Fallegur kirkjusálmur sem heitir „Til endurgjalda“ (1) kennir okkur öllum að Drottinn vill að við séum eitt og hjálpum hvert öðru jafn mikið og við vorum blessuð með af okkar kærleiksríka himneska föður. Þegar við gerum það, höldum við betur musterissáttmálana sem við höfum gert við hann. Páll postuli kenndi: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar sem hughreystir mig í sérhverri þrenging minni, svo að ég geti hughreyst alla aðra í þrengingum þeirra á sama hátt og hann hughreystir mig“ (2). Hvílík blessun það er að geta stutt hvert annað og verið eitt í Kristi. Við fáum afrekað svo miklu meiru í sameiningu en einsömul.
Að vera eitt í Kristi er að læra orð hans saman í kirkju. Við erum öll ólík, með mismunandi gjafir, hæfileika, lífsreynslu og bakgrunn. Í slíkum fjölbreytileika, getum við fundið styrk þegar við einblínum á frelsarann og kenningar hans meðan við lærum saman í ritningunum. Heilagur andi mun vinna með okkur persónulega þegar við erum opin fyrir því að læra og auðga andlega reynslu okkar með því að tilbiðja Drottin saman.
Að vera eitt í Kristi, er að miðla vitnisburði okkar og læra ritningarnar saman heima sem fjölskylda. Börn eiga rétt á því að hlýða á vitnisburði foreldra sinna sem miðla skal oft í óformlegum og vingjarnlegum aðstæðum. Þau þurfa að vita að foreldrar þeirra vita að frelsarinn lifir og að hann leiðir kirkju sína. Hjón verðskulda að hlýða oft á vitnisburð hvors annars, til að styrkja trú hvors annars. Við lærum af Nefí: „Og vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna“ (3).
Að vera eitt í Kristi, er að gera fyrir hvert annað það sem frelsarinn gerði. Við lærum í ritningunum að í hvert sinn sem við hjálpum einhverjum að gera eitthvað til að komast nær frelsaranum komumst við jafnframt nær honum. Öll okkar þjónusta, þegar við förum og hjálpum einhverjum eða þegar við biðjumst fyrir heima persónulega eða sem fjölskylda til himnesks föður fyrir hönd einhvers, mun blessa okkur með andanum, við munum komast nær frelsaranum og verða nánari hvert öðru sem synir hans og dætur. Nefí kenndi okkur mikilvæga lexíu um það hvernig við getum stutt hvert annað þegar við erum ekki saman, en látum okkur samt annt um andlega og líkamlega velferð hvers annars. Hann sagði eftirfarandi: „Því að ég bið stöðugt fyrir þeim á daginn, og augu mín væta kodda minn um nætur þeirra vegna; og ég ákalla Guð minn í trú og veit, að hann heyrir hróp mín“ (4). Himneskur faðir elskar þau sem hjálpa börnum hans og mun blessa þau með enn fleiri tækifærum til að hlúa vel að einhverjum.
Við verðum eitt í Kristi þegar við komum í kirkju á sunnudögum og meðtökum sakramentið, er við deilum vitnisburði okkar um frelsarann og hið endurreista fagnaðarerindi hans og er við förum í musterið til að taka þátt í helgiathöfnum musterisins og þjóna hvert öðru. Við verðum eitt í Kristi þegar við „hugsum himneskt“ um hvert annað, reynum að sjá það besta í hverjum einstaklingi og vitum að Drottinn getur hjálpað hverjum sem er að koma til sín og breytast, ef sá hinn sami er fús til að upplifa þá gjörbreytingu.
-
Sálmar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu #90, „Til endurgjalds“
-
2. Korintubréf 1: 3–4
-
2. Nefí 25:26
-
2. Nefí 33:3