Uppfærsla: Samkomum kirkjumeðlima frestað tímabundið um allan heim

Staðarleiðtogar munu eiga samráð um hvernig skuli gera sakramentið aðgengilegt fyrir meðlimi, hið minnsta einu sinni í mánuði

kirkjubygging

Æðsta forsætisráð og Tólfpostulasveit Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sendu frá sér eftirfarandi bréf 12. mars 2020, ætlað meðlimum kirkjunnar um allan heim.

Kæru bræður og systur,

eins og lofað var í bréfi okkar frá 12. mars 2020, þá höldum við áfram að fylgjast með breyttum aðstæðum sem tengjast COVID-19 um allan heim.  Við höfum ígrundað leiðsögn staðarleiðtoga kirkjunnar, embættismanna stjórnvalda og fagfólks heilbrigðissviðs og leitað leiðsagnar Drottins hvað þetta varðar.  Við veitum nú eftirfarandi uppfærðar leiðbeiningar.

Allar opinberar samkomur kirkjumeðlima um allan heim skulu þegar í stað stöðvaðar tímabundið, þar til tilkynnt verður um annað. Það felur í sér:

  • Stikuráðstefnur, leiðtogaráðstefnur og aðrar fjölmennar samkomur
  • Allar opinberar guðsþjónustur, þar á meðal sakramentissamkomur 
  • Viðburði í grein, deild og stiku

Notið fjarfundarbúnað við alla nauðsynlega leiðtogafundi, þar sem mögulegt er. Sérstökum spurningum má vísa til prestdæmisleiðtoga heimasvæðis. Frekari leiðbeiningar tengdar öðrum málum verða veittar.

Biskupar skulu eiga samráð við stikuforseta sinn, til að ákveða hvernig skuli gera sakramentið aðgengilegt fyrir meðlimi, hið minnsta einu sinni í mánuði.

Við hvetjum meðlimi til að annast hver annan í hirðisþjónustu sinni. Við ættum að fylgja fordæmi frelsarans um að blessa og uppörva aðra.

Við berum vitni um elsku Drottins á þessum óvissutímum.  Hann mun blessa ykkur til að finna gleði er þið gerið ykkar besta til að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists í öllum aðstæðum.

Virðingarfyllst,

Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin