Tíundarlögmálið og stundleg sjálfsbjörg

Boðskapur svæðisleiðtoga

Öldungur Francisco J. Ruiz De Mendoza
Öldungur Francisco J. Ruiz De Mendoza Svæðishafi Sjötíu

Í hinum flókna heimi nútímans getur oft verið óárennilegt að keppa að því að verða sjálfbjarga.   Það er þó mögulegt að ná því markmiði út frá sjónarhóli trúar. Í General Handbook of Instructions er sjálfsbjörg skilgreind sem „geta, skuldbinding og vinnuframlag til að sjá sér sjálfum og fjölskyldu sinni fyrir andlegum og stundlegum nauðsynjum.“[1] Í ritningunum eru mörg dæmi um það hvernig börn Guðs geta orðið sjálfsbjarga.  Íhugum Lehí og fylgdarlið hans fara yfir óbyggðirnar. Lehí skildi við ríkidæmi sitt til að fara að vilja Drottins. Vissulega var það svo, að þrátt fyrir að Guð hafi mildað erfiðleika þeirra í  óbyggðunum – með sýnum, vitjunum engla og leiðsögn Líahóna – þá voru óbyggðirnar engu að síður óárennilegar og vegur fólksins þyrnum stráður. Eitt einkar bagalegt atvik sem greint er frá í Mormónsbók, er þegar Nefí verður á að brjóta bogann sinn og snýr matarlaus aftur heim í búðir Lehís.  Mitt í slíku alvarlegu andstreymi tóku allir í fylgdarliði Lehís að mögla gegn Drottni og einnig Lehí sjálfur. Einsýnt var að þau gátu ekki aflað sér matar og færust án góðs boga. Nefí reis ofar þeirri freistingu að mögla og setti traust sitt á Drottin. Til marks um það traust, þá bjó Nefí til tréboga og ör úr naumu fáanlegu efni og bað föður sinn, sem nú var iðrandi, að spyrja Drottin sem spámaður hvar mat væri að finna. Opinberunin kom með Líahóna og Nefí varð sér úti um gnægð matar.[2]

Nefí

Nefí lifði á áhrifaríkan hátt eftir sjálfsbjargarreglunni. Hvernig getum við gert hið sama í dag? Hvað getum við gert, líkt og Nefí, sem tákn til Drottins um að við setjum traust okkar á hann?  Hvað hið stundlega varðar, þá getum við „búið til okkar tréboga og ör“ með því að mennta okkur eða stofna fyrirtæki.   Með því að fullvinna bæklinginn Leið mín að sjálfsbjörg og ganga í sjálfsbjargarhóp kirkjunnar, þá getum við sett eftirsókn okkar í hið stundlega í breiðara samhengi við hið andlega. Við hljótum meira ljós hvað varðar hið stundlega þegar við skoðum það í samhengi trúar. Í samhengi við hið andlega, þá er eitt einkar mikilvægt tákn um traust sem við getum sýnt Drottni, en það er að lifa eftir tíundarlögmálinu og gera sitt besta við að uppfylla hlutverk sitt sem framfærandi.  Flestir meðlimir kirkjunnar eru meðvitaðir um fyrirheit Guðs um ríkulegar stundlegar blessanir hvað þá varðar sem hlíta tíundarlögmálinu, eins og það hefur verið opinberað með spámanninum Malakí: „… Reynið mig einu sinni á þennan hátt … hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins. …“[3] Í nútíma opinberun segir Drottinn tíundina vera nauðsynlega til að „[helga] land Síonar“ og að lokum, sem er algjörlega nauðsynlegt til að byggja upp Síon: “…  ef fólk mitt virðir ekki þetta lögmál …, sjá, sannlega segi ég yður, þá mun það ekki verða yður land Síonar.“[4] Síon er hinn helgi staður þar sem hinir hjartahreinu koma saman og lifa í réttlæti.[5] Hún „verður ekki reist nema eftir lögmálsreglum himneska ríkisins“[6] og hún er staður skjóls og verndar.[7]

Þegar við íhugum þessar opinberanir, þá gætum við spurt okkur sjálf: Vil ég leggja eitthvað af mörkum til uppbyggingar Síonar? Getur það verið Drottni tákn um að ég set traust mitt á hann, ef ég lifi eftir tíundarlögmálinu? Skil ég að það, ásamt öðru, er himneskt lögmál sem gerir mér kleift að hljóta gleði eilífs lífs?  Að lifa eftir tíundarlögmálinu, hefur veitt mér og fjölskyldu minni ótal blessanir. Það er bæn mín fyrir okkur öll, hina heilögu Drottins, að við höfum tíund í fyrirrúmi í viðleitni okkar til að vera stundlega - og að lokum andlega - sjálfbjarga.


[1] Handbook 2: Administering the Church [2010], 6.1.1.

[2] 1 Ne 16: 18-32

[3] Mal 3: 10-12

[4] K&S 119: 5-6

[5] K&S 101: 16-22

[6] K&S 105: 5

[7] K&S 115: 6

Ungur maður greiðir tíund