafði lifað eftir reglum fagnaðarerindisins frá bernsku, en samt, á einhverjum tímapunkti, tók hann að efast um eigin vitnisburð. Upplifun hans á fagnaðarerindinu hvíldi – kannski eins og hjá Tómasi – aðallega á vitsmunalegum skilningi á kenningum og reglum eða venjum sem smám saman urðu honum kærar, en ekki á varanlegri upplifun hjartans. Þegar hann svo hnaut um kenningarlegt eða sögulegt efni sem hann skildi ekki þegar í stað, tók að hrikta í trú hans. Þessi ungi meðlimur spurði mig friðlaus í einkaviðtali, hvernig hann gæti þróað sanna trú á Krist. Ég ætla að segja ykkur hvernig ég svaraði þessari spurningu unga meðlimsins. Drottinn hefur opinberað leið til þess í ritningunum, með spámönnum sínum.[iv] Við getum öll farið eftir þeirri leiðsögn, hvort heldur sá sem efast eða leitar eða sá sem er reyndur eða einfaldlega þráir að næra varanlega eigin trú á Drottin Jesú Krist.

  Þessa leið má t.d. finna í hinni dásamlegu frásögn um trúarumbreytingu Enos. Hér eru skrefin sem Enos tók: (1) Enos heyrði sannleika fagnaðarerindisins frá föður sínum, reyndi að skilja hann og lét orð föður síns smjúga „djúpt inn í hjarta [sitt]“[v]. (2) Enos hlýddi boðorðum Guðs, sem gerði það að verkum að hann varð móttækilegur fyrir heilögum anda. (3) „Sál [Enos] hungraði“.[vi] Hann fylltist þrá til að komast að því sjálfur hvort það sem hann hafði lært væri sannleikur. (4) Enos fór til uppsprettu alls sannleika: „Ég kraup niður frammi fyrir skapara mínum og ákallaði hann í máttugri og auðmjúkri bæn fyrir sálu minni, og allan liðlangan daginn ákallaði ég hann. Já, þegar kvölda tók, hrópaði ég enn hátt, svo að rödd mín næði himnum.“[vii] Þetta var ekki auðvelt fyrir Enos. Enos lýsti upplifun sinni sem „baráttu … frammi fyrir Guði.“[viii] Erfiði hans var þó þess virði – staðfesting barst í hjarta hans.

  Hvert okkar verður að takast á við þessa andlegu baráttu á vegi lærisveinsins, til trúar á Drottin Jesú Krist – því miður er engin hjáleið hér. Þessi vegur er fyrir mörg okkar þakinn alvarlegum persónulegum þrengingum og áskorunum. Aðrir upplifa sérstaka andlega reynslu í musterinu, á sakramentissamkomu, í bæn eða námi á hinum helgu ritningum – en hvert okkar verður með virkum hætti að leita slíkra persónulegra upplifana. Allt tekur þetta sinn tíma og stundum fylgir þessu löng andleg og erfið þorstatíð – „en ef þið viljið næra orðið, já, næra tréð með trú ykkar af mikilli kostgæfni og þolinmæði, þegar það tekur að vaxa, og vænta ávaxtar þess, þá mun það festa rætur. Og sjá, það verður að tré, sem vex upp til ævarandi lífs.“[ix]

  Einlæg trú á Drottin Jesú Krist gerir kröfu um stöðuga „ástundun og þolinmæði“, „sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda“[x] og persónulega andlega baráttu frammi fyrir Guði. Ég ber ykkur þó vitni, fylltur elsku, að það er gefandi að feta þennan veg. Gleðin og öryggið sem fylgja því eru dásamleg og umvefjandi. „Öryggi hlýst ekki með þrotlausum auðæfum, heldur með þrotlausri trú.“[xi] Ef við biðjum, fyllt trú um að fá að vita að Jesús Kristur er frelsari okkar, mun algjörlega persónulegt svar berast, „sem er mjög [dýrmætt], sem er ljúffengari en allt, sem ljúffengt er, og hvítari en allt, sem hvítt er, já, og tærari en allt, sem tært er. Og þið munuð endurnæra ykkur á þessum ávexti, þar til þið eruð mettuð orðin, og þá mun ykkur hvorki hungra né þyrsta.“[xii] „Slík persónuleg upplifun hjartans er staðföst uppspretta varanlegrar trúar á Drottin Jesú Krist.“[xiii]

   


  [i]Trúaratriðin 1:4

  [ii] Dallin H. Oaks, General Conference, Spring 1994; sjá einnig Moró 7:33

  [iii] Jóh 20:25–29

  [iv] Sjá t.d. Róm 10:14–17, 3 Ne 18:20, Moró 10:3–5; 2 Ne 31:20; sjá einnig Russell M. Nelson, “Revelation for the Church, Revelation for Our Lives”, Liahona, maí 2018, bls. 93

  [v] Enos 1:3

  [vi] Enos 1:4

  [vii] Enos 1:4

  [viii] Enos 1:2

  [ix] Alma 32:41

  [x] 2 Ne 2:7

  [xi] Teachings of Spencer W. Kimball, ritst. af Edward L. Kimball, bls. 72–73

  [xii] Alma 32:42

  [xiii] Í Russell M. Nelson, “Revelation for the Church, Revelation for Our Lives”

  Hinn upprisni Kristur
  Hinn upprisni Kristur 2