Vinátta við Krist

Boðskapur svæðisleiðtoga

Jesús talar við barn
Öldungur Erich W. Kopischke
Öldungur Erich W. Kopischke, Þýskalandi Annar ráðgjafi, svæðisforsætisráði Evrópu

Skömmu áður en frelsarinn lauk jarðnesku ætlunarverki sínu, átti hann fund með postulum sínum. Hann vissi að senn liði að því að hann myndi færa mannkyni sína stærstu gjöf. Hann vissi að þetta fæli í sér þjáningu í Getsemane og grimmilegan dauðdaga á krossinum. Hann vissi einnig að eftir þjáningu hans, dauða og upprisu myndu lærisveinar hans þurfa að útbreiða verki hans. Hann vissi að það yrði ekki nægilegt að veita þeim bara hina dýrmætu gjöf friðþægingarinnar, heldur var jafn áríðandi að allt mannkyn meðtæki gjöf hans. Þar af leiðandi leggja kenningar hans mesta áherslu á að við, lærisveinar hans, getum nýtt gjöf hans sem best.

Eitt af því sem frelsarinn setti fram, var mikilvægi þess að halda okkur nærri honum. Hann sagði: „Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar: Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert.“[1]

Hann gerði okkur því næst ljóst hvernig við getum haldið okkur nærri honum, með því að leggja áherslu á: „Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það. … Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn. Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.“[2]

Kristur miðlaði okkur einfaldri forskrift að því hvernig við gætum notið blessana friðþægingar hans í daglegu lífi okkar og liðsinnis hans og vináttu með því að gera einungis þrennt: Trúa á hann og orð hans, elska hvert annað og halda boðorð hans.

Í dag vil ég leggja áherslu á fyrsta atriðið: Trúa á hann og orð hans. Þegar við stöndum frammi fyrir persónulegum áskorunum í lífinu og róðurinn verður þungur, trúum við þá raunverulega á hann? Trúum við að kenningar hans eigi persónulega við um okkur? Hann sagði: „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.“[3] Jesaja sagði þessi hughreystandi orð: „…. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu.“[4]

Joseph M. Scriven (1819–1896) var 25 ára, ástfanginn og við það að ganga í hjónaband. Daginn fyrir brúðkaupið drukknaði unnusta hans í hræðilegu slysi. Niðurbrotinn sigldi Joseph frá föðurlandi sínu til að hefja nýtt líf í Kanada. Á meðan á dvöl hans stóð, vann hann sem kennari, varð ástfanginn á ný og trúlofaðist Elizu Roche, ættingja eins nemenda hans.

Aftur brustu draumar og vonir Josephs, er Eliza varð veik og lést fyrir brúðkaup þeirra. Þótt við getum einungis ímyndað okkur sálarstríð þessa unga manns, þá segir sagan okkur að trú hans á Guð hafi veitt honum styrk.

Hann giftist aldrei, en varði því sem eftir var ævinnar við að gefa tíma sinn, peninga og jafnvel fötin utan af sjálfum sér, til að liðsinna þeim sem voru ólánsamari. Hann helgaði líf sitt því að breiða út kristilegan kærleika og sýna samkennd, hvert sem hann fór.

Á svipuðum tíma og Eliza dó, fékk Joseph þau tíðindi frá Írlandi að móðir hans væri veik. Hann gat ekki farið til að vera með henni svo að hann skrifaði henni huggunarbréf og hafði þar með eitt af ljóðum sínum sem heitir Ó, þá náð að eiga Jesú.

Ó, þá náð að eiga Jesú (lag: Ísrael, Drottinn á þig kallar)

Ó, þá náð að eiga Jesú, einkavin í hverri þraut!

Ó, þá heill að halla mega, höfði sínu´ í Drottins skaut!

Ó, það slys því hnossi´ að hafna, hvílíkt fár á þinni braut,

ef þú blindur vilt ei varpa, von og sorg í Drottins skaut.

 

Eigir þú við böl að búa,  bíðir freistni, sorg og þraut,

óttast ekki, bænin ber oss, beina leið í Drottins skaut.

Hver á betri hjálp í nauðum? Hver á slíkan vin á braut,

hjartans vin, sem hjartað þekkir? Höllum oss í Drottins skaut.

 

Ef vér berum harm í hjarta, hryggilega dauðans þraut,

þá hvað helst er Herrann Jesús, hjartans fró og líknar skaut.

Vilji bregðast vinir þínir, verðirðu´ einn á kaldri braut,

flýt þér þá að halla´ og hneigja, höfuð þreytt í Drottins skaut.

 

Herrann Jesús hefur heitið, byrði vora' að bera hér.

Helgar bænir fylla hjartað, líkt og börnum þínum ber.

Brátt í dýrðarljóma björtum, bænir engar þurfum vér.

Bíður eilíf himinssæla, oss að njóta’ í faðmi þér.

Ég bið þess að á þessum páskum megum við vita að Jesú Kristur er vinur okkar, reiðubúinn til að hugga, liðsinna og lækna, ef við aðeins trúum á hann og orð hans.


[1] Jóhannes 15:5

[2] Jóhannes 15:7, 11–14

[3] Jóhannes 14:1

[4] Jesaja 25:8